17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6156 í B-deild Alþingistíðinda. (5530)

Um þingsköp

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það mál sem hér er til umr.

Ég hygg að þetta sé nokkuð áþekkt því sem venjulega hefur verið. En þegar ég segi það er ég ekki að mæla því bót. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það eigi að hafa betri vinnubrögð og ekki hrúga málum svo til afgreiðslu síðustu daga þingsins, eins og nú hefur verið gert, og venja hefur verið að gera.

Menn tala um skipulag í þessum efnum. Það er ágætt og einhvers konar skipulag er það sem við þurfum að koma á. En við þurfum að hafa það í huga að Alþingi Íslendinga er ekki venjuleg stofnun. Við setjum ekki hér skipulag sem er eitthvað hliðstætt við það sem sett er í fyrirtækjum með vinnuhagræðingu eða öðru slíku.

Það er tvennt sem sköpum skiptir í því hvernig vinnubrögð Alþingis eru. Það er annars vegar það að ríkisstj., hver sem hún er, leitist við að dreifa þeim málum, sem frá ríkisstj. koma og lögð eru fram, á þingtímann í heild. Og það er hitt að nefndirnar vinni sem best allan þingtímann og dreifi afgreiðslu þingmála úr nefndum á allan þingtímann eftir því sem við verður komið.

Við forsetar höfum á þessu þingi lagt alveg sérstaka áherslu á það að þetta væri gert. Við höfum gert það bæði með því að kalla formenn allra nefnda á okkar fund og ræða málin og fara yfir hvernig staðan er og það hefur verið gert úr forsetastóli. Því miður hefur þetta ekki borið þann árangur sem skyldi.

Ég vil hins vegar taka fram að þegar forsetar eru að leggja áherslu á betri vinnubrögð í nefndum eru þeir ekki að gefa nein fyrirmæli um það að nefndir skuli afgreiða öll mál, forsetar hafa ekkert vald til slíks, né að gefa fyrirmæli um það á hvern veg mál eru afgreidd. En það sem er höfuðatriði í þessu er það að nefndir hafi þau vinnubrögð að dreifa afgreiðslu mála eftir því sem við verður komið á allan þingtímann, afgreiðslu þeirra mála sem eiga að koma aftur til umr. í þinginu.

Það væri hægt að ræða mikið um þetta efni. Ég ætla að neita mér algjörlega um það. Mér þótti rétt að segja aðeins fáein orð að gefnu tilefni.