18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6259 í B-deild Alþingistíðinda. (5712)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég heyri það að hv. þm. Svavar Gestsson hefur tekið það samkomulag sem gert var í nótt á nákvæmlega sama hátt og ég gerði. Samkomulagið var um það að deilumálið kæmi hér til umr. strax í byrjun fundar í dag þannig að tryggt væri að það kæmist út úr deildinni. Ég man ekki eftir því sem hæstv. forsrh. fullyrðir hér, það var a. m. k. ekki um það talað við mig, að ætla okkur tvo til þrjá tíma til umr. um það mál. Ég batt bara mig, ég veit ekkert um aðra — (ÓÞÞ: Í tvo, þrjá tíma?) Nei, ég batt mig við það að ég skyldi vera tiltölulega stuttorður, bæði við 2. umr. og síðan við 3. umr. líka, og það hafði ég hugsað mér að standa við. En þetta tveggja til þriggja tíma mark hef ég ekki heyrt áður.

Ég sé að hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, formanni þingflokks Sjálfstfl., er farið að líða illa. Ég hef óskað eftir að hann kæmi hér upp og greindi frá því hvort það hafi legið fyrir að þingflokkur Sjálfstfl. þyrfti a. m. k. klukkutíma til þingflokksfunda í dag. Hv. þm. Svavar Gestsson hafði ekki heyrt um það rætt að slíkan tíma þyrfti til að leysa ágreiningsmál í þeim þingflokki í dag. Ég held, hæstv. forseti, að vinnubrögð af þessu tagi séu ekki til þess að greiða fyrir því að stjórnarandstaðan liðki til fyrir málum í gegnum þingið nú þessa síðustu daga.

Ég ítreka enn að mér vitanlega hefur ekki verið lagður fram endanlegur listi um hvaða mál það eru sem ríkisstj. leggur kapp á að fari hér í gegnum þingið og verði afgreidd fyrir þinglok, nema þá að það hafi gerst á fundum í dag, það veit ég ekki um.

Ég veit ekkert um það hvað hæstv. forseti ætlaði sér að halda hér lengi áfram. Sé það rétt, sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan, að hér hafi verið um það talað að tvö eða þrjú stjórnarfrv. færu hér til 2. umr. auk þess sem búið er að ræða tvö stjórnarfrv. til 1. umr. þá hefur ekki verið gert ráð fyrir þessu inni í þessu samkomulagi hjá þeim. Ég skal því ekkert um það segja hvað hæstv. forseti hefði haldið lengi áfram í þeim dúr, sem hann hefur byrjað í dag og að mínu viti er brot á samkomulaginu, ef ekki hefði verið hafin umr. um þingsköp. Það má vera að sú umr., sem sett hefur verið á í dag, hefði getað dregist fram undir sex ef enginn hefði gert athugasemd við það. Þannig átti að leika á þá sem gerðu samkomulagið við höfuðpaurana í nótt. En það verður ekki gert, ég hef sagt það og segi það enn. Ég lít svo á að þeir hafi rofið það samkomulag sem ég gerði við þá. Hvort það verður til þess að ég haldi hér langar ræður um tiltekið mál skal ekkert um sagt á þessu stigi, það getur alveg eins verið í ljósi þess sem hér hefur gerst, en það hefði ekki gerst hefði verið staðið við það samkomulag sem ég taldi mig hafa gert.