17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6175 í B-deild Alþingistíðinda. (5562)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hóf sinn málflutning hér fyrir hönd minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. með því að lesa upp úr nál. hans og undirstrika að stjórnarandstæðingar hefðu bent á þann mikla halla, sem fyrirsjáanlegur var, nokkuð snemma á árinu eða í febrúarmánuði, eins og kemur fram hér í nál. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefði eflaust getað bent á þennan halla miklu fyrr. Svo vill nú til að við gerð fjárlaga var ég búinn að tilkynna að ég mundi láta gera úttekt á ríkissjóði og gefa þingheimi upplýsingar um stöðu ríkissjóðs vegna þess að ástandið var þannig að það blasti við hverjum sem horfa vildi á að vandinn var meiri en við jafnvel gerðum okkur grein fyrir við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir utan það sem féll af ríkisábyrgðum til viðbótar í ársbyrjun á ríkissjóð. Þegar þeir ágætu stjórnarandstæðingar tala um þá framsýni sem þeir höfðu í ársbyrjun voru þeir því að endurtaka þær upplýsingar sem ég hafði þegar gefið við gerð fjárlaganna.

Annars eru það tvær spurningar sem hv. þm. Ragnar Arnalds beindi til mín. Hann spurði fyrst hvort samþykkt hefði verið í ríkisstj. að lækka afurðalán og hvort það hefði verið rætt í ríkisstj. Að sjálfsögðu var það rætt í ríkisstj. Það var rætt tvisvar sinnum þó ekki hafi verið borið undir atkvæði þá, eins og gengur fyrir sig í ríkisstj. með mál. Það voru ekki greidd atkvæði — ég veit nú ekki hvort hv. þm. er að hlusta á svar mitt til hans — og það komu ekki fram mótbárur í ríkisstj. Þessi lækkun á afurðalánum í áföngum um 5%, sem ekki komi þó niður á eldri birgðum, var rædd í ríkisstj. í tvígang.

Seinni spurning hv. þm. Ragnars Arnalds var um ríkisreikningana. Þeir eru ekki tilbúnir. Þeir eru tilbúnir í fyrsta handriti og eru u. þ. b. að fara í setningu og síðan í prentun. Það er ýmislegt sem hefur tafið. Nýtt bókhald, nýtt lyklakerfi, hefur tafið vinnuna. Þá hefur ríkisbókari hætt starfi sökum lasleika, sjúkdóms, og nýráðinn ríkisbókari hefur ekki tekið við. En verkinu er fram haldið og er að verða tilbúið til prentunar og verður vonandi sent út innan skamms tíma.

Ég vona að með þessu hafi ég svarað þeim tveim spurningum sem virðulegur þm. beindi til mín.

Sú yfirlýsing hv. 5. landsk. þm., Eiðs Guðnasonar, að hann og þeir Alþfl.-menn hafa hugsað sér að greiða atkv. gegn þessu frv., kom mér mjög á óvart. Ég býst ekki við að nokkur maður hafi gert ráð fyrir því, en það er þá yfirlýst núna. Allar þær tillögur sem Alþfl. hefur komið með í gegnum árin gera það náttúrlega að verkum að Alþfl. hefur þetta gríðarlega mikla fylgi. Ég býst reyndar við því að hann haldi því nú þegar hann hefur gert svo góðar till., sem hv. þm. vitnaði til, að Framsfl. er jafnvel farinn að taka þær upp og mæla með þeim á miðstjórnarfundum.

Það er alveg rétt, sem kemur fram hjá hagsýslustjóra eftir því sem virðulegur þm. upplýsti, að aldrei hefur gengið vel að spara í rekstri. En ég get fullvissað hann um að með mjög góðri þátttöku starfsmanna hagsýslunnar og sérstakrar nefndar, sem hefur verið sett á laggirnar, er öðruvísi og betur fylgst með útgjöldum en áður hefur verið gert, og hv. þm. vita hverjir eru þar að verki, þannig að ég vona að góður árangur náist þar. Það er a. m. k. gerð tilraun til sparnaðar og við verðum öll að vona að sú tilraun heppnist, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, því að það er nauðsynlegt að hún takist vel.

Virðulegur þm. sér ekki ástæðu til að hlusta á ræðu mína svo að ég sé ekki ástæðu til að svara frekar því sem kom fram í máli hans.

Ég þakka fjh.- og viðskn. fyrir vel unnin störf í sambandi við þetta frv. og vona að það nái í gegnum þessa hv. deild í nótt ef mögulegt er.