17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6210 í B-deild Alþingistíðinda. (5621)

Um þingsköp

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki verið lengi hér í þingsölum, en ég er búinn að vera hér í 17 ár og í þessi 17 ár fullyrði ég að það hafi ekki verið fjórir næturfundir í sömu viku. Ég þekki ekki þingsöguna og skal ekki fullyrða hvernig það hefur verið áður en ég kom inn í þessa sali.

Ég man eftir því að þegar fyrrv. formaður Alþb., Lúðvík Jósepsson, var hér aftók hann með öllu að það yrðu fleiri en tveir næturfundir eða kvöldfundir í viku. Menn geta borið það saman við það sem nú er að gerast hér.

Ég held að þeir sem stjórna hér hafi engan sóma af því að stjórna á þann hátt sem nú er gert. Þetta mál var tekið til 1. umr. kl. 3 að nóttu. A. m. k. fór það fram hjá mér að það yrði tekið þá til umr. og ég hygg að það hafi farið fram hjá fleirum. Nú á að keyra þetta áfram fjórða kvöldið í röð sem hér eru næturfundir. Ég a. m. k. stend í þeirri trú að þarna sé verið að slá met, a. m. k. s. l. 17 ár.

Ég veit það, þó að ég ætli ekkert að skýra frá því, að það er óhæfilegt álag á starfsfólki þingsins og hefur verið þessa daga. Það er lítil tillitssemi gagnvart því hvernig málum er hér komið. En ég get vel verið hér í nótt og ég ætla að biðja forseta að taka mig á mælendaskrá.