18.05.1984
Neðri deild: 98. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6289 í B-deild Alþingistíðinda. (5736)

154. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég minnist þess að í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens var því lofað að gengið yrði frá nýrri stjórnarskrá fyrir þetta land og þannig að málum staðið að ekki yrði hreyft við einstökum þáttum stjórnarskrárinnar heldur hún afgreidd sem heild. Við, sem lögðum áherslu á að þannig yrði að málum staðið, gerðum okkur grein fyrir því að allar hugmyndir, sem eru byggðar á því að veita eigi héruðum eða landssvæðum meiri sjálfstjórn, eru blekking nema stjórnarskránni verði breytt. Það þýðir ekki að gera ráð fyrir því að við breytum svo verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi þess að sveitarfélögin eru fámenn og ófær með öllu um að gangast inn í það hlutverk út um hinar dreifðu byggðir. Þetta áform fór því miður á annan veg en ætlað var og þetta náðist ekki fram.

Nú hefur það gerst að nýir menn með ný loforð koma fram. Þeir lýstu því yfir sem flm. að frv. og með þingflokkana á bak við sig að annar ójöfnuður í landinu skyldi leiðréttur og það sem meira er, þeir hafa lokið því af að skipa menn í nefnd. Ég hygg að það megi einstakt heita að þau loforð, eins og frá þeim er gengið, stefna nú í þá átt að verða einskis virði. Hvers vegna segi ég það? Jú, það er greinilegt á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við að skipa þessa nefnd og þeim drætti sem þar á hefur orðið, ekki er enn þá búið að ganga frá því hvernig kalla eigi hana saman. Ekki er búið að skipa formann í nefndina eða ganga frá því formlega að hún kjósi sér þá sjálf formann.

Allt útlit er fyrir það að stjórnarandstaðan sem slík telji að hún muni enga ábyrgð bera á þessum loforðum lengur. Það kom fram í máli hv. 5. þm. Austurl. þegar hann vildi varpa ábyrgðinni á stöðu mála yfir á ríkisstj. Hv. 5. þm. Austurl. hefði gjarnan mátt minnast þess að ekki hafa aðrir rétt Landsvirkjun stærri fjárhæðir í gegnum hækkanir á orkuverði og þannig staðið að meiri verðhækkunum á raforku sem er ein af brýnustu nauðsynjum hinna köldu svæða. Ég hygg að þær hækkanir hafi verið það miklar að fyrrv. ráðh. sé þetta ljóst. Hann efaði það ekki að þær hefðu orðið en hélt því aftur á móti fram að hann hefði ekki haft nein völd til að skipta sér af þeim gjaldskrám og það er allt annað.

Menn hafa verið að hneykslast á afmælisgjöfum og vissulega eru þær peningar. En hvaða fjármunir voru færðir til með þeirri hækkun á sínum tíma? Það var fært til svo mikið fé að Laxárvirkjun ein skilaði það miklum arði að Landsvirkjun þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af kostnaði vegna byggðalínanna. Ég hygg að þeir, sem nú keyra á um að stjórnarskrármálið sé klofið og aðeins þetta mál sett fram, geri sér fulla grein fyrir því að með þeim vinnubrögðum eru þeir að tryggja að lýðveldið, sem við stofnuðum 1944 og var kennt við landið allt, þróast með þessu móti dag frá degi yfir í það að verða borgríkið Ísland. Aðferðin til að tryggja þann grundvöll að þessu lýðræði, eins og hér er verið að byggja upp, borgríkisins, hefur falist í því að skrá gengi íslensku krónunnar yfirleitt rangt. Framleiðslusvæðin hafa orðið að selja sinn gjaldeyri á alröngu svæði og afhenda þjónustusvæðinu þennan gjaldeyri fyrir peninga, íslenskar krónur, sem voru lítils virði.

Menn trúa því e. t. v. þegar þeir standa að breytingu eins og þessari að þetta sé ekkert mál, það sé bara stjórnarskráin sem sé til umr., það eigi bara að afgreiða þetta hér helst án þess að ræða það. Það er eins og þessir menn geri sér ekki grein fyrir því að stjórnarskrá hvers lands eru grunnlög landsins, aðallög landsins og þau lög sem mestu stjórnspekingar í heiminum hafa glímt við að útbúa sem réttlátust.

Ég hef aldrei leitað eftir því að Vestfirðingar stjórnuðu Reykjavík. Ég hef aldrei farið fram á að þeir réðu því hvaða gjaldskrá væri hér á töxtum eða hvernig bæjarsvæðið væri skipulagt. En ég ætlast til þess og ég veit að það er grundvallaratriði ef hinar dreifðu byggðir eiga að fá að blómstra, þá verða þær að fá stóraukna sjálfsstjórn. Það er það sem verið er að koma í veg fyrir með því að kljúfa þetta mál. Ég lýsi vonbrigðum mínum með það vegna þess að ég held að þeir, sem leggja til þessi vinnubrögð, viti e. t. v. ekki hvað þeir eru að gera. Ég held að þeirra virðingarleysi fyrir stjórnarskránni sé því miður það mikið að þeir geri sér ekki grein fyrir því að til þess að breyta þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í landinu, verður að gerbreyta henni og tryggja forræði svæðanna. Með hvaða rétti t. d. ákveður Seðlabankinn kaup og sölu í dag á erlendum gjaldeyri? Er það eftir einhverju uppboðsverði? Er það einhver markaður sem ákveður það? Ég sé að sumir horfa út um gluggann. Er það eitthvert slíkt kerfi sem við höfum útbúið okkur og tryggir að verið sé að afgreiða þetta með eðlilegum hætti? Nei, hér eru framkvæmdar hreinar eignaupptökur hvenær sem valdhöfum þjóðarinnar dettur í hug. Ég veit að þeir, sem lengi hafa unnið við sölumál sjávarafurða, gera sér grein fyrir því að þetta er satt. Ég held að eitt af því sem verði að breytast sé aðferðin við að ákveða gengisskráningu íslensku krónunnar. Það er ólíðandi að standa að því að þau mál séu óbreytt eins og þau eru í dag.

Hvernig er það með þennan stóra flokk sem kennir sig við frjálshyggju og frelsi? Hvenær ætlar hann að leggja til að þetta verði tekið upp með þeim hætti að hún verði verðlögð á frjálsum markaði? Er það það sem við fáum, stjórnarsinnarnir, fréttir af þessa dagana? Nei og aftur nei. Seðlabankanum er ætlað aukið vald, aukin miðstýring og aukin áhrif á íslensk efnahagsmál. Að mínu viti á það við sem Einar Ben. kvað: „Þar leikur sér bráðfeigur aðall með auð.“

Ég ætla ekki að halda hér uppi neinu málþófi eða flytja langa ræðu. Ég gerði það í upphafi þegar þetta mál var rætt en ég er andvígur þessum vinnubrögðum og ég trúi því ekki að menn geri sér ekki grein fyrir þeirri alvöru, þeim mistökum, sem átt hafa sér stað á okkar tímum, að við höfum þjappað byggðinni óeðlilega mikið saman á einum stað og höfum þar með skipulagslega séð skaðað framtíðaruppbyggingu í landinu.