09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

70. mál, tóbaksvarnir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar hlýtur að skipta okkur Íslendinga miklu máli. Það sér hver einasti maður sem skoðar fjárlögin og þær upphæðir sem við erum að verja til heilsugæslu og til tryggingastarfsemi í þessu landi.

Ég gruna hv. 10. landsk. þm. um að hafa ekki lesið þetta frv. Það bendir í það minnsta allt til þess að hún hafi ekki kynnt sér það sem stendur á bls. 8 og bls. 9 í grg. frv. Ég hygg að það væri engin von til þess að á Alþingi Íslendinga yrði samþykkt að banna reykingar, eins og hér er verið að leggja til á ákveðnum stöðum, ef reykingarnar snertu aðeins þá sem reykja. En samkvæmt athugunum sem gerðar hafa verið liggur það ljóst fyrir að svo er ekki.

Í þeirri skýrslu sem fylgir þessu frv. er getið um fleiri athuganir og rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir þá sem ekki reykja að umgangast fólk sem reykir. Ég ætla ekki að fara að lesa þessar skýrslur allar upp, en get ekki stillt mig um að lesa upp örstutta athugasemd sem er á bls. 11. Rannsóknir á um 91 þús. giftum konum, húsmæðrum í Japan, sýndu tvöfalda tíðni lungnakrabbameins hjá þeim konum sem höfðu verið giftar um 20 ára skeið mönnum sem reyktu 20 til 40 sígarettur á dag miðað við konur sem giftar voru mönnum sem ekki reyktu. Allt voru þetta konur sem ekki reyktu sjálfar.

Mér finnst það nánast skoplegt í þeirri umr. sem fer fram í þjóðfélaginu er menn fárast gegn kjarnorkuvopnum, gegn mengun og flestu því sem þeir geta hugsað sér að e.t.v. verði þeim nú að aldurtila, en sitji svo sjálfir reykjandi og eitra fyrir sitt umhverfi. Ég hygg að það hljóti líka að vera spurning um viðhorf, hvort mönnum finnst það sanngjarnt að frelsi einstaklingsins skuli vera á þann veg að hann megi rústa sína heilsu, en krefjast þess svo af samfélaginu að það greiði kostnaðinn.

Eitt er víst, að þetta frv. stígur aðeins örstutt skref á þeirri braut, sem þarf að ganga til enda, og það er að reykingar verði úrelt fyrirbrigði í íslensku þjóðlífi.