17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6180 í B-deild Alþingistíðinda. (5585)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek mjög undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Það er ekki vansalaust að slík vinnubrögð séu viðhöfð á Alþingi eins og hér er um að ræða. Ég tek svo sannarlega undir það og hnykki þar á með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur við forseta að hann fari nú að taka afstöðu til þess hvort málið er afgreitt eða ekki sem lög.

Ég held að það væri rétt fyrir stjórnendur þingsins — ef ekki þeir þá við hinir óbreyttu alþm. — að fara að taka það til athugunar hvort ekki er tími til kominn fyrir hv. Alþingi í ljósi þess sem hér hefur nú gerst að fara að virða hvíldartímalögin sem sett voru hér á sínum tíma, til þess að þeir sem ráða ferðinni a. m. k. geri sér grein fyrir hvað er að gerast á hverjum tíma.