17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6168 í B-deild Alþingistíðinda. (5556)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Sú frétt birtist í blöðunum í morgun og í útvarpinu í gær að bankastjórn Seðlabankans hefði í samráði við ríkisstj. ákveðið að lækka núgildandi endurkaupahlutfall afurðalána og að sú breyting sem þar væri gert ráð fyrir að gera væri veigamikill þáttur í því að ná betri stjórn á þróun peningamála. Einnig er það tekið fram í þessari tilkynningu að þetta sé einn þáttur af stefnumálum ríkisstj., að færa frá Seðlabankanum hina sjálfvirku, sem svo er kölluð, sem ég vildi heldur kalla hina sjálfsögðu, bundnu lánveitingu út á afurðir.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson mun líkast til hér á undan mér hafa verið að lesa upp úr ræðu Jónasar Haralz bankastjóra, en hann segir í nýútkomnu tímariti Félags viðskiptafræðinema m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nákvæmar athuganir hafa nú verið gerðar á hagþróun undanfarinna áratuga, ekki síst í því skyni að kanna áhrif hagstjórnar á þessa þróun. Niðurstöður þessara athugana bera það með sér að rök lágu aldrei til þess að hagstjórn gæti skilað þeim árangri.“

Það er sem sagt verið að undirstrika að aðferðir sem þessar, sem hér er verið að boða að séu stefnumarkmið ríkisstj., muni aldrei ná árangri og hafi aldrei náð árangri.

Það er svo annað mál það merkilega markmið ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. að leggja niður eða að hverfa frá hinum sjálfvirku, sem þeir kalla svo, afurðalánum til framleiðsluatvinnuveganna. Mín skoðun er sú að þessi sjálfvirku og þessi sjálfsögðu lán hafi byggt upp íslenska atvinnuvegi á undanförnum árum og séu aðalstoð þeirra. Ef þessi sjálfvirku afurðalán eða sjálfsögðu afurðalán hefðu ekki verið til staðar þegar var verið að byggja upp atvinnutækin vítt um landið, sá sem fór í atvinnurekstur mátti eiga það nokkurn veginn víst að hann fengi bundið afurðalán, hefðu slíkar framfarir ekki átt sér stað, t. d. í íslenskum sjávarútvegi, sem raun ber vitni. Það hefði ekki tekist með því að einhver útibússtjóri eða bankastjóri — þá oftast nær suður í Reykjavík — hefði sagt til um hvort þetta eða hitt fyrirtæki gæti fengið lán út á sínar afurðir.

Þegar svo bætist ofan á að með því frv. sem hér er verið að ræða skuli enn vera bætt við þá bindiskyldu sem lánastofnunum er ætlað að standa skil á til Seðlabankans verður enn þá merkilegra að Seðlabankinn minnki hin bundnu rekstrarlán til atvinnuveganna. Sé ég ekki hvaða möguleika viðskiptabankarnir hafi þá til þess að auka lán til sinna viðskiptamanna. Þá getur ekki annað út úr þessu komið en það að það verði minnkandi afurðalán til fyrirtækjanna. Og að hverju stefnir slíkt? Það getur ekki stefnt að öðru en að fyrirtækin verða að draga úr sínum rekstri því mörg hver hafa ekki möguleika til að standa undir auknum birgðum eða það sem við getum kallað „normal“ birgðum með minnkandi afurðalánum út á þær birgðir.

Ef það er svo ætlunin að halda þessum leik áfram og ganga út frá því að hver sá sem heldur uppi framleiðslu þurfi að ganga fyrir einhvern bankastjóra og spyrja: Vilt þú lána mér 30, 40 eða 50% út á afurðir, það er þér í sjálfsvald sett hvað há sú upphæð verður — þá held ég að það verði skrýtinn reksturinn hjá mörgum hverjum. Það má búast við því að sá bankastjóri sem fær þá bón þurfi oft og tíðum, ef þar er um að ræða útibússtjóra, að leita til sinna yfirmanna og spyrja þá hvað megi lána þessum eða hinum og útkoman verði stundum sú að mátið verði seint afgreitt og oft illa.

Ég vil sem sagt lýsa furðu minni á því að á sama tíma og það er gengið á hlut viðskiptabankanna með því frv. sem hér er til umr. sé lögð á þá viss kvöð eftir tilætlan ríkisstj. um að auka lánin til framleiðsluatvinnuveganna og að öðru geti ekki stefnt en að þarna komi upp vandræði sem hljóti að leiða að því að fyrirtækin verði að draga saman sinn rekstur, en það leiðir aftur til þess að atvinna minnkar í landinu.