18.05.1984
Efri deild: 105. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6220 í B-deild Alþingistíðinda. (5646)

Um þingsköp

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég veit að sökin á þessum töfum liggur ekki hjá hæstv. forseta, en ég verð að telja þetta í hæsta mála óeðlilegt. Hér var gengið frá ákveðnum málum í nótt í lok fundar í Nd. og um það rætt að hér yrði stefnt að að ljúka fundum klukkan sjö. Menn lýstu sig reiðubúna til að vinna að því samkomulagi. Ef stöðugt á að slíta þennan dag sundur með einhverjum saumaklúbbsfundum í guð veit hvaða málum, þá sé ég ekki fram á að við getum lokið verki á tilsettum tíma. Samt sem áður erum við nánast skuldbundin til að gera það út af starfsfólkinu hérna því við getum ekki ætlað því það að vinna hér enn eitt kvöldið til viðbótar. Ég vil því biðja hæstv. forseta að koma því til skila til forráðamanna flokkanna að þeir reyni að koma sér saman um þau mál sem þeir virðast ekki geta komið sér saman um, þannig að við getum gengið hér til starfa með eðlilegum hætti.