18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6247 í B-deild Alþingistíðinda. (5691)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni sjútvn. fyrir góða samvinnu í vetur og umburðarlyndi þegar kalla þarf marga menn til viðræðna eins og gerðist í sambandi við þetta mál. Ég sé nokkra góða kosti við þetta frv. Vil ég sérstaklega nefna að fulltrúi sjómanna benti á það að þau lög sem nú eru í gildi hafa hallað mjög á sjómenn. Tiltók hann m. a. að í dag er ekkert þyngdarmat á fiski heldur eingöngu lengdarmat og annars konar mat og taldi að þyngdarmat væri til bóta fyrir sjómenn. Í öðru lagi er með þessu frv. ætlunin að draga úr því bákni sem fyrir er enda ekki vanþörf á víða í þjóðfélaginu. Í þriðja lagi er þetta spor í átt til að skikka framleiðendur til að sjá um matið sjálfa. Ekki er talið tímabært að fara alla leiðina en þetta er spor í þá átt. Þær breytingar sem við fengum fram á frv. tel ég vera mjög mikið til bóta, sérstaklega breytingin á 16. gr., þar sem rn. átti að vera heimilt að svipta framleiðendur vinnsluleyfi, en því var breytt í Ríkismat sjávarafurða. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. með löngu máli enda höfum við rætt frv. vel í n. og farið ítarlega yfir það. Ég mun því styðja þetta frv.