18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6248 í B-deild Alþingistíðinda. (5693)

136. mál, hafnalög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eins og ég boðaði fyrir lok 2. umr. hef ég flutt á þskj. 955 brtt. við 12. gr. frv. til hafnalaga. Hún er sú, að í framhaldi af 4. tölul. komi tveir nýir töluliðir svohljóðandi:

„Verði misbrestur á greiðslu aflagjalds skal viðskiptabanki fiskkaupanda, ef óskað er, standa hafnarsjóði skil á greiðslu gjaldsins er hann tekur veð í viðkomandi framleiðslu.

Enn fremur skal útflytjandi eða banki er greiðir framleiðanda söluverð varnings greiða hafnarsjóði áfallið en ógreitt vörugjald af viðkomandi varningi.“

Þessi brtt. er samhljóða ákvæðum sem voru inni í frv. þegar það var lagt fyrir þingið og varðar miklu fyrir aðstöðu hafnarsjóða til að tryggja greiðslur á lögboðnum gjöldum. Ég hef hins vegar ekki tekið inn í brtt. ákvæði, sem var í 4. tölul. 12. gr. en fellt út af hv. Ed., þar sem gert var ráð fyrir að hafnarsjóður hefði haldsrétt í varningi, þ. e. útflutningsbirgðum, uns gjaldið er greitt, þ. e. vörugjald og aflagjald, þannig að ég hef ekki tekið upp öll þau ákvæði sem felld voru út úr þessari grein frv. af hv. Ed.

Við 2. umr. kom það fram að hæstv. félmrh. styddi eindregið þessa hugmynd um breytingu, sem ég hef mælt hér fyrir, og taldi hann það mjög miður að sú breyting hefði verið gerð í hv. Ed. á frv. sem um er að ræða. Einnig mátti skilja bæði við 1. og 2. umr. um þetta frv. að hæstv. samgrh. hefði talið til bóta að halda þessu ákvæði inni í frv. þó að hann greindi frá viðbrögðum í Ed. um þetta, þar sem samgn. Ed. stóð sameinuð að því að fella þetta ákvæði út.

Ég hef ekki heyrt eðlileg rök fyrir þessu og ég tel að það skipti afar miklu máli, eins og þegar hefur komið fram af minni hálfu, að hafnarsjóðirnir verði ekki afskiptir í sambandi við innheimtu þessara gjalda og þó að inni í frv., eins og það lítur út eftir 2. umr., séu ákvæði um að halda megi eftir skráningar- og þjóðernisskírteinum til tryggingar greiðslu skipa- og vörugjalda og vörugjald af útflutningi og aflagjald skuli auk þess tryggt með veði í útflutningsbirgðum þess aðila er skuldar vörugjald, þá tel ég að þau ákvæði, sem ég hef gert till. um að tekin verði á ný inn í frv., séu það þýðingarmikil að nauðsynlegt sé að leggja til að þetta verði fært til þess horfs sem var þegar frv. var hér lagt fyrir.

Ég vek athygli á að aðstaða hafnarsjóða í byggðarlögum víða um landið til þess að fara í harðar innheimtuaðgerðir vegna gjalda er ekki ýkjasterk gagnvart fyrirtækjum sem eru á viðkomandi stað og því eðlilegt að taka þá skipan upp sem gert var ráð fyrir í frv. upphaflega.

Ég vænti þess að brtt. fái góðar undirtektir og verði ekki til þess að tefja afgreiðslu þessa máls hér í þinginu því að ég tel að mörg ákvæði þessara laga horfi vissulega verulega til bóta og vænti þess að um það geti tekist samstaða að fá frv. breytt með þessum hætti.