17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6185 í B-deild Alþingistíðinda. (5606)

155. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að vekja á því athygli og raunar mótmæla hvernig hér er að verki staðið í sambandi við þau mál sem á dagskrá eru hverju sinni.

Hér er tekið fyrir með afbrigðum mál sem er miklu aftar í röðinni en mörg önnur mál sem verið hafa á dagskrá þessarar deildar undangengna fundi. Mörg mál af slíku tagi væri hér hægt upp að telja, en ég nefni t. d. hafnalög sem ég sé ekki að séu á dagskrá þessa fundar. Eru þau þó að mínu mati ekkert síður nauðsynjamál en það sem hér er um að ræða. Ég nefni mál eins og frestun byggingarframkvæmda Seðlabanka Íslands, 101. mál þingsins, sem verið hefur á dagskrá marga undangengna fundi en hefur ekki verið tekið fyrir og er ekki á dagskrá þessa fundar. Svona mætti miklu fleiri mál upp telja.

Ég sé ekki að þetta mál eigi að njóta neins forgangs umfram önnur mál sem borin hafa verið fram miklu fyrr á þinginu og eru a. m. k. mörg hver ekkert síður nauðsynleg en það mál sem hér er um að ræða. Ég mótmæli því, herra forseti, en vil taka það sérstaklega fram, af því að núverandi virðulegur forseti situr í forsetastól, að þessu er ekki beint til hans, þessu er að sjálfsögðu beint til þeirra sem hér ráða ferðinni í þessum efnum.

Ég krefst þess að þau mál sem miklu fyrr hafa verið lögð fram og hafa verið á dagskrá funda í Nd. marga undangengna daga og allt upp í vikur, njóti a. m. k. sambærilegs réttar og það mál sem hér er um að ræða. Ég vil því, virðulegi forseti, mælast til þess að þetta mál verði ekki tekið fram yfir önnur til umræðu hér, allra síst ef hér á að halda uppi næturfundi.