09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

70. mál, tóbaksvarnir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að reynt skuli að koma skikkan á reykingavenjur þjóðarinnar, fyrir nú utan það að þessi umr. er öllu líflegri og áheyrilegri en margt annað, þó að umræðuefnið sé dapurlegt.

Ég held að það megi skipta þeim vanda sem reykjendur og þjóðin þar með standa frammi fyrir í tvennt. Það er í fyrsta lagi vandamál þeirra kynslóða sem eru þegar orðnar þrælar hinnar hörðu húsfreyju tóbaksfíknarinnar. Og með þeim hef ég fulla samúð. (Gripið fram í: Með þrælunum?) Báðum. Í öðru lagi er svo málefni uppvaxandi og komandi kynslóða og tóbaksnotkun eða vonandi — notkunarleysi þeirra. Ég styð eindregið þá þætti þessa frv. sem miða að því að leiðbeina og fræða komandi kynslóðir og uppvaxandi kynslóð þessa lands um skaðsemi tóbaksreykinga og reyna að hindra að fleiri verði húskarlar á því harðindakoti sem reykingarnar eru nú.

En í framhaldi af því vildi ég svo spyrja hæstv. heilbrrh., (Forseti: Hann hefur vikið sér frá.) ef hann nær að svara, hvort ekki beri að skilja 13. gr. þessara laga þannig, að þar sé gerð till. um að banna alfarið reykingar í innanlandsflugi. Ég tek það fram að ég er hlynntur slíkri tilhögun. Ég bendi á að hér eru yfirleitt litlar og þröngar vélar og erfitt að aðgreina þá sem reykja og hina sem ekki reykja. Hér innanlands eru stuttar flugleiðir og ég tel ástæðulaust með öllu að hafa svo mikla samúð með reykjendum að þeir geti ekki setið á sér í 45 til 50 mín. eða eina klukkustund, eins og lengstu flugleiðir hér innanlands eru, og í þriðja lagi er þetta svo mikilvægt öryggissjónarmið.

Ég mundi fagna því ef svo er að skilja beri 13. gr. sem tillögu um að banna tóbaksreykingar í innanlandsflugi alfarið.