18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6246 í B-deild Alþingistíðinda. (5690)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Sjútvn. Ed. hefur freistað þess að ræða þetta frv. eftir því sem efni hafa staðið til. Tími hefur verið naumur. Nd. hefur haft frv. til umfjöllunar í langan tíma og þess vegna hefur tími okkar verið of skammur. Þar hafa nm. fengið fjöldann allan af mönnum til viðræðna um málið. Hjá sjútvn. Ed. voru allnokkrir menn kallaðir til fundar og nokkrir menn sem ekki höfðu komið til Nd., menn sem gáfu okkur ágætar upplýsingar og innlegg í þá umr. sem hér er uppi.

Ég ræddi um frv. við 1. umr. og hafði margar athugasemdir fram að færa. Ég ræddi m. a. um það að frv. svaraði alls ekki þeim kröfum sem ég gerði til þess. Það verður hins vegar að játast að með ágætu nefndarstarfi, lipurð og samkomulagsvilja formanns og meðnm. minna hefur tekist að koma málum þannig fyrir að mestu agnúarnir hafa verið sniðnir af frv. Ég hirði ekki um að taka einstaka þætti af því fyrir en minni á að ég er sammála þeim brtt. sem hér koma fram og tel þær til mikilla bóta og hef í framhaldi af því að samkomulag náðist um þessar brtt. ákveðið að styðja frv. Það má finna að ýmsu í því, sem hefur vakið tortryggni, en það eru ekki svo veigamikil atriði að ekki sé ástæða til að falla frá andstöðu sinni vegna þess samkomulags sem náðst hefur.

Það féll niður úr nál. ákvæði eða árétting, sem þar átti að vera, er varðar síldarverkun. Svohljóðandi texti hefði þar átt að vera eins og formaður sjútvn. gerði ágæta grein fyrir:

„Vegna sérstöðu saltsíldarframleiðslunnar skal útflutningsmat saltaðrar síldar framkvæmt á vegum Ríkismats sjávarafurða sem jafnframt skal annast eftirlit með söltun og verkun síldarinnar, hvort tveggja skv. sérstakri reglugerð sem sjútvrh. setur um saltsíldarmat og eftirlits- og leiðbeiningarstarfsemi með söltun síldar.“

Ég endurtek að ég ætla ekki að fara yfir þær greinar sem ég hafði hugsað mér að fjalla um ef brtt. hefðu ekki komið fram eða ekki hefði náðst samkomulag um þær. Með tilliti til þess að samkomulag náðist um þær brtt. sem hér liggja fyrir mun ég greiða frv. atkv.