18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6257 í B-deild Alþingistíðinda. (5706)

Um þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þau orð hv. þm. Karvels Pálmasonar að það er alveg dæmalaus sú árátta sem kemur fram í sambandi við þetta mál, að skáka því alltaf til hliðar á dagskrá. Við höfum núna tvisvar sinnum lent í því að hefja umr. um þetta um miðjar nætur og mér sýnist að þessi árátta, þessi myrkursótt, sé enn að verki vegna þess að ef svo fer sem horfir verður þetta til umr. í kvöld. Í sambandi við þann samning, sem talað var um í nótt, var aldrei talað um það og það kom aldrei fram að stjórnarflokkarnir mundu tefja þingstörf með síendurteknum fundum í dag. Talað var um að taka þetta mál til umræðu á þessum fundi á sæmilegum tíma og það átti að vera forgangsmál en ekki önnur.