18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6267 í B-deild Alþingistíðinda. (5715)

155. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að nú hefur tekist að fá hér þetta mál til umr. á kristilegum tíma sólarhringsins þó að menn hafi þurft að hafa nokkuð fyrir því. Þegar fyrir þessu var mælt var það gert kl. 3 að nóttu, stjórnarskipunarlagamálið rætt að nóttu til og sama hátt átti að hafa á við umr, um þetta mál í nótt og var að hluta til gert þó að tækist að koma í veg fyrir það að menn þyrftu að dvelja hér næturlangt.

Það er alveg með ólíkindum hvernig hv. þm. þéttbýlissvæðanna, eins og þeir kalla sig, hér við Faxaflóa tala um þessi mál. Ég er undrandi á hv. þm. sem var að ljúka máli sínu, Kristínu Kvaran, sem kennir sig við jafnaðarstefnuna, að hún skuli tala með þeim hætti sem hún gerði hér áðan. Það er engu líkara en þessir hv. þm., sem tala eins og síðasti hv. þm. og raunar fleiri — hv. þm. Bjarni Guðnason fyllir líka þann flokk — telji kosningarréttinn einu mannréttindin á Íslandi. Ekki verður annað séð á þeim ummælum þessara hv. þm. í þessu máli.

Hv. þm. Kristín Kvaran sagði áðan að allir ættu að hafa jafnan rétt til áhrifa á stjórnsýsluna. Hvernig standa þau mál nú í dag og hvernig hafa þau staðið? Ég hef ekki orðið var við að hv. fulltrúar BJ hér á Alþingi hafi haft afgerandi áhuga á eða forustu um að létta af því óréttlæti sem viðgengst í ótalmörgum þáttum milli fólks sem býr úti á landsbyggðinni og þeirra sem búa hér á þéttbýlissvæðunum. Málið er þannig í dag að hvað sem öllu vægi atkvæða liður hefur almenningur hér á Reykjavíkursvæðinu, suðvesturhorni landsins, miklu meiri áhrif á Alþingi, á löggjafarsamkomunni og miklu meiri áhrif á stjórnsýsluna í landinu en almenningur úti á landsbyggðinni hefur hvað sem öllu vægi atkvæða líður. Þetta ættu þeir hv. þm. að gera sér ljóst sem tala eins og hv. síðasti ræðumaður gerði.

Hv. þm. talaði um að lítið atkvæðamagn væri á bak við hæstv. forsrh. Ætli það sé ekki nærri lagi að 80–90% allra þm. lifi og hrærist í hinu mengaða andrúmslofti suðvesturhorns landsins og taki mið af hvað þar er um að vera og hvað þar þarf að gera. Menn ættu því að fara sér hægt í því að tala um að dreifbýlisfólk hafi afgerandi áhrif á löggjafarsamkomunni og á stjórnsýslusviðinu. Þessu er þveröfugt farið. Hv. þm., sem tala eins og hv. þm. Bjarni Guðnason og hv. þm. Kristín Kvaran, með dómgreind langt fyrir ofan meðallag, eiga ekki að láta sér slíkt um munn fara í ræðustól á Alþingi. Þessir hv. þm. vita miklu betur. En kannske er þetta gert til þess að það falli í kramið hjá kjósendum á þessu afmarkaða svæði hér á suðvesturhorninu.

Ég hef sagt það og segi enn, allt tal í sambandi við ójafnan kosningarrétt er fyrst og fremst í munni tiltölulega fárra en kannske útvaldra pólitískra flokksgæðinga hér á suðvesturhorninu. Það er ekki almannarómur sem þar heyrist. Það eru fyrst og fremst raddir þeirra sem vilja gera tilraun til að ná til þessa fjölda sem hér er um að ræða og kannske hefur talið sig bera skarðan hlut frá borði í þeim viðskiptum hingað til.

Ég hélt að það væri ekki til að létta neitt sérstaklega undir með málflutningi þeirra hv. þm., sem ég er hér að tala um, að vitna stanslaust og stöðuglega í hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Hann hefur ekki að mínu viti a. m. k. verið neitt átrúnaðargoð eða guð almáttugur í þessum efnum frekar en öðrum. En það er engu líkara en að hv. þm. Kristín Kvaran líti á Jón Baldvin sem einhvern allsherjargoða í þessu máli, í skoðunum á því hvernig þessum málum eigi að haga. Því fer víðs fjarri.

Þó að þeim hv. þm. sé margt vel gefið notar hann síður en svo rétta braut í þessu máli.

Það er kannske rétt núna þegar hingað er komið í þessari ræðu að ítreka það enn að það ætti vart að fara fram hjá nokkrum hv. þm. að ég er andvígur þessu máli og mun greiða atkvæði gegn því. Það er ástæða til að rökstyðja það með örfáum orðum þó ekki væri meira.

Ég er kosinn á þing fyrir Alþfl., fyrir jafnaðarstefnuna á Íslandi, og hef valið mér þar stað til að berjast fyrir þeim hugsjónum sem lagðar eru til grundvallar í baráttu þeirrar stefnu. Það vill nú svo vel til að sem betur fer hefur Alþfl. skýra og ótvíræða stefnu í þessum málum. Ég hef sagt það áður og get sagt það enn, án þess að ég ætli að eyða löngum tíma í það, að ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því að leiðrétt sé það misvægi atkvæða sem menn eru hér að tala um ef sú réttsýni ríkir jafnframt hjá hinum sömu mönnum, sem fyrir þessu berjast, að leiðrétta annað misrétti og óréttlæti í þjóðfélaginu sem kemur miklu meira niður á einstaklingum víðs vegar en það misvægi atkvæða sem menn eru hér alltaf að tala um.

Í stefnuskrá Alþfl. á bls. 11 segir, með leyfi forseta: „Allir landsmenn, hvar sem þeir búa, eiga jafnan rétt til þjónustu ríkisvaldsins og skulu hafa jafnan aðgang að henni.“ Er þetta svona í dag? Nei, því er víðs fjarri. Og áfram segir: „Alþfl. berst fyrir jafnri aðstöðu fólks, hvar sem það býr á landinu.“ Er þetta svo í dag? Nei. Og enn segir, með leyfi forseta:

„Skipulagslaus þróun byggðar á Íslandi hefur leitt og hlýtur að leiða til röskunar sem er andstæð þjóðarhag og þjóðarvilja og leiðir örðugleika yfir fjölda einstaklinga. Aðeins með áætlunarbúskap og forustu ríkisvaldsins verður byggðaþróun beint á farsældar brautir.

Í hverjum landshluta er þörf fjölþættrar atvinnuaukningar í iðnaði, þjónustu og opinberri starfsemi ásamt frumframleiðslu.

Fari svo að afskekkt byggðarlög verði ekki varin eyðingu þá á fólkið sem þar hefur búið rétt til aðstoðar af þjóðfélagsins hálfu.“

Rétt er að skjóta því hér inn í að afleiðingar af gerðum stjórnvalda undangengin ár hafa leitt til þess að stórfelld byggðaröskun hefur átt sér stað í landinu. Fólk hefur flutt búferlum vegna þess að ríkisvaldið, þjóðfélagið, sem hér segir í stefnuskrá Alþfl., hefur ekki séð því fyrir sambærilegri aðstöðu og öðrum sem búa hér á þéttbýlissvæðinu. Og áfram segir í stefnuskrá Alþfl.:

„Ákvörðunarvald í málum landshlutanna á sem mest að vera í höndum heimamanna og þurfa þeir að finna hentuga verkskiptingu milli núverandi sveitarfélaga og stærri eininga.

Sú þjónusta, sem kostuð er af ríkinu, svo sem skólamenntun, heilsugæsla og vegasamband, á að vera öllum jafnaðgengileg.“

Telja mætti upp miklu fleira þó að það sé ekki gert hér, en fæst ef nokkur þeirra atriða, sem hér eru upp talin í stefnuskrá Alþfl., eru með þeim hætti nú að allir eigi jafna aðstöðu í þessum málum. Það er óréttlæti líka ekki síðra en í því misvægi atkvæða sem menn hafa fullan munn af hér dögum, vikum og mánuðum saman nú seinni árin. Og áfram segir:

„Ríkisstofnunum á að dreifa um landið á hagkvæman og réttlátan hátt. Einnig er þörf átaks til að veita íbúum allra byggðarlaga sem greiðastan aðgang að allri félagslegri og menningarlegri þjónustu.

Byggðastefnan er jafnréttismál samtímans og eitt aðalviðfangsefni þess áætlunarbúskapar sem Alþfl. vill koma á.“ Hér hafa menn það svart á hvítu hver grundvallarstefna Alþfl. er í þessum málum. Ég hef talið mig sem jafnaðarmann vera að framfylgja grundvallarstefnumörkun Alþfl. og jafnaðarstefnunnar með þeirri afstöðu sem ég hef haft til þessara mála. Aðrir hafa villst af vegi varðandi stefnu Alþfl. Auðvitað er mönnum misjafnlega lagið að halda sér á réttum brautum og við því kannske ekkert að segja. En þegar — (Heilbr.-og trmrh.: Eða komast aldrei á brautirnar.) Er nú hæstv. heilbr.- og trmrh. genginn í salinn? (Gripið fram í: Þetta eru vegamál.) Ég sagði áðan að mönnum væri mislagið að halda sér á réttum brautum. (Gripið fram í: Eða flugmál.) Ég held nú að hæstv. samgrh. ætti sem minnst að tala um flugmál þessa dagana. Það er ekki svo vel farið þeim málaflokki í dag að ástæða sé til að hafa það í gamanmálum, allra síst af hæstv. ráðh. sem með málaflokkinn fer.

Þeir sem eiga erfitt með að halda sér á réttum brautum eiga að taka góðfúslegum leiðbeiningum um það að virða grundvallarforsendu og stefnumið þess flokks sem þeir eru talsmenn og forsvarsmenn fyrir. Enn sem komið er hafa nokkrir afvegaleiddir stigið feilskref í þessu máli. Hvort slíkt varir lengi skal ekkert um sagt af minni hálfu eða fullyrt en ég vona að okkur hinum takist að beina þeim á farsælli og réttari brautir en þeir eru nú á. (Sjútvrh.: Hvaða menn eru þetta?) Það er greinilegt að hæstv. sjútvrh. hefur ekki verið við þingstörf lengi undanfarið sé honum ekki ljóst hver hér á í hlut. (Gripið fram í: Hann er að glíma við þorskana. ) Já, og kannske fer honum það best. Er ekki hæstv. sjútvrh. sem varaformanni Framsfl. kunnugt um það hverjir það eru sem leggja áherslu á og flytja þetta mál? Afskaplega fylgist hæstv. ráðh. lítið með þingstörfum sé honum þetta ekki ljóst. Og ekki bara á þessu þingi heldur hinu síðasta líka. Þar var þetta mál til umr. og afgreitt. Hæstv. ráðh. hlýtur því að vera þetta í fersku minni. Þessi athugasemd hlýtur að hafa hrotið út úr honum óvart. (Gripið fram í.) Formaður Alþfl. hefur í þessu máli villst af réttri braut, það er rétt. Og það hef ég sagt við hann sjálfan og segi við hann hvar og hvenær sem er. Það þurfti ekki hv. þm. Ólaf G. Einarsson til að grípa þar neitt inn í, nógir eru erfiðleikarnir sem hann á við að glíma í sínum eigin flokki og hafa ekki verið leystir enn.

Ég gerði það að umræðuefni við umr. um stjórnarskipunarlögin sem ég tel, virðulegi forseti, að ekki sé nema sjálfsagt að ræða samhliða þessu máli sé ekki um það gerð athugasemd. (ÓÞÞ: Það verður að ræða það sérstaklega.) Það gerir þá hv. skrifari, hann er út og suður á við flesta aðra oft á tíðum. Honum er það heimilt í þessu sem öðru frá mínum bæjardyrum séð. (ÓÞÞ: En ég verð að biðja um þingsköp ef breytt verður um dagskrárefni.)

Ég sagði við umr. um stjórnarskipunarlögin að mér fyndist vanta á að forsvarsmenn þessa máls, sem hér er til umr., og stjórnarskipunarmálsins einnig, sem er nátengt mál, hefðu gert það sem í þeirra valdi stæði til að standa við gefin fyrirheit, sem þeir gáfu kjósendum í lok síðasta þings, með yfirlýsingu sem prentuð er sem fskj. með nál. um stjórnarskipunarlögin og kemur frá Ed. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár.“

Nú er rétt að grípa hér niður og staldra við. Hæstv. forsrh. túlkaði þetta sem svo um daginn að þetta hefði hann hugsað sér að gert yrði um leið og afgreidd yrði ný stjórnarskrá. Hún er búin að vera í endurskoðun í u. þ. b. 40 ár, þessi sem við búum við nú. Er það virkilega meining hæstv. forsrh. að önnur 40 ár líði þangað til eigi að fara að huga að því að standa við þessa gefnu yfirlýsingu sem fylgir með frv. sem fskj. frá fyrra þingi? (Gripið fram í.) Mér skildist það á hæstv. forsrh. um daginn en ég fagna því, hafi ég skilið það rangt. Nú held ég áfram, virðulegi forseti:

„M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra.“ — Taki menn nú eftir, hv. þm. Bjarni Guðnason, „óháð búsetu þeirra.“ — Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Svona var þetta samþykkt og þetta er prentað sem fskj. frá Ed. með nál. í stjórnskipunarlagamálinu. Þann 20. apríl s. l. var af hálfu þingflokks Alþfl. tilnefndur maður í nefnd af hálfu þingflokkanna að ósk hæstv. forsrh. til að vinna að framkvæmd þessa þáttar yfirlýsingarinnar um að jafna kjör og búsetuskilyrði manna. Enn sem komið er er mér ekki kunnugt um að neinn fundur hafi verið haldinn í þessari nefnd. Lausanefndin svokallaða — sem menn hafa gefið hér nafn og ég tek fram að ég hef ekki gert — sem fjallaði um kosningalagafrv. hefur hins vegar að ég best veit verið á tíðum fundum. En í þessari nefnd þingflokkanna, sem hæstv. forsrh. óskaði eftir að sett yrði á laggirnar til að vinna að framgangi þessarar yfirlýsingar, hefur ekki enn verið haldinn fundur mér vitanlega.

Alþfl. tilnefndi sinn fulltrúa 20. apríl og mér er tjáð að svo mikið hafi verið að gera í þingflokki Sjálfstfl. að honum hafi ekki enn tekist að ljúka af að tilnefna sinn fulltrúa í nefndina. Ég spyr: Er þetta rétt? (Gripið fram í.) Nei, segir hv. þm. Ólafur G. Einarsson. Er hægt að fá það upplýst hvenær það var gert og hver einstaklingurinn er? (Forsrh.: Ég hygg að það sé Lárus Jónsson.) Þú hyggur, hæstv. forsrh., ekki viss? (ÓE: Ég get staðfest það.) Hvenær var slíkt ákvarðað? (Gripið fram í: Hvers konar spurningar eru þetta?) Ef menn grípa hér fram í þá áskilur ræðumaður sér rétt til að spyrja á móti. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson, þó þingflokksformaður sé í stærsta þingflokknum hér á Alþingi, hefur engan rétt til að grípa fram í fyrir þeim ræðumanni sem orðið hefur þoli hann ekki að honum sé svarað á móti. (Gripið fram í.) Ég óska eftir því að hv. þm. Ólafur G. Einarsson fái orðið, hann getur fengið það strax, ég get gert hlé á ræðu minni. (ÓE: Ég hef ekkert beðið um það.) Ég þykist vita að hv. þm. sé ekkert um það gefið að gefa á því skýringu hvenær þetta gerðist í þingflokki Sjálfstfl. því að það var ekki búið fyrir örfáum dögum síðan. (ÓE: Það er rangt.) Rangt, segir þm. Þá gerir hann frekari grein fyrir því hér á eftir, það er eindregin ósk mín að hv. þm. láti þingheimi það í té hvenær þetta var gert.

Er hæstv. forsrh. farinn aftur? Er búið að kalla saman fund í þessari nefnd? Hver er formaður í þessari nefnd? Nokkur hv. þm. hér sem veit það? (Gripið fram í: Eru þetta venjuleg fundarsköp?) Það er heimilt að mínu viti skv. þingsköpum að spyrja úr ræðustól. Menn eru sjálfráðir um það hvort þeir svara. Ég veit ekki um neinn stað í þingsköpum þar sem ræðumanni sem orðið hefur er bannað að leggja fram svona spurningu. Það er svo hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann svarar. Og mér hefur heyrst á hv. þm. Ólafi G. Einarssyni þegar hann hefur talið sig hafa til þess dug að hann hafi verið óspar á að gera slíkt þó að farið sé að draga úr því í þessu máli.

Ég óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann upplýsi það hér hvort þessi margumtalaða nefnd, sem tilnefnd var af hálfu þingflokkanna til að sinna þessum þætti yfirlýsingarinnar um að jafna búsetuskilyrði manna, væri þegar tekin til starfa. (Forsrh.: Það er mjög skammt í það.) Þetta þýðir sem sagt: Hún er ekki enn byrjuð. Ég er ekki hissa á því vegna þess að hæstv. forsrh. sagði um daginn þegar ég spurði einmitt um þessa nefnd að hann hefði hugsað sér þessa nefnd til að fylgjast með því hvað væri að gerast í þessum efnum. Hugsið ykkur verkefnin. Hugsið ykkur hvernig standa á við fyrirheitin sem gefin voru með yfirlýsingum, skipa nefnd til að fylgjast með því hvað kynni að vera að gerast í þessum efnum. Halda hv. þm. að flokksformennirnir hefðu látið sér nægja að skipa slíka áhrifanefnd til að fylgjast með því hvað kynni að gerast í kosningalagamálinu á næstunni? Svari hver fyrir sig. Nei, nei, svara ég fyrir mig. Formönnunum er það greinilega miklu meira áhugamál að knýja í gegn þessa breytingu á kosningalögum og stjórnarskipunarlögum en að standa við fyrirheit í reynd sem gefin voru á síðasta Alþingi um að jafna búsetuskilyrði manna víðs vegar um landið. Það er þetta sem ég er að gagnrýna, að menn skuli taka einn þátt út úr þessu máli, knýja í gegnum þingið afgreiðslu á því en ætla sér síðan að svíkja hin gefnu fyrirheit á öðrum þáttum. Þetta gagnrýni ég sem jafnaðarmaður, kjörinn til að framfylgja stefnu Alþfl., sem er jafnaðarstefna, réttlætisstefna og vill ójöfnuðinn burt, hvar sem hann birtist í landinu.

Ég vil biðja hv. þm., ekki síst þá þm. sem eru fulltrúar fyrir landsbyggðarfólkið, að hugsa nú alvarlega um þessi mál. Mig tekur sárt fyrir minn flokksformann að hann skyldi villast í þessa gryfju án þess að taka fleira með sem leiðrétta ætti, ekki síður vegna þess að það er margyfirlýst stefna Alþfl. að stjórnarskrármálið verði afgreitt sem heild en ekki slitið í sundur í einstaka þætti og þeir dregnir út og afgreiddir hér. En svo mikið lá á þessu að það varð að gerast — að vísu ekki á síðasta þingi — með undrahraða. Hvað kann þá að gerast þegar málið er afgreitt í darraðardans síðustu daga þessa þings á tiltölulega stuttum tíma? Skyldu ekki einhverjar gryfjur bíða manna í útreikningnum að afgreiða málið við slík skilyrði?

Hér ber allt að sama brunni. Menn hafa fallið í þá gryfju að ætla sér að tína út þetta eina atriði og telja sig vera að bjarga skinninu vegna mannréttindamáls. Ég gæti út af fyrir sig vel hugsað mér að taka þátt í að leiðrétta það ójafnvægi sem menn telja vera í misjöfnu vægi atkvæða ef annað væri tekið með. Ég bið menn að hugsa um það hvort það er óbilgjörn krafa af hálfu landsbyggðarfólks, sem býr við margháttað órétti, ójöfnuð í þjóðfélaginu af hálfu ríkisvaldsins, að aðrir þættir, sem hér hefur margoft verið bent á, séu leiðréttir í leiðinni. Ég tel svo ekki vera.

Það er út af fyrir sig margt til í þeim fullyrðingum, sem hv. þm. Bjarni Guðnason viðhafði hér s. l. nótt, að ekki væri hægt að styðja þetta frv. vegna þess að það tryggði ójöfnuð, óréttlæti. En hvað er landsbyggðarfólk búið að búa við það lengi að Alþingi og stjórnvöld ár eftir ár, áratug eftir áratug, afgreiði frá Alþingi lög sem auka misréttið, valda auknu óréttlæti gagnvart þessu fólki frá því sem verið hefur? Það hafa menn ekki hikað við að gera á hverjum tíma sem ráðið hafa ferðinni í þessum málum undangengin ár og áratugi.

Virðulegi forseti. Þó að vissulega væri til þess fullkomin ástæða að ræða þetta mál miklu ítarlegar og ég hafi allan rétt til þess í ljósi þess sem ég lýsti hér í dag þá skal ég ekki hafa mál mitt öllu lengra. En ég vil eindregið spyrja hæstv. forsrh. að lokum, sem hafði frumkvæði að nefndarskipan af hálfu þingflokkanna, hvort það sé virkilega meining hæstv. ráðh. að þessi nefnd eigi ekki að vinna og gera tillögur um úrbætur í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem gefin var og hvort vænta megi þess — og eftir því óska ég sérstaklega — að þessi nefnd skili a. m. k. tillögum til úrbóta í þessum efnum strax í byrjun þess þings sem kemur saman að hausti. Allra best og réttlátast væri að stjórnvöld sjálf gerðu þær ráðstafanir sem til þarf og þau hafa heimild til að gera til að létta af klyfjum þess óréttlætis sem íbúar víðs vegar í kringum landið í dreifbýlinu nú axla og verður að létta af ef ekki á verr að fara en þegar hefur verið til stofnað. Ég vitnaði áður í stefnuskrá Alþfl. sem ég hef talið mig vera að framfylgja í minni afstöðu og málflutningi í þessu máli. Mín lokaorð skulu vera þau að ég vænti þess að Alþfl. auðnist að hrinda í framkvæmd þeim grundvallarstefnumálum í þessum efnum sem er að finna í stefnuskrá flokksins og ég tel mig hafa verið að túlka að því er þetta mál varðar og ótal mörg önnur.