17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6207 í B-deild Alþingistíðinda. (5613)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við upphaf þessarar umr. í kvöld kvaddi ég mér hljóðs um þingsköp og gerði að umræðuefni þá meðferð mála sem hér er viðhöfð, gerði þar athugasemdir og mótmælti því að það mál, sem hér er nú til umr., væri tekið fram yfir önnur mál sem verið hefðu á dagskrá deildarinnar marga undangengna fundi í röð, nær svo vikum skiptir um hver, og eru að mínu áliti ekkert síður nauðsynleg. Af því að hæstv. aðalforseti þessarar deildar er nú kominn í stólinn vil ég ítreka þessi mótmæli mín að starfsemi á Alþingi og skipulag sé með þeim hætti að einstaka mál, sem seint eru fram komin eða síðar en önnur, séu tekin á dagskrá fundar og öðrum, sem verið hafa á dagskrá deildarinnar marga undangengna fundi, sé sleppt, ekki einu sinni sett á dagskrá. Ég vil enn fremur ítreka það, sem hér hefur komið fram, að það er Alþingi ekki sæmandi að ætla starfsfólki . þingsins að vinna undir þeim kringumstæðum sem það er búið að gera undangengin kvöld og nætur, mörg í röð.

Ég vildi gjarnan beina því og raunar gera kröfu til þess við hæstv. forseta að þessum fundi verði ekki fram haldið lengur. Þetta er raunar fjórða kvöldið í röð sem hér eru haldnir fundir. Hvað svo sem mönnum finnst um þm. sem slíka sjálfa þá er þetta ekki bjóðandi starfsfólki þingsins. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi lagt blessun sína yfir það brot sem mér sýnist hér verið að fremja á lögum um hvíldartíma sem tiltölulega nýlega hafa verið sett á Alþingi, hvort hæstv. félmrh., sem yfirmaður þeirrar lagaforsendu og lagasetningar, gildandi laga í landinu, hefur lagt blessun sína yfir það að með þessum hætti séu brotin landslög á starfsfólki þingsins.