18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6257 í B-deild Alþingistíðinda. (5708)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vænti þess að hægt verði að taka málið fyrir á góðum tíma segir hæstv. forseti. Gaman væri að fá að vita frá hæstv. forseta hvað hann telur góðan tíma til að ljúka 2. og 3. umr. um kosningalagamálið. Ég ítreka mótmæli mín við því háttalagi sem hér er uppi haft. Ég vil spyrja formann Sjálfstfl., þingflokksformann þess flokks, formann Alþb. og þá fulltrúa Framsfl. sem á þessum samningafundi voru í nótt: Var þeim ljóst þegar það samkomulag var gert að Sjálfstfl. ætlaði í dag að stöðva starfsemi þessarar deildar um klukkutíma? Lá það fyrir? Ég óska eftir því að menn svari þessu. Ekkert slíkt kom fram þegar við mig var rætt um það með hvaða hætti mál gætu gengið fram í dag.

Hæstv. forseti segir: Ég vona að hægt sé að standa við það samkomutag. - Það er búið að brjóta það nú þegar. Það er því ekkert um það að ræða héðan af að hægt verði að standa við það. Þeir sem ráða ferðinni á Alþingi hafa þegar rofið þetta samkomulag. Það er ekkert um það að ræða á þessu stigi máls að neitt bindandi samkomulag sé lengur í gildi að því er mig varðar varðandi kosningalagafrv. og stjórnarskrármálið. Ég læt a. m. k. ekki með þessum hætti leika á mig að því er varðar samkomulagsatriði. Ég er vanur því sjálfur að halda það samkomulag sem ég á annað borð geri og ég geri þá kröfu til annarra að slíkt hið sama gildi. Nú hefur það verið rofið af þeirra hálfu og það er þá þeirra að taka afleiðingum þess: Komið hefur fram hjá hv. þm. Guðmundi Einarssyni og ég trúi að fleiri hafi tekið málið svipað að ráð var fyrir því gert að 2. umr. yrði lokið um kosningalagamálið og stjórnarskrármálið strax í dag í upphafi fundar og síðan 3. umr. hafin. En nú kemur allt annað á daginn. Nú eru önnur mál tekin fram yfir og hlé gert á fundum deildarinnar trekk í trekk að ósk annars stjórnarflokksins sem þó gerði þetta samkomulag. Þessu mótmæli ég harðlega og krefst þess að a. m. k. formaður Sjálfstfl. og formaður þingflokks Sjálfstfl., sem hér eiga hvað mestan hlut að máli, og raunar hæstv. forsrh. líka sem sat samningafundinn í nótt, komi hér upp og geri grein fyrir því hvort þeir gerðu ráð fyrir þessum töfum á störfum deildarinnar í dag vegna óska Sjálfstfl. um fundarhlé trekk í trekk.

Þetta eru samningsrof að því er mig varðar, ég tala ekki hér fyrir munn annarra. Ég tel mig gjörsamlega óbundinn af þessu samkomulagi sem ég ætlaði þó að standa við í sambandi við umræður um kosningalagafrv. og stjórnarskrána.