17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6162 í B-deild Alþingistíðinda. (5554)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu þessa máls klofnaði n. í minni og meiri hl. Minni hl. hennar skipa auk mín Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Eiður Guðnason, en Stefán Benediktsson, sem sat fundi n., er samþykkur þessu nál.

Eins og kunnugt er hefur frv. þetta verið í undirbúningi í tvo mánuði, en því var ætlað það hlutverk að rétta af mikinn halla ríkissjóðs sem hefur blasað við frá því að fjárlög voru afgreidd þótt vandinn væri að vísu ekki viðurkenndur fyrr en í febrúarmánuði s. l.

Eins og rakið var af okkur fulltrúum stjórnarandstöðuflokka við 1. umr. málsins er meðferð ríkisstj. á máli þessu að sjálfsögðu ekkert annað en uppgjöf því að hún leggur til að meginhluti vandans verði afgreiddur — ég vil ekki segja leystur heldur afgreiddur — með stórfelldri erlendri lántöku. Þótt ekki geti það forðað ríkissjóði frá miklum rekstrarhalla forðar það ríkissjóði frá greiðsluþroti.

Ég hygg að því sé ekki mótmælt að þessar erlendu lántökur, sem nú eru teknar til rekstrar á vegum ríkissjóðs, eru einsdæmi og verða ekki fundin nein önnur dæmi þess að erlend lán séu tekin til þeirra verkefna sem hér er gerð tillaga um. Það var greinilegt að hv. þm. Lárus Jónsson, 2. þm. Norðurl. e., skammaðist sín dálítið fyrir þessar erlendu lántökur. Sérstaklega skammaðist hann sín fyrir að lán skyldi tekið til uppgjörs á meðlagsskuldum Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Það hefur að vísu enginn haldið því fram að þetta erlenda lán eigi að ganga beint í vasa þeirra sem börnin hafa átt, en hinu verður ekki neitað að skuldir þeirra sem börnin hafa getið eru orsök þess að tekið er þetta erlenda lán og þarf ekki fleiri orð um það.

Hv. þm. var hér með miklar heimspekilegar hugleiðingar um hvað hæstv. fjmrh. hefði fengið mikið í kassann sinn ef þjóðartekjur væru þær sömu á þessu ári og á árinu 1982, ef miðað er við raungildi og sama hlutfall af þjóðartekjum. Hann sagði að ef tekið væri í skatta til ríkissjóðs sama hlutfall og þá var gert næmu skattar á yfirstandandi ári milli 3.5 og 4 milljörðum kr. og þar sem hið margfræga gat væri ekki upp á nema 2 milljarða væri bersýnilegt að við þær aðstæður hefði orðið stórfelldur afgangur upp á 1.5 til 2 milljarða. Ekki heyrðist mér betur en þetta væri röksemdafærslan, enda er það í fullu samræmi við það sem lesa má í nál. sem meiri hl. hefur sent frá sér. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þetta reikningskúnstir með ólíkindum og ekki samboðið formanni fjvn. að bera þær á borð — eða heldur hann að ef þjóðartekjur væru þær sömu og árið 1982 að raungildi og efnahagsástand hliðstætt því sem þá var væru útgjöld ríkissjóðs ekki verulega miklu meiri en þau eru í dag? Er ekki hætt við því að margt væri með töluvert öðrum hætti í ríkisbúskapnum, t. d. launagreiðslur hjá ríkinu? Það segir sig sjálft að það þýðir ekki að taka bara tekjuhlið fjárlaganna og margfalda þær tölur miðað við einhver hlutföll sem breyst hafa milli tveggja ára, en sleppa alveg gjaldahliðinni. Auðvitað eru þessar reikningskúnstir fyrir neðan allar hellur.

Á bls. 5. er fskj. III sem Þjóðhagsstofnun hefur sent hv. fjh.- og viðskn. Það hefur nú einhvern veginn farið fram hjá mér. Ég veit nú ekki hvers vegna, í öllu falli man ég ekki eftir því að hafa fengið það í hendur, en vera má að það sé mín sök, ég vil ekki fullyrða um það. En ég verð að segja að það er ekki aðeins hv. meirihlutamönnum til minnkunar að bera slíkt plagg á borð, heldur er það til stórfelldrar minnkunar fyrir þá sérfræðinga sem senda slíka reikninga til okkar og ætlast til þess að við trúum þeim. Í því er gerð lausleg áætlun um árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna lækkunar og/eða niðurfellingar skatta árið 1983–1984.

Ég get í fyrsta lagi bent á það með mjög auðveldum hætti að sumar tölurnar, sem hér eru nefndar, eru bersýnilega vanáætlaðar. Ég get nefnt sem dæmi afnám 10% álags á ferðamannagjaldeyri. En maður er nú orðinn vanur því að sérfræðingarnir hjá Þjóðhagsstofnun áætli ekki mjög grimmilega þegar tekjupóstarnir eru annars vegar. Auðvitað má alltaf deila um hverjar hefðu orðið tekjur ríkissjóðs af ferðamannagjaldeyri á þessu ári. Þar eru ýmsar forsendur sem skipta miklu máli. En þó er ég alveg viss um að það á eftir að koma í ljós að þessi tala er röng. Þessa tölu getum við reiknað út í árslok og við skulum bara sjá til, þegar þar að kemur, hvor hefur rétt fyrir sér í þeim efnum. Ég hygg að tekjutap ríkissjóðs á s. l. ári vegna afnáms gjaldsins á hálfu ári þá hafi ekki numið minni upphæð en 50 millj. kr. Ég hygg að talan hafi jafnvel verið enn hærri. Auðvitað er þessi upphæð ekki minni en 130–140 millj. kr., kannske enn hærri.

En það sem er verra við þessa töflu Þjóðhagsstofnunar er að það vantar helminginn af sköttunum sem hafa verið felldir niður eða lækkaðir. Þeir nefna hérna tekjuskatt einstaklinga 250 millj., lækkun innflutningsgjalda af bifreiðum 50 millj., afnám álags á ferðamannagjaldeyri 100 millj., lækkun tolla og vörugjalds 70 millj., niðurfellingu söluskatts af innfluttum vélum og tækjum til landbúnaðar 80 millj. Þessir skattar og tollar hafa vissulega verið lækkaðir eða felldir niður, en þá er eftir að geta um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem var lækkaður úr 1.4% í 1.1%, tekjuskatt félaga, sem var lækkaður verulega fyrr í vetur eins og menn þekkja, bæði tekjur af hlutabréfaeign einstaklinga og tekjuskattur lögaðila sem framkvæma fjárfestingu, lækkun á eignarskatti félaga, sem framkvæmd hefur verið með heimild í sömu lögum, frv. um gengismun og gjaldeyrisviðskipti, sem er að ganga í gegnum þingið þessa dagana, og lækkun skatts á innlánsstofnanir sem líka er að verða að lögum þessa dagana. Það vantar hvorki meira né minna en fimm skatta í þessa upptalningu af tíu sem ættu að vera þar. Ég verð að segja að tölur af þessu fagi eru viðkomandi stofnun til háborinnar skammar.

Við 1. umr. málsins rakti ég þvílíkt hneyksli það væri að tekin væru erlend lán til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, til Byggingarsjóðs ríkisins, til að greiða og gera upp lausaskuldir sjávarútvegsins, til að gera upp lausaskuldir bænda o. s. frv. og þarf ekki að fara frekari orðum um það. Hins vegar vil ég minna á það, sem ég gat ekki um við 1. umr., að auðvitað mun þetta frv. hafa í för með sér hættu á aukinni verðbólgu frá því sem ella hefur verið gert ráð fyrir vegna þess að hér er verið að spýta inn í efnahagskerfið verulegum fjármunum sem engin innistæða er fyrir með því að reka ríkissjóð með halla. Auk þess felur frv. í sér verulega skerðingu á félagslegum réttindum. Þar er um að ræða niðurskurð á framlögum til félagslegrar þjónustu, sérstaklega til tannviðgerða og sjúkradagpeninga. Ég vil vekja í þessu sambandi athygli á bréfi frá forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, sem ég hafði ekki séð við 1. umr. málsins, en í þessu bréfi staðfestir hann að niðurskurður sjúkradagpeninga kemur einkum niður á húsmæðrum, námsmönnum og verkafólki sem hefur ekki áunnið sér rétt til sjúkradagpeninga hjá atvinnurekendum. Ég vil því taka það fram að einmitt af þessari ástæðu munu stjórnarandstöðuflokkarnir greiða atkvæði gegn þeim greinum frv. sem fjalla um þessi mál.

Hins vegar vil ég taka það fram að við í stjórnarandstöðunni munum greiða atkv. með 11. gr. frv., sem fjallar um heimild til heilbrmrh. til að gefa út gjaldskrá fyrir tannlækna, og við munum einnig styðja þær greinar sem eru framkvæmd á samkomutagi við aðila vinnumarkaðarins frá því í febrúarmánuði.

Við meðferð málsins í nefndum kom fram að það er ætlun ríkisstj. að margfalda greiðslur sjúklinga til heilbrigðiskerfisins frá því sem hefur verið. Það mun gert ráð fyrir að á næstunni verði gefnar út ýmsar reglugerðir sem feli í sér stórfelldar hækkanir lyfja- og sérfræðigjalda, þar með talin röntgenþjónusta og göngudeildargjöld, og hækkun á þjónustu heilsugæslulækna. Ekki er gert ráð fyrir minni hlutfallslegri hækkun á þessum gjöldum vegna aldraðra og öryrkja samkv. þeim upplýsingum sem þingnefndum bárust frá heilbr.- og trmrn.

Eins og ég gat um við 1. umr. verða námsmenn fyrir sérstaklega alvarlegri árás samkv. þessu frv. þar sem hlutfall lána af umframfjárþörf námsmanna mun væntanlega lækka mjög verulega og hefur sennilega ekki verið lægra í hálfan annan áratug ef frv. þetta nær fram að ganga.

Þá er ótvírætt og kom skýrt fram við meðferð málsins í n. að frv. hefur í för með sér skerðingu á kaupmætti launa frá því sem gert hafði verið ráð fyrir þegar kjarasamningarnir voru gerðir. Hagdeild Alþýðusambandsins telur kaupmáttinn á fjórða ársfjórðungi verða 3% lakari en á síðasta fjórðungi s. 1. árs. Þar með er álitlegur hluti umsaminna kauphækkana tekinn aftur með þessum ráðstöfunum.

Minni hl. er andvígur þeim ákvæðum sem fjalla um skerðingu á tekjustofnum sveitarfélaga, en þetta er í fyrsta sinn sem gert er ráð fyrir skerðingu á verðtryggðum tekjustofnum sveitarfélaga.

Minni hl. mun greiða atkv. gegn tillögunni um heimild til aukinnar bindiskyldu Seðlabankans, en það er eitt þeirra mála sem ágreiningur er um í stjórnarflokkunum. Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á því að á sama tíma og verið er að auka bindiskyldu um 10% tilkynnir Seðlabankinn að ákveðið hafi verið að lækka afurðalán bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar.

Vegna þess að hæstv. fjmrh. er í kallfæri og má væntanlega mál mitt heyra ef hann snýr sér við vil ég leggja fram tvær spurningar til hans og vona að hann gefi sér tíma frá viðamiklum stjórnunarstörfum til að hlýða á þær.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hann að því hvort það sé gert með samþykki ríkisstj. að lækka afurðalán til atvinnuveganna og hvort ekki séu breytt viðhorf gagnvart því áformi frv. að hækka bindiskyldu Seðlabankans um 10% þegar Seðlabankinn er á sama tíma að tilkynna að hann sé að lækka lánshlutfall afurðatána. Ég er hræddur um að fleiri en ég geti ekki komið þessu heim og saman. (EKJ: Það eru fleiri sem koma því ekki heim og saman.) Ég hygg að þeir séu býsna margir sem komi þessu ekki heim og saman. Ég vildi eindregið mælast til þess að hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessum nýju viðhorfum sem skapast hafa við yfirlýsingu Seðlabankans um afurðalánin, hvort það sé þrátt fyrir þetta staðfastur ásetningur ríkisstj. að afla Seðlabankanum þessarar heimildar til aukinnar bindiskyldu.

Auk þess vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því hvort ekki sé von á ríkisreikningi fyrir árið 1983 áður en þinginu lýkur. Það hefur verið föst regla að ríkisreikningur fyrir liðið ár lægi frammi hér í þinginu áður en þing færi heim, a. m. k. þegar ekkí hefur staðið svo á að þing hefur verið rofið óvenjulega snemma. Í fyrra var þing rofið, eins og menn muna líklega, um miðjan marsmánuð og þá gafst nú ekki tími til að leggja ríkisreikning fyrir árið 1982 fram. En nú mun þing standa líklega ívið lengur en oft áður. Ég er farinn að sakna þess að sjá ekki ríkisreikninginn fyrir liðið ár á borðum þm. Ég hef nefnilega sterkan grun um það, eins og ég hef áður rakið, að ríkisreikningurinn fyrir árið 1983 muni sýna töluvert hagstæðari útkomu en greiðsluafkoma var um liðin áramót, enda hefur það verið venja á undanförnum árum og á sér ýmsar orsakir. Ég held það væri afskaplega nauðsynlegt fyrir þm. að fá að vita um það áður en þing lýkur störfum hver var afkoman hjá ríkissjóði á liðnu ári.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn.