18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6256 í B-deild Alþingistíðinda. (5704)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hygg að hæstv. forseta og mörgum hv. þdm., sem hér eru nú inni staddir, sé ljóst að klukkan langt gengin tvö s. l. nótt var gert samkomulag a. m. k. af minni hálfu við fulltrúa þingflokkanna hér og suma hverja formenn flokkanna um það að fundi yrði frestað í nótt og 2. umr. um kosningalögin frestað til dagsins í dag. Síðan yrði henni haldið áfram og lokið. 3. umr. yrði síðan tekin líka í dag og henni yrði lokið fyrir kl. 7 í kvöld. Það varð samkomulag um það að halda ekki þingfundi í kvöld í ljósi þessa. Nú gerist það að þetta mál, sem samkomulag var um í nótt, er ekki tekið hér til umr. heldur önnur mál eins og hv. þm. er ljóst. Einnig hefur það gerst að annar stjórnarflokkanna, það ég best veit Sjálfstfl., hefur óskað eftir klukkutíma hléi á fundum í deildinni. Hvers vegna veit ég ekki og skal ekkert um segja. En þetta hefur það í för með sér að tíminn minnkar auðvitað sem því nemur sem deildin hefur til umráða til að ræða málið sem átti að ræða hér í dag. Ég vek athygli á þessu vegna þess að ég tel að þeir aðilar sem stóðu að samkomulaginu í nótt séu með þessum vinnubrögðum að rjúfa það samkomulag, sem var á þá leið að 2. umr. skyldi í upphafi fundar að sjálfsögðu fram haldið og síðan tekin 3. umr. Nú er gert hér klukkutíma langt fundarhlé að ósk annars stjórnarflokksins og í áframhaldi af því tekin önnur mál til umr. Af þessu leiðir að það mál sem mest var um rætt í nótt og var þess valdandi að langar umr. urðu hér um þingsköp, með þeim lengri sem hér hafa átt sér stað, er að engu gert. Er að mínu viti beinlínis stefnt að því að þetta mál, sem menn vilja fá að ræða, fái engan tíma hér á fundi í dag. Ég sé ekki betur en þeir aðilar sem þetta samkomulag gerðu við mig, séu með þessum hætti að rjúfa það. Ég tel mig því óskuldbundinn af því samkomulagi vegna framkomu þeirra aðila sem hér ráða ferðinni.

Það er tími til þess kominn fyrir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkana að gera sér grein fyrir því hvaða mál það eru sem á að afgreiða hér á þingi áður en því lýkur. Enn liggur engin vitneskja fyrir um það. Það er gjörsamlega útilokað að hægt sé að greiða fyrir framgöngu mála í gegnum deildina ef stjórnarflokkarnir geta ekki gert upp við sig hvaða mál þeir ætla að fá afgreidd áður en þingi lýkur. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum hér í ljósi þess samkomulags sem é taldi mig vera að gera og ætlaði mér að standa við. Ég sé ekki betur en gagnaðilar mínir að því samkomutagi séu hér að rjúfa það. Ég lýsi því hér með yfir að ég tel mig óskuldbundinn af því samkomulagi vegna þessarar framkomu.