18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6250 í B-deild Alþingistíðinda. (5699)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að mæla hér fyrir þessum tveimur frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum.

Þessi frv. hafa verið lengi í meðferð nefndar, sem var skipuð 1978 og lauk ekki störfum fyrr en á þessu ári, og þessi frv. eru samkomulagsatriði þeirrar nefndar óskiptrar og í hvorugu frv. breytt stafkrók af ráðuneytinu þegar það var lagt fyrir þingið. Þetta frv., sem nú er rætt, var unnið af nefnd sem sæti áttu í fulltrúar frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélskóla Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Vinnuveitendasambandi Íslands vegna kaupskipaútgerðar, Landssambandi ísl. útgerðarmanna og Vinnumálasambandi samvinnufélaga, en formaður var skipaður af ráðuneytinu.

Það má segja að sæmilegt samkomulag hafi tekist hvað snertir vélstjóra og vélaverði.

Ég fylgdi þessum málum ítarlega úr hlaði í Ed. og ætla ekki að fara efnislega yfir frv.

Í Ed. voru gerðar þrjár breytingar á frv. um atvinnuréttindi vélfræðinga og gekk það greiðlega eftir að nefndin hafði skilað störfum, en hins vegar hefur verið uppi allmikill ágreiningur meðal frammámanna í Farmannasambandinu og Skipstjóra- og stýrimannafélaginu varðandi atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum.

Frá 1. okt. 1982 til jafnlengdar 1983 voru veittar tæplega 1600 undanþágur. Þetta er í raun og veru ekkert nýtt því að þessi undanþágufaraldur hefur verið árum saman. Undanþágur til vélstjóra eru tæpar 1000 af þessum undanþágufjölda eða nákvæmlega 994 og til stýrimanna 437, en 161 til skipstjórnarmanna. Þetta eru ekki eins margir menn og talan gerir ráð fyrir því að sami maður hefur fengið fleiri en eina og fleiri en tvær undanþágur á þessu tímabili. Til að reyna að ná sæmilegum sáttum í þessu máli og til þess að frv. um atvinnuréttindi vélfræðinga komi til framkvæmda, sem um er sæmilegt samkomulag, en þá vil ég taka fram að það mun hafa sést yfir að kynna skipstjórnarfrv., þó að það hafi verið samið löngu á undan hinu, í ákveðnum félögum skipstjórnarmanna, þá ræddum við forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um það síðast í gær og formaður Vélstjórafélags Íslands að ég gæfi hér yfirlýsingu um afgreiðslu þessara mála og flytti brtt. við frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna.

Þessi yfirlýsing mín er þannig, að það skal tekið fram við afgreiðslu laga þessara að stéttarfélög skipstjórnarmanna og vélstjóra víða um landið óska eftir því að fá að gera brtt. við lögin sem lagðar verði fram eigi síðar en 15. okt. á þessu ári.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mun skipa nefnd í málið sem skila mun einu sameiginlegu áliti um þær breytingar á lögum þessum sem betur mættu fara. Ég hef ákveðið að skipa nefnd nú í vor þar sem óskað verður eftir tilnefningu fulltrúa menntmrh., Stýrimannaskólans og Vélskólans í Reykjavík og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands svo og útgerðaraðila til þess að gera till. um breyt. á þessum lögum þar sem m. a. verði stefnt að því að undanþágur verði ekki veittar þeim sem hafa ekki áður fengið undanþágu til skemmri eða lengri tíma. Þeim mönnum sem eftir breytingu laga þessara hafa ekki réttindi verði gefinn kostur á menntun í sínum landshluta og þannig að því stefnt að undanþáguveitingum verði hætt sem fyrst.

Ég kynnti þetta fyrir nm. í samgn. Ed. og ræddi um málið og tók hann að sér að gera nefndinni þar grein fyrir þessari afstöðu af því að Ed. var búin að afgreiða málið.

Þá vil ég flytja brtt. við frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, sem ég bið hv. samgn., sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að fjalla um. Brtt. er um að 15. gr. falli niður og breytist töluröð greina í samræmi við það. Í lok 21. gr., sem er 22. gr. í frv., komi eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:

Ákvæði um atvinnuréttindi samkv. 4., 7. og 8. gr. skulu taka gildi frá og með 1. jan. 1985.

Þetta er gert svo að réttindi verði ekki af þeim tekin aftur sem hafa öðlast þau, verði breyting gerð á lögunum sem væntanlega yrði þá í þingbyrjun. Þess vegna varð að samkomulagi að flytja brtt. um ákvæði til bráðabirgða.

Skal ég þá ekki hafa þessi orð fleiri um efni frv., en vil þó segja þetta að lokum: Hér kom fram í vetur fsp. út af undanþágum og það var eins og sumum hafi fundist það alveg stórkostleg breyting sem orðið hefur. Undanþágur hafa verið á undanförnum árum með svipuðum hætti. Þessar tæplega 1600 undanþágur ná að vísu til 800 manna eða svo eða þá heldur færri. Ég man nú ekki alveg töluna og þetta hefur verið hlaupandi frá ári til árs. Undanþágur þekkjast vart hvað snertir skipstjórnarmenn og stýrimenn á togurum, að undanskildum held ég þremur sem eru á listanum fyrir þetta tímabil. Ef þessi frv. verða ekki afgreidd núna heldur þetta undanþáguflóð hins vegar áfram. Enginn sem fer með samgöngumál mun svipta þá undanþágum sem hafa haft undanþágur á eigin bátum árum saman. Það mundi aðeins verða til þess að hella olíu á eldinn. En breytingar, sem nauðsynlegt er að gera, verður að framkvæma þannig að þær taki gildi um næstu áramót. Þegar þær hafa tekið gildi finnst mér eðlilegt að engar nýjar undanþágur verði veittar og þar með verði lokað fyrir það undanþáguflóð sem verið hefur áratugum saman.

Ég tel að með þessu sé verið að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi, en ef breyting verði á með undanþágur til alls þess fólks sem hefur haft þær árum saman held ég að það verði ansi mikil spenna í sambandi við þær breytingar.

Ég minni á að þegar iðnfræðslulöggjöf var sett á sínum tíma var undantekningarlaust orðið við þeim beiðnum að þeir sem unnið hefðu í viðkomandi iðngrein fengju iðnréttindi. Nú er þetta liðin tíð því að þessir menn fengu réttindi á stuttum tíma eftir að lög voru sett, en síðan hafa allir farið í nám. Vitaskuld verðum við að stefna að því að samdráttur verði ekki eins mikill og er einkum í Stýrimannaskólanum.

Það má líka segja að nokkur mistök hafi átt sér stað við menntun, sem ég ætla ekki að fara hér út í. En ég mun fyrst og fremst reyna að beita mér fyrir því að allir þessir aðilar setjist að samningaborði til að ná skaplegri lausn.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði báðum málunum vísað til 2. umr. og hv. samgn.