17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6157 í B-deild Alþingistíðinda. (5531)

Um þingsköp

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta það ef það mun hafa skitist þannig í minni fyrri ræðu hér að ég hafi sagt að hv. deild hafi verið á fundum alla vikuna. Ég meinti það ekki og vissi að við vorum ekki með kvöldfund á mánudag, en hér var fundur í húsinu þannig að álagið á starfslið þingsins var svipað, þó náttúrulega ekki eins mikið og þegar báðar deildir eru að störfum.

Ég þakka fyrir þær undirtektir sem hafa verið við það sem ég sagði hér í upphafi. Ég held þó að gæti ansi mikils misskilnings ef því er haldið fram, sem hér hefur komið fram, að hér sé verið að halda fram svipuðu og verið hefur undanfarandi ár. Þetta er ekki rétt. Skv. upplýsingum starfsfólksins hefur nú verið gengið lengra en nokkru sinni fyrr. Ef forsetar og þingflokksformenn réttlæta svona vinnubrögð með því að þetta hafi verið unnið þannig áður, þá finnst mér það miður og stefna í þá átt að við séum að láta undan ákveðnum þrýstingi í sambandi við vinnubrögð hér á síðustu dögum þingsins.

Um vinnubrögð nefnda og vinnubrögð þingsins allan þingtímann má ræða mikið og sjálfsagt hægt að skipuleggja þá vinnu á annan veg en verið hefur. En mér finnst að sú áhersla, sem lögð er á að klára mál á nokkrum dögum eins og gert hefur verið núna, gangi allt of langt. Ég var ekki sérstaklega að biðjast undan þeim fundi sem haldinn er hér í kvöld þó að mér fyndist að þau mál, sem á dagskránni eru nú, hefðu vel getað beðið morguns. En ég tel af og frá að það verði haldinn hér fundur aftur áfram annað kvöld. Mér finnst að þegar sé búið að ganga nógu langt í því að halda starfsliði þingsins hér til vinnu, að það verði gengið yfir öll mörk ef þannig á að halda fram. Þá sé sem sagt verið að réttlæta mál með því að halda því fram að fyrst þetta hafi kannske einhvern tíma verið gert svona eða menn telji sér trú um það, þá megi gera það enn á ný á þann veg. En það er ekki hin rökrétta hugsun að hafa það þannig. Heldur eigum við að stefna að því að laga málin en að láta þau alltaf ganga á hinn verri veg.