18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6234 í B-deild Alþingistíðinda. (5682)

Um þingsköp

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég hef sem aðrir dm. fylgst með þeim umr. sem hér hafa átt sér stað í sambandi við þingsköp og hvernig undan hefur verið gengið þeirri ósk að 2. mál á dagskrá yrði tekið fyrir. Forseti var næstum því búinn að taka fyrir 6. mál á dagskrá, þ. e. ríkismat sjávarafurða. Það er málefni sem mér er nokkuð kunnugt og er þannig í pott búið að um það eru menn að miklu leyti sammála. Menn voru búnir að ganga frá því þannig að það ættu ekki að vera um það miklar deilur hér í Ed. Ég tel því mjög miður ef það mál er notað til að ýta öðru máli frá. Ég sé enga ástæðu til þess að 6. dagskrármál verði tekið fyrir hér í Ed. í kvöld. Það er ekki eftir að afgreiða nein deilumál sem orð er á gerandi a. m. k. Það þarf góða umr., en við munum ekki tefja það í einu eða neinu. En ef á að gera það mál að forgangsmáli fram fyrir 2. mál á dagskrá í Ed., sem ég tel að gefið hafi verið a. m. k. undir fótinn um að yrði tekið til umr. í dag, þá liggur málið allt, allt öðruvísi fyrir a. m. k. frá minni hálfu, ef á að fara að beita því máli, sem samkomulag hefur orðið um að skuli afgreitt hér frá Ed. í friði, sem úrslitamáli til að halda öðru máli frá umr.