18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6235 í B-deild Alþingistíðinda. (5683)

Um þingsköp

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skil vel vanda virðulegs forseta. Það er vissulega knúið á um afgreiðslu ýmissa mála núna í þessum önnum og vandi ærið mikill að velja þar og hafna. Ég bendi hins vegar á að aðaltafirnar í dag hafa ekki orðið af utandagskrárumr. eða umr. um þingsköp, heldur vegna þýðingarmikils þingflokksfundar þeirra hv. sjálfstæðismanna hér sem stóð í rúman klukkutíma eða vel það.

Ég bendi einnig á að af eðlilegum ástæðum urðu einnig dagskrártafir vegna þess að þskj. höfðu ekki borist nægilega snemma inn á borð þm. Sá tími hefði auðvitað verið ákjósanlegur til að hefja umr. um þetta margumtalaða mál.

Ég heyrði það á hæstv. iðnrh., sem er nú á hljóðskrafi við forseta, að hann vill ólmur komast í efnislega umfjöllun um þetta mál og ég vildi gjarnan heyra hans mál, kjarnyrt og hressilegt eflaust að vanda, og mæli þess vegna eindregið með því að hann komist í þessa umr. sem allra fyrst. Ég segi því: Væri nú ekki ráð, virðulegi forseti, að koma til móts við m. a. formenn tveggja þingflokka stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað, og hefja a. m. k. umr. og nýta þennan rúma hálftíma sem er til þess m. a. til þess að hlýða á mál hæstv. iðnrh. í þessum efnum?