18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6224 í B-deild Alþingistíðinda. (5657)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá fordæmingu sem hér hefur komið fram frá fyrri ræðumönnum, á þeim vinnubrögðum sem höfð hafa verið í frammi varðandi afgreiðslu á þessu frv. Ed. hefur aðeins haft nokkrar klukkustundir til að fjalla um þetta mál, sem hefur verið svo mikið í umr. meðal þjóðarinnar og einkum hjá ungu fólki sem á erfitt vegna húsnæðisvandræða. Það er til mikillar skammar hvernig að þessum málum hefur verið staðið og er gersamlega óviðunandi fyrir Ed. að una þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð í frammi.

Ég tel að það sé nauðsyn á því að í upphafi næsta þings verði gerð skipuleg áætlun um það hvernig þinghald skuli fara fram. Það verði skilgreint hvernig formenn nefnda eigi að vinna og hve langan tíma það tekur að fjalla um mál þannig að forsetar geti rekið á eftir málum. Það mætti hugsa sér þau vinnubrögð að formenn nefnda gæfu skýrslu mánaðarlega til forseta um gang mála, um fjölda nefndafunda og skýrslu um það hvernig málin eru stödd og forsetar mundu því í framhaldi af þeirri skýrslu geta rætt það hvernig afgreiða mætti mál.

Ég á ekki við það að illa hafi verið staðið að málum í þessari deild nema þá í undantekningartilvikum. Ég hef ekki undan mínum nefndarformönnum að kvarta en ég er hér að kvarta undan því hvernig staðið hefur verið að verki í Nd. Svo má og ætlast til að ríkisstj. beri fram sín frv. í tæka tíð, það séu ákveðin tímamörk á því ef meiningin er að koma málum í gegnum þingið. Ég ítreka það að einhvers konar skipulag verður að taka upp til þess að þessi vinnubrögð, sem hér hafa verið höfð í frammi á undanförnum þingum, eigi sér ekki stað. Það er mikil þörf á því að umr. fari fram um það hvernig mál eru afgreidd.

Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um það mál sem hér er til umr., einkum vegna þess að fyrirhugað er að ræða hér annað mál sem ekki er síður brýnt. Það liggur fyrir að við, sem höfum fjatlað um frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, höfum haft mjög skamman tíma. En við freistum þess þó að gera ýmsar brtt. til að gera tilraun til að forða því að frv. verði samþykkt eins meingallað og það er.

Megineinkenni þessa frv. er að ráðist er að hinu félagslega kerfi sem nú er til í húsnæðismálum og líka að fjármögnun þessa kerfis er öll úr lagi gengin. Ekki eru til fjármunir fyrir því sem verið er að heita fólki sem er mjög miður.

Fram kom í umr. í Nd., einkum um 33. gr. frv. hvar Búsetamönnum var ætlaður staður, að félmrh. var beygður í duftið hvað varðar hans skoðanir og varð að lúta því að formaður Sjálfstfl. felldi út þá grein sem félmrh. hafði lofað hinum fjölmennu samtökum Búseta að væri til þeirra. Gefin var út yfirlýsing af formanni Sjálfstfl. og einnig félmrh. sem hljóðar þannig:

„Félmrh. skipar nefnd til að gera tillögur um stefnumörkun varðandi byggingu leiguíbúða og semja frv. til laga um búseturéttarákvæði og kaupleigusamning. Stefnt verði að því að slíkt frv. verði lagt fram í byrjun næsta þings.“

Nú er það ljóst að félmrh. á undir högg að sækja í ríkisstj. og alveg eins eru líkur á því að þrátt fyrir að svona yfirlýsing hafi verið gefin verði ekkert úr framkvæmdum, það verði ekki staðið við þessa yfirlýsingu. Því gerum við í minni hl. till. um að þessi yfirlýsing verði fest í lögum, verði ákvæði til bráðabirgða og þannig verði þetta hjálpargagn fyrir félmrh. sem hann gæti notað í þessu máli. Ég vænti þess að þetta verði samþykkt.

Svo er annað sem við höfum ákveðið að gera brtt. um og það er við 9. gr. frv. og fjallar um fjármögnun þess. Þegar húsnæðislögin hafa verið rædd í þinginu á undanförnum árum, sem oft hefur skeð, hefur sú rödd heyrst að fjármögnun húsnæðislánakerfisins væri í miklum molum. Talsmaður fyrir þá skoðun hefur einkum verið hæstv. forseti Sþ. sem nú er, Þorv. Garðar Kristjánsson. Ég leyfi mér hér að taka upp till. sem er svo til alveg eins og þær tillögur sem hann hefur verið að flytja á undanförnum þingum og átalið menn mjög fyrir að samþykkja ekki. Því er það að ég vil eins og áður þegar ég hef verið meðflm. hans að þessum till. halda því fram að nú þurfi eins og fyrr að breyta þessum málum. Einkum varðar þetta framlög til Byggingarsjóðs ríkisins af innheimtum launaskatti og gerum við till. um að 2. tölul. 9. gr. orðist þannig:

„Með árlegum framlögum úr ríkissjóði sem nemur 2/3 hlutum af innheimtum launaskatti“ sem þýðir að 2 stig af 3 fari í Byggingarsjóðinn. Og í b-lið segir: „Á eftir 2. tölul. komi nýr tölul. er verði 3. tölul. og orðist svo: Með árlegu framlagi úr ríkissjóði skv. fjárlögum sem nemur eigi lægri fjárhæð en á vantar til að samanlagt framlag af launaskatti og fjárlögum ár hvert nemi 40% af fjármagnsþörf sjóðsins.“

Ég gæti þulið hér upp ræður sem hafa verið fluttar til framsögu fyrir svona till. af öðrum. Ég held að ég láti það ógert nú vegna tímaskorts. Það er mjög freistandi að gera slíkt og rökstyðja það nánar með tilvitnun í fyrri ummæli þeirra sem nú ráða. Ég læt það ógert, eins og ég segi, vegna þess að ég tel nauðsynlegt að önnur mál, sem eru á dagskrá hér, komist sem fyrst að.

Ég legg enn á það áherslu að verði þessar tillögur samþykktar er séð fyrir fjármagnsþörf húsnæðiskerfisins mun betur en ella og ég legg áherslu á það líka að verði till. um ákvæði til bráðabirgða samþykkt sé það hjálpargagn fyrir félmrh. í þeirri baráttu sem hann á í innan ríkisstj. við þá Sjálfstæðismenn sem eru andvígir því að Búseti fái lánveitingar.