17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6213 í B-deild Alþingistíðinda. (5626)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Sú spurning leitar nú mjög á og mér finnst vera gersamlega ósvarað hvaða knýjandi nauðsyn beri til að ljúka þingi á laugardaginn. Mér er alveg óskiljanlegt hvers vegna við getum ekki verið hér á hinu háa Alþingi þangað til við höfum lokið störfum. Ég get ímyndað mér að með skynsamlegri áætlanagerð gætum við lokið þeim um mánaðamótin. Ég held að menn séu fastir hér í gamalli hefð þegar menn riðu til Alþingis fyrir nokkrum áratugum og urðu að komast heim til að sinna búfé sínu. Ég held að menn hljóti að búa nokkru öðruvísi nú til dags og ég veit ekki betur en þjóðþing t. d. hinna Norðurlandanna ljúki yfirleitt ekki störfum fyrr en fyrstu dagana í júní. Ég óska eftir að fá svar við því hvers vegna þingi þarf að ljúka á laugardaginn.

Auðvitað er það gersamlega siðlaust hvernig búið er að fara með starfsfólk Alþingis þessa síðustu daga. Ég býst við að við öll finnum illilega fyrir þreytu, en við getum þó setið í sætum okkar og hvílt okkur öðru hverju. Það getur starfsfólkið ekki, enda bar svo við hér í gærkveldi að starfsfólkið náði ekki að anna því sem á það var lagt.

Annað vil ég segja. Hér biðja menn um að þm. stytti nú mál sitt um þetta hjartans mál hluta þingmanna, sem er ekki hjartans mál annarra — ég vil taka það skýrt fram — og að mínu viti með allra þýðingarminnstu málum þingsins. Hvers vegna skyldu menn stytta mál sitt? Hvað ber til að menn fá ekki að ræða þetta gífurlega þýðingarmikla mál sem menn leggja alla áherslu á? Auðvitað verður málið útrætt. En við skulum ekkert gleyma því að það eru mörg fleiri mál hér í þinginu sem þarfnast verulegrar umræðu og ég tel satt að segja að útilokað sé að ljúka þingi á laugardaginn. Ég vil allavega fá svar við því hvers vegna það er svo mikilvægt.

Ég vil að lokum taka það fram að áður en þessum fundi lýkur, og saknaði ég nú illilega ýmissa þingvanra manna eins og hæstv. iðnrh. fyrr í kvöld sem fyrrv. forseta þessarar deildar, vil ég fá svar við því hver verður úrskurður á þeim endalokum máls sem urðu fyrir slysni hér í kvöld. Ég hygg að hæstv. iðnrh. hafi ekki verið í salnum. Ég vil í örstuttu máli segja honum hvað gerðist. (Gripið fram í.) Jú, ég vil fá svar við þessu. Á meðan allshn. sat á fundi um mál varð málið að lögum. Ég vil fá svar við því, áður en ég fer af þessum fundi hver verða endalok þess máls. Ég vil lýsa því yfir að ég hyggst ekki sitja hér miklu lengur. Hvort tveggja ber til að ég hef lítinn áhuga á því máli sem hér er til umr. og annað að ég hef minni áhuga en áður á að sýna stjórnarliðinu þá drenglund að flýta fyrir afgreiðslu mála eftir þá meðferð sem mál fengu hér í kvöld, en það orsakast auðvitað ekki af neinu öðru en ofþreytu allra sem hér eru viðstaddir.