17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6185 í B-deild Alþingistíðinda. (5605)

155. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 974 um frv. til l. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 52/1959, sbr. l. nr. 6/1966, nr. 48/1968, nr. 15/1974, nr. 37/1979, nr. 90/1981 og nr. 4/1983.

Nefndin hefur athugað málið á mörgum fundum og haft samráð við ýmsa sérfræðinga. Nm. ræddu ýmsar breytingar á frv. sem til greina gátu komið. Frv. þetta er byggt á samkomulagi formanna fjögurra stjórnmálaflokka á síðasta þingi og efnislegum breytingum á frv. varð ekki komið við þar eð samkomulag náðist ekki. Nm. lýsa því hins vegar yfir fyrir hönd flokka sinna að unnið verði áfram að málinu milli þinga og niðurstöður verði lagðar fram á næsta haustþingi. Nefndinni vannst heldur ekki tími til að ræða til þrautar tilhögun persónukjörs. Það verður með sama hætti rætt á milli þinga.

Með vísan til framanritaðs leggur nefndin til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 222 með tveimur breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali.

Brtt. þær sem við flytjum á þskj. 975 eru þessar:

Í fyrsta lagi: Við 1. gr. að 4. tölul. falli brott. Í stjórnarskrárlögum, sem hér verða bráðum til afgreiðslu, er fellt út lögræðisákvæðið. Í 4. lið 1. gr. kosningalagafrv. segir að þeir eigi kosningarrétt við kosningar til Alþingis sem „eru eigi sviptir lögræði“. Þess vegna hlýtur þetta ákvæði að falla brott.

Önnur brtt., sem við flytjum, er við 41. gr. og felur í sér að 2. mgr. falli brott, en hún hljóðar þannig: „Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 52/1959, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.“ Þetta leggjum við til að verði fellt út með hliðsjón af því sem segir í nál.

Þetta frv. er afrakstur af samkomulagi formanna fjögurra stjórnmálaflokka. Þessir formenn gerðu með sér samkomulag um afgreiðstu málsins í fyrra og gildir það við afgreiðslu málsins nú.

Ekki er þar með sagt að við sem sátum í lausanefndinni séum öll fullviss um að þetta verði gallalaus löggjöf. En eins og reyndar nál. ber með sér, samkomulag formanna er virt og við leggjum til að frv. verði samþykkt óbreytt. En auðvitað þarfnast þessi lög lagfæringar síðar.