18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6273 í B-deild Alþingistíðinda. (5716)

155. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar gert var samkomulag við mig s. l. nótt setti ég það upp að formenn flokkanna yrðu viðstaddir þegar ég mundi fá að tala hér nokkur orð. Hins vegar lýsti ég því yfir að ég mundi ekki beita hér málþófi en ég mundi leggja fyrir þá nokkrar spurningar í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég mun ekki hefja mál mitt fyrr en staðið verður við þetta samkomulag og get beðið þess vegna eins og menn vilja. (Forseti: Ég vil taka fram að hér eru viðstaddir a. m. k. tveir flokksformenn og annarra mun nú leitað.) Herra forseti. Ef það kemur sér betur get ég geymt mína ræðu til 3. umr. í trausti þess að staðið verði við það samkomulag sem gert var. (Forseti: Það verður reynt að standa við það. En nú gengur í salinn hv. 3. þm. Reykv. Enn vantar hv. 1. þm. Suðurl. Mundi ekki hv. ræðumaður vilja byrja ræðu sína?) 1. þm. Suðurl. er nú kominn hér. (Forseti: Hann er kominn. Þá heldur hv. 3. þm. Norðurl. e. áfram ræðu sinni.)

Ég vil segja að þegar við vorum hér á næturfundinum í nótt rifjaðist upp fyrir mér gamall húsgangur sem ég mundi að vísu aldrei nákvæmlega hvernig ég hafði lært í bernsku, en hann gæti hafa verið svona:

Góður, betri, bestur,

bræður, þeir eru horfnir.

Vondur, verri, verstur,

virðast endurbornir.

umr. sem farið hefur hér fram og þau fundarhöld að undanförnu hafa verið með dálítið einkennilegum hætti. Margir fundir hafa verið í þessari lausanefnd sem svo er kölluð. Lausanefnd er gott orð í sjálfu sér og á kannske vel við ef menn fara að velta því fyrir sér hvað í þessari nafngift felst. En eftir því sem mér er tjáð vildu menn standa við þau loforð eða það samkomulag sem gert var og í sjálfu sér byggðist sú niðurstaða, sem fékkst út úr öllum þessum fundum, á því að gert var samkomulag sem menn vildu standa við þó að flestir væru óánægðir með niðurstöðuna. En það var annað samkomulag og loforð sem gef:ð var í sambandi við afgreiðslu þessa máls. En það þurfti a. m. k. ekki að flýta sér að standa við það.

Við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson fluttum till. á síðasta þingi í sambandi við þá breytingu sem verið er að gera á stjórnarskrárlögunum. Hún var á þá leið að skattamálum skyldi skipa með lögum. Við ákvörðun skatta á tekjur og eignir skal gætt jafnræðis þegnanna þannig að til lækkunar komi sérstakur kostnaður vegna búsetu eftir því sem nánar verður ákveðið í lögum. Ef þessi till. hefði verið samþykkt og hefði verið farið eftir henni væri vandinn leystur í þessu sambandi. En í grg. frv. á síðasta þingi, eins og hv. þm. Karvel Pálmason las áðan, er yfirlýsing frá formönnum allra þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem standa að flutningi þessa frv. Við nafnakall við till. okkar hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar vitnuðu menn margir í þessa yfirlýsingu í grg. Ég vil gera kröfu til þess að staðið verði við þetta fyrirheit og að málið verði ekki afgreitt fyrr en fyrir liggi hvernig standa eigi við það. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hvar er ætlað fjármagn nú til að standa við þetta fyrirheit?

Ég spurði áðan einn af þeim mönnum, sem voru skipaðir í nefnd til að kanna þessi mál, hvort búið væri að halda marga fundi. Nei, hann tjáði mér að enginn fundur hefði enn verið kallaður saman. Ég vil því spyrja formenn flokkanna sem flytja þetta mál: Er það samkomulag, sem þeir gerðu sín á milli, í þeirra augum meira virði en það samkomulag eða sú yfirlýsing sem þeir gáfu þjóðinni? Ég hef aldrei haldið því fram að ekki væri eðlilegt að jafna að einhverju leyti vægi atkvæða. Ég hef ekki heyrt annað en forustumenn flokkanna, a. m. k. þegar þeir eru komnir á fundi út á land, hafi talað um að landið þurfi að vera í byggð með líku sniði og það er nú.

En hvernig hefur til tekist þrátt fyrir þennan mismun á vægi atkvæða á undanförnum árum? Menn segja hér í þessum ræðustól að það séu mannréttindi að vægi atkvæða sé sem líkast alls staðar. En er ekki ýmislegt annað sem er líka mannréttindi? Ef menn eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé fyrir þessa þjóð að byggja landið og notfæra sér gögn þess og gæði verða menn líka að gera ráðstafanir til að mismuna ekki þegnunum eins og gert er þrátt fyrir það hvernig vægi atkvæða er nú. Það er afskaplega fróðlegt að fylgjast með hvað er að gerast í þessum málum. Ekki hefur gefist tími til að athuga um persónukjör. Fyrir hverju? Fyrir því að flokkarnir eru með reiknimeistara á sínum snærum sem reikna jafnvel dag og nótt hvernig þetta komi út þegar þessi og hin talan komi upp, verið er að reikna menn út og inn dag og nótt, hvernig þetta komi fyrir í hverju kjördæmi, fyrir hvern flokk o. s. frv. Það er aðalmálið og annað kemst ekki að. Nú er verið að hlæja að því út um allt land hvort tekin verði upp Jóns Ragnars aðferðin eða Þorkels aðferðin. Nú er hætt að vitna í útlendinga og þeirra reiknikúnstir sem mikið hefur verið talað um hér og var sérstaklega á síðasta þingi.

Ég ítreka þá spurningu til formanna flokkanna hvort það samkomulag, sem var gert á milli flokkanna, sé eitthvað heilagra í þeirra augum en sú yfirlýsing, það loforð, sem þeir gáfu þegnunum í sambandi við lausn á þessu máli. Ég mótmæli því algerlega að þetta sé afgreitt öðruvísi en það liggi fyrir hvernig á að standa við það fyrirheit.