17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6174 í B-deild Alþingistíðinda. (5560)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Lækkun á endurkaupum Seðlabanka Íslands hefur verið hér nokkuð til umr. Ég vek athygli á að endurkaup Seðlabankans hafa fyrr verið lækkuð, voru m. a. lækkuð a. m. k. einu sinni í tíð fyrrv. ríkisstj. en hækkuð aftur. Seðlabankinn leitaði umsagnar ríkisstj. nú. Málið var lagt fyrir ríkisstj. og rætt þar, lögð á það rík áhersla að framkvæmdin yrði með þeim hætti að ekki yrðu lækkuð lán á fyrirliggjandi birgðum og sömuleiðis lögð á það rík áhersla að vandlega yrði fylgst með því hvort atvinnuvegir þjóðarinnar þola þessa lækkun á afurðalánum, og það mun vera gert, það mun verða vandlega með því fylgst.

Ég veit að það fer ekki fram hjá hv. þm. að núv. ríkisstj. telur rétt að viðskiptabankarnir sinni sem mest afurðalánum til atvinnuveganna. Það er tekið fram í málefnasamningi ríkisstj. Hins vegar hefur komið í ljós, sem kannske engan þarf að undra, að viðskiptabankarnir eru mjög misjafnlega vel í stakk búnir til þess að taka við slíkum lánum. Þess vegna er óumdeilanlegt að gera verður ýmsar breytingar á viðskiptabönkunum, færa verkefni á milli og lækka bindinguna til að gera þeim kleift að taka við þessum lánum. Það er jafnframt í undirbúningi.

Ég stend því fyrst og fremst upp til að fullvissa hv. síðasta ræðumann um að með þessu verður vandlega fylgst og viðræður við Seðlabankann um þau mál verða; eins og hingað til, stöðugar og fylgst með því hvernig viðskiptabankarnir bregðast við þessari lækkun. Ég tek undir það með hv. þm. að ég óttast það sjálfur að viðskiptabankarnir muni ekki auka afurðalánin eins og vænst er þrátt fyrir að afurðalánin eru nú orðin með jákvæðum raunvöxtum.

Fyrst ég er staðinn upp vil ég aðeins segja örfá orð til viðbótar um frv. almennt. Töluvert hefur verið á það deilt að dregið er úr því fjármagni sem Lánasjóði íslenskra námsmanna er ætlað. Mér sýnist þó að of mikið sé gert úr þeim fjárskorti sem menn telja að þar munni verða með haustinu. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að endurskoða eigi útreikning á framfærslukostnaði námsmanna. Þetta hefur verið framreiknað eftir athugun sem var gerð fyrir meira en áratug ef ég þekki rétt, og ég veit að t. d. námsmaður sem býr heima hjá sér og er jafnvel í fríu húsnæði og fæði fær 10 þús. kr. lán á mánuði. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég tel það vafasamt og honum ekki neinn greiði gerður með slíku. Hjón með eitt barn fá 34 þús. kr. lán eða töluvert hærra en laun eru á hinum almenna markaði. Ég held því að þetta megi endurskoða og þurfi alls ekki að koma svo hart niður á þeim sem í raun og veru þurfa verulega lánafyrirgreiðslu til að stunda nám. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að að sjálfsögðu viljum við og leggjum áherslu á að allir fái jafnan rétt til náms. Með þessu verður því vandlega fylgst um leið og útreikningur á framfærslukostnaði verður skoðaður.

Um gagnrýni á frv. almennt vil ég hins vegar aðeins segja að það er athyglisvert að yfirleitt er mjög á það deilt af öllum stjórnarandstæðingum að skert er sú þjónusta sem ríkið veitir þegnum landsins og sama hvar þar er borið niður. Það er einnig harðlega á það deilt ef einhverjar álögur eru auknar og tekjur ríkissjóðs þannig auknar. Og í þriðja lagi er mjög hart á það deilt er ríkissjóður er rekinn með halla. Ég verð því að segja eins og er að ég á erfitt með að sjá hvernig þetta dæmi gengur upp.

Ég er þeirrar skoðunar eftir ítarlega vinnu í þessu máli að jafnvægi í ríkisfjármálum verði ekki náð á einu ári, það taki, eins og hæstv. fjmrh. hefur margskýrt, lengri tíma, t. d. 2–3 ár, að ná jafnvægi. Þetta stafar m. a. af því að ríkissjóður á í vissum aðlögunarvanda þegar verðbólga gengur svo ört niður eins og hún hefur gert. Tekjur ríkissjóðs falla með minnkandi tekjum almennings og minnkandi þjóðartekjum, en útgjöldin hækka hins vegar að verulegu leyti með verðbólgu. Þessu mega menn ekki gleyma. Ég er því þeirrar skoðunar að hér sé farinn nokkuð góður meðalvegur og þó að ég hefði kosið að rétta þennan halla betur af tel ég þó að varhugavert hefði verið að ganga á kaupmátt þann sem um var samið í samningunum nú í vetur.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, lengja þessar umr. Ég veit að fjmrh. mun svara ýmsum sérstökum spurningum sem hér hafa komið fram.