17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6211 í B-deild Alþingistíðinda. (5623)

Um þingsköp

Jóhanna Sigurðardóttir: Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir þær óskir, sem hér hafa komið fram, um að þessum fundi verði ekki haldið áfram lengur. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að það hafa verið á undanförnum dögum haldnir hér margir kvöldfundir. Þetta er fjórði kvöldfundurinn sem haldinn er. S. l. mánudag vorum við hér til kl. 01:18, s. l. þriðjudag vorum við hér til kl. 00:15 og í gærkvöld vorum við hér til kl. rétt fyrir eitt og nú stefnir í það að við eigum langa nótt hér fram undan ef fer sem horfir að það eigi að halda þingfundum áfram.

Það hefur verið upplýst hér að stefnt sé að því að ljúka þessu þingi á laugardaginn kemur og það án þess að það liggi fyrir eða það hafi verið lagt fyrir þingflokkana nákvæmlega hvaða mál það eru sem stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að fá afgreidd fyrir þingslit og eins eru það auðvitað mörg mál sem stjórnarandstaðan er með sem hún leggur áherslu á að fá afgreidd fyrir þingslit. Ég fæ ekki séð að hægt sé að viðhafa eðlileg vinnubrögð á þeim tveim dögum sem nú eru til stefnu ef það er virkilega meiningin að ljúka þingi á laugardaginn. Við hv. þm. hljótum að gera þá kröfu að þau mál, sem við afgreiðum hér, fái eðlilega og vandaða meðferð í þinginu og umfjöllun og það er auðvitað lágmark, ef það er virkilega meiningin að ljúka störfum á laugardag, að hæstv. forsrh. geri þinginu nákvæmlega ljóst hvaða mál það eru sem lögð er áhersla á að fá afgreidd. Þegar það liggur fyrir er auðvitað fyrst hægt að leggja mat á hvort það sé raunhæft að ætla að stefna að að ljúka þingi á laugardaginn. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta að því hvort það liggi fyrir og hvort það sé brýnt að halda hér fundum áfram svo lengi með tilliti til þeirra mála sem á að afgreiða. Og þegar jafnþingreyndur maður og Stefán Valgeirsson upplýsir að það hafi aldrei fyrr gerst að haldnir hafi verið fjórir kvöldfundir í röð held ég að sé rétt, herra forseti, að við fáum það upplýst hjá skrifstofustjóra hvort það sé virkilega reyndin að við séum að slá met í kvöld. (Iðnrh.: Það er fjarri öllu lagi.) Þetta upplýsir hv. þm. Stefán Valgeirsson og hæstv. iðnrh. mótmælir því þannig að rétt er að fá úr því skorið. — En ég vil eindregið fara þess á leit við þá sem gert hafa eitthvert samkomulag um að slíta ekki þessum fundi fyrr en lokið er umr. um það mál sem hér er á dagskrá, hvort þeir geti þá ekki komið sér saman um að hafa aðra meðferð á því máli þannig að við þurfum ekki að sitja hér í alla nótt. Þingið á að taka sér þann tíma sem það þarf til þess að afgreiða mál og það er ótækt að ætla sér að gera það á tveim dögum, að mínu mati, ef eðlilega á að standa að málum.