19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6295 í B-deild Alþingistíðinda. (5755)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp við 3. umr. fyrst og fremst af því að ég reyndi að stytta mál mitt sem kostur var í gær þegar umr. átti sér stað hér í deildinni vegna þess að ég vissi að virðulegur forseti hafði lofað því að deildin mundi ekki halda fundum sínum lengi áfram fram eftir kvöldi. Líka vegna þess að svo virðist sem yfirmat á verkum manna þurfi að vera víðar en í sambandi við sjávarafurðir. Kannske þyrfti að vera eitthvert yfirmat á fréttatilkynningum ríkisfjölmiðlanna um það hvernig umr. fara fram hér á hv. Alþingi. Þegar við höfðum lokið störfum hér í deildinni í gærkvöldi er fyrsta fréttin sem ég heyri á þann veg að hér hafi verið umr. um þingsköp í sambandi við hið svokallaða kartöflumál, en vegna þess að stjórnarandstaðan hefði ekki fengið sínu máli þar að einhverju leyti framgengt hefði verið upphafið málþóf í sambandi við Ríkismat sjávarafurða.

Ég vil mótmæla svona fréttaflutningi. Það var mjög langt frá því að ég kæmi hingað upp í ræðustól til að hefja málþóf. Ég reyndi að stytta mál mitt í sambandi við þetta mál sem ég gat. Ég nefndi það oft í ræðu minni að ég vísaði til ræðu minnar við 1. umr. í deildinni og var þá með hugann við loforð hæstv. forseta um að hér skyldi vera eins stuttur fundur og mögulegt væri. En ríkisfjölmiðlunum a. m. k. þótti þarna eitthvað gott til að smjatta á og fylgjast sjálfsagt ekki betur með umr. á hv. Alþingi en það að þeir telji eðlilegt að umr. um Ríkismat sjávarafurða sé skorin niður við einhverjar mjög stuttar ræður sem þeir telja að sé hæfilegt þessari eða hinni umr.

En ég stytti mál mitt í gærkvöldi og það féll ýmislegt niður úr ræðu minni sem ég hefði talið æskilegt að fram kæmi. Ég mun aðeins nefna hér tvo þætti sem ég tel ástæðu til að undirstrika. Í fyrsta lagi er það í sambandi við 14. gr. frv, þar sem þess er getið að afurðadeild annist yfirmat á öllum fiskafurðum til útflutnings. Í grg. með frv. segir: „sú nýjung felst einkum í þessari grein að aðalreglan verður sú að afurðadeild annist aðeins yfirmat.“

Þessi umsögn í grg. frv. sýnir kannske betur en flest annað hvað þau lög, sem væntanlega verða samþykkt hér innan stutts tíma á Alþingi, eru óþörf og hvað sú tilætlun og hvað sú lýsing á þessum lögum, sem stjórnarsinnar hafa verið að túlka hér, er röng. Hér er ekki um nema nýjung að ræða. Hér er verið að gera till. um tilhögun sem búið er að koma á og vinna eftir á undanfarandi árum nákvæmlega á þennan mála.

Framleiðslueftirlit sjávarafurða hefur að meginhluta til verið yfirmat, úttektarmat. Það hefur að vissu leyti verið gagnrýnt, en það hefur verið þannig, bæði í sambandi við saltfisk og frystar afurðir og einnig í sambandi við síldina þó að nokkru leyti hafi hið opinbera mat fylgst meira með framleiðslunni þar en í hinum þáttunum. Svo er verið að segja okkur í grg. með frv. að þetta sé nýjung. Því miður er lítið um nýjungar í þessu frv.

En mikið er það frv., sem við erum að fjalla um í dag og höfum verið að fjalla um við 2. umr., að verða betra en það frv. var sem lagt var fram upphaflega. Samt er það enn þannig að æskilegast væri að það færi ekki miklu lengra en það er komið nú. Ég mun þó ekki beita atkvæði mínu gegn því og veit ég að jafnvel þó ég gerði það mundi það fara þá leiðina þó að ég viti að margir hv. þm. séu hálftregir til og viti að þetta frv. er til lítils annars en að sýnast.

Við lokaumr. í nefndinni fjallaði hún sérstaklega um saltsíldina. Ég tel ástæðu til að ítreka enn það sem hv. formaður n. flutti hér í nafni hennar í sambandi við þann þátt mála. Meiningin var að koma þeirri yfirlýsingu í nál. meiri hl. en af mistökum varð það ekki. Það kemur alveg að jafngóðum notum að sú yfirlýsing var flutt af formanni nefndarinnar hér úr ræðustól og þakka ég honum fyrir það. Ég vil leyfa mér að ítreka þessa yfirlýsingu og lesa hana hér enn. Hún er á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna sérstöðu saltsíldarframleiðslunnar skal útflutningsmat saltaðrar síldar framkvæmt á vegum Ríkismats sjávarafurða sem jafnframt skal annast eftirlit með söltun og verkun síldarinnar, hvort tveggja skv. sérstakri reglugerð sem sjútvrh. setur um saltsíldarmat og eftirlits- og leiðbeiningarstarfsemi með söltun síldar.“

Ég fjallaði nokkuð um stöðu saltsíldar í ræðu minni í gær og tel því ekki ástæðu til að eyða tíma deildarinnar mikið til viðbótar til að ræða um þann þátt. En með þessari yfirlýsingu er sjútvn. Ed. að gefa yfirlýsingu um að það frv., sem verður sjálfsagt samþykkt hér í deildinni á eftir og fer til Nd., er raunverulega alveg ómark gagnvart saltsíldarmati með þeirri yfirlýsingu nefndarinnar að unnið verði öðruvísi í sambandi við saltsíldarmat en aðra þætti sjávarafurðaframleiðslu á Íslandi.