17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6182 í B-deild Alþingistíðinda. (5595)

Um þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér um ræðir, hefur að minni hyggju farið í gegnum þrjár umr. í Ed., þrjár umr. í Nd., eina umr. í Ed. og nú eina umr. í Nd. og var samþykkt án mótatkvæða, sem ekki skiptir efnislega máli. Hitt skiptir máli að forseti deildarinnar hefur lýst atkvgr. og jafnframt kveðið upp þann úrskurð að þetta frv. sé lög frá Alþingi.

Hitt held ég að allir þm. skilji og hafi fullan vilja til að taka tillit til ef mistök hafa átt sér stað varðandi efnisatriði, að afgreiða nýtt frv. í gegnum þingið á örskömmum tíma og greiða fyrir því. En það ætla ég að biðja þdm. um að hafa í hyggju að brjóta ekki svo niður gamlar þinghefðir, fundarsköp og venjur út af smávegis misskilningi, óaðgætni, sem við getum lagfært með öðrum hætti, að hvaða þm. sem er geti hvenær sem er og hvernig sem á stendur hafið umr. utan dagskrár um það að atkvgr. skuli taka upp af meira eða minna tilefni og halda svo áfram málþófsmálum með því að halda því fram í fyrsta lagi að þingstörf gangi ekki fram með eðlilegum hætti og í öðru lagi að gefa í skyn að alþm. hafi ekki hugmynd um hvað þeir geri með atkvæðagreiðslu sinni.

Ég vil vekja á því sérstaka athygli að prentuð dagskrá lá fyrir. Nm. allshn. höfðu öll þingræðisleg tök á því að koma við athugasemdum um það að atkvgr. færi fram. Ég tel að ef menn vilji taka mál til meðferðar að nýju í n., þá beri mönnum við 3. umr. að láta þeirrar óskar getið. Sá háttur hefur verið hafður á þann tíma sem ég hef verið kunnugur störfum þessa þings. En hitt, að lýsa atkvgr., sem farið hefur fram, ógilda eftir að mörg dagskrármál hafa verið afgreidd og með því halda því fram að yfirlýsing úr forsetastóli um að frv. sé orðið að lögum sé marklaus, enda þótt annað mál hafi verið tekið á dagskrá, á sér ekkert fordæmi í sögu Alþingis að fornu og nýju. En það hefur aldrei verið sá háttur hafður á í þessum sölum að nefndir Alþingis hafi ekki átt fullan kost á því að flytja frv. í sínu nafni. Ég man ekki til þess ef n. hafa verið sammála um slíkt að hinir almennu þdm., í hvorri d. sem væri, hafi reynt að bregða fæti fyrir að slík leiðrétting gæti átt sér stað. (Gripið fram í.) Ég held að það sé afskaplega erfitt að flytja frv. um sama málið vegna þess að frv. er til breytinga á lögum. Og hvernig eiga menn að flytja frv. til breytinga á lögum sem ekki eru á dagskrá og segja að það sé sama málið? Þetta er útúrsnúningur. (Gripið fram í.)

Þetta er þrætubókarlist formanns Alþb. sem hann er snillingur í. Ég verð að segja þó að ég telji sjálfur að ég sé sleipur í slíkum hlutum, þá finn ég oft til minnkunar þegar ég hlusta á hann tala. Og gjarnan vildi ég hafa þegið hans röksemdafærslu í vöggugjöf, að ég gæti hvernig sem á stendur fundið rétt rök fyrir mínum málstað og látið fólk trúa því í augnablikinu. En þegar nokkur tími er liðinn, þá sjá menn í gegnum það. Svo mun einnig vera um formann Alþb. þegar hann vaknar í fyrramálið. Þá áttar hann sig á því að allt, sem hann hefur sagt um þessa hluti í kvöld, er hreinasta rugl og eins og rutl sé komið á manninn.