19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6297 í B-deild Alþingistíðinda. (5758)

155. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þau lög, sem hér eru til umr., tengjast þeirri stjórnarskrárbreytingu sem þegar er orðin að lögum þannig að því verður trúlega ekki forðað að þessar breytingar nái fram að ganga. En samt sem áður fel ég útilokað annað en að menn lýsi skoðunum sínum á þessu máli og þá sérstaklega vegna þess mikla óréttlætis, sem ég tel hér verið að framkvæma, ef það kynni að verða til þess að menn vildu í ljósi slíkrar umr. hugsanlega endurskoða afstöðu sína til þessa máls, ef ekki nú þá a. m. k. eins fljótlega og unnt er því að þær breytingar, sem við stöndum hér að, eru í flokki þeirra mála sem hvað allra, allra þyngst er að hreyfa hér á þingi.

Ekki hafa verið gerðar margar breytingar á kosningalögum og þeim stjórnarskrárgreinum sem henni tengjast. Það tók 50 ár að fá þá fyrstu í gegn. Það tók 25 ár að fá þá næstu í gegn. Ef þetta lögmál gildir tekur 12 ár að fá þá næstu í gegn eða 121/2 ár og þá eigum við 31/2 ár til aldamóta. Hvaða þjóðfélag eða hvaða þjóðlíf verður hér á Íslandi eftir 12 ár? Ef menn hugsa til baka í tímanum, hugsa til þess þjóðfélags sem hér var fyrir 25 árum, reyna að upplifa það í huga sínum, þá gera menn sér grein fyrir þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið á allri hegðun og lífsháttum manna. Þá er kannske ástæða til að spyrja sig: Hæfa þær lýðræðislegu aðstæður, þær lýðræðislegu forsendur, sem við búum við í dag og erum að skapa núna — því að breytingarnar á kosningalögunum núna eru tiltölulega miklu lítilvægari en þær voru 1959 — þjóðfélagi aldamótanna?

Ég held að enginn, sem hér er inni, átti sig ekki á því hvað er að gerast í þjóðfélaginu og enginn sem setið hefur á þingi hefur komist hjá því að hugleiða það til hvers hann situr hérna og fyrir hvað hann situr hér. Við vitum öll að lýðræðið hóf göngu sína sem átak í því að færa valdið frá einveldi til fólksins alls. Sú viðmiðun sem menn höfðu var sú að fólkið væri þjóð, einhver ótiltekin þjóð, í þessu tilviki eru það við Íslendingar. Nú ganga þau kosningalög, sem við búum við í raun og veru ekki út frá því að við séum ein þjóð. Í flestöllum öðrum tilvikum líta menn á þjóðina sem heild. Almennt skilgreina menn þá valdastofnun, sem við sitjum hér í, sem þjóðþing, Alþingi. En fulltrúarnir, sem hingað eru komnir, eru skv. þeim kosningalögum, sem í gildi eru í augnablikinu og á að fara að samþykkja, ekki kosningalög einnar þjóðar. Sú kjördæmaskipan, sem við búum við, býr hér til samsafn margra ólíkra þjóða.

Hvert er markmiðið með kosningalögunum? Hver er tilgangurinn með því að kjósa? Við erum að búa til vald. Vald fólksins kemur fram hjá þeim fulltrúum sem kosnir eru á þing. Þá stöndum við frammi fyrir þeirri undarlegu staðreynd að fólkið í landinu hefur mismunandi rétt á þessu valdi. Leikreglurnar fyrir landsmenn eru ekki allar þær sömu. Til eru þeir menn jafnvel hér á þingi sem halda því fram að það sé jafn kosningarréttur á Íslandi. Þeir segja: Allir Austfirðingar eru jafnir í kosningum, allir Vestfirðingar eru jafnir í kosningum, allir Reykvíkingar eru jafnir í kosningum. — Þeir neita að horfast í augu við það að Vestfirðingar og Austfirðingar eða Reykvíkingar bornir saman eru ekki jafnir. Þeir neita nánast að horfast í augu við það að við erum ein þjóð.

Menn kunna þá að spyrja hvort minn hugur standi til þess að gera þetta land að einu kjördæmi. Ég verð að viðurkenna að ég mundi telja miklu eðlilegra að ákvörðun um það hvernig kjördæmaskipan væri hér á landi yrði ekki framkvæmd öðruvísi en í samráði við þjóðina alla.

Í sjálfu sér eru tvær andstæðar leiðir færar til þessa. Það er annars vegar að gera landið að einu kjördæmi. Þá erum við fyrir fullt og allt búnir að viðurkenna að hér búi ein þjóð. Hin leiðin er sú að breyta kjördæmaskipaninni þannig að hvað höfðatölu og innbyrðis hlutföll snertir grundvallist fulltrúatalan, sem kjósendur kjósa á þing hver fyrir sig, alltaf á nánast sama kjósendafjölda per fulltrúa. Þetta mundi þýða að þéttbýlisstaðir eða þéttbýlissvæði, eins og suðvesturhornið hérna, skiptist upp í enn fleiri kjördæmi en við búum við í dag.

Hvers vegna hafa menn svo mikinn áhuga á því að tala um og gera sér að markmiði að allir hafi jafnan kosningarrétt? Hvers vegna höfum við kosningarrétt? Það er ekki eitthvað sem við höfum fengið að gjöf. Við tókum okkur þennan rétt frá þeim sem höfðu haft hann áður. Kosningarrétturinn er mikið vald og hann er í augum flestra tákn ákveðins frelsis, í raun og veru frelsisins. Kosningarrétturinn er frelsi til að láta í ljós skoðanir sínar, til að velja, til að vera þátttakandi í ákvarðanatöku. Hann er það sem menn kalla oft og tíðum sjálfsögð mannréttindi. Ef kosningarréttur er sjálfsögð mannréttindi finnst manni í fljótu bragði að ekki ætti að vefjast mjög mikið fyrir mönnum að þessi sjálfsögðu mannréttindi standi öllum jafnt til boða.

Íslendingar eru aðilar að mjög merku plaggi sem þeir undirrituðu ásamt með fjölda annarra þjóða og kallast mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. 1. gr. þessarar mannréttindayfirlýsingar hljóðar svo:

„Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hver við annan.“

Þau atriði, sem þarna er verið að höfða til, eru þau atriði sem klingdu í eyrum manna á árdögum lýðræðisbaráttunnar, þau hugtök, sem hafa kannske minna heyrst núna upp á síðkastið, þ. e. frelsi, jafnrétti og bræðralag. 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo:

„Hverjum manni er heimilt að taka þátt í stjórn landsins beinlínis eða með því að kjósa til þess fulltrúa frjálsum kosningum. Hver maður á jafnan rétt til þess að gegna opinberum störfum í landi sínu. Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstj. og skal hann látinn í ljós með reglubundnum óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.“

Undir þetta hafa fulltrúar Íslendinga í samkomu Sameinuðu þjóðanna ritað.

Nú er það þannig að mjög margar þjóðir heimsins brjóta þennan mannréttindasáttmála margsinnis. Hann lítur út hjá þeim allmörgum nánast eins og samanbrotið blað. Við Íslendingar höfum tekið þátt í því ásamt öðrum þjóðum að gagnrýna þær þjóðir sem hafa brotið mannréttindasáttmálann. Við höfum ekki hvað síst gagnrýnt þær fyrir brot þeirra á þessari grein mannréttindasáttmálans. Enn þá eru mjög mörg lönd í heiminum þar sem kosningarréttur er ekki jafn, þar sem leynileg atkvæðagreiðsla er ekki viðhöfð eða jafngildi hennar að jafnræði.

Við hvað er miðað, sagði ég áðan, þegar talað er um þennan rétt? Viðmiðunin, sem notuð er almennt í skilgreiningum, er þjóð, þ. e. viðmiðunin mundi kannske kallast á fræðilegu máli stjórneining. Sú stjórneining, sem er stærst eða nær yfir hvað mest og flest hér á landi, er ríkið eða ríkisvaldið sem styðst við Alþingi. Við búum hér í þingræði og þetta ríkisvald er skipað hér á Alþingi af fulltrúum þjóðarinnar, en þó með þeim hætti að sum héruð — við köllum þau kjördæmi — hafa hlutfallslega miklu fleiri fulltrúa en önnur. Af því leiðir að þessi sömu héruð hafa ólíkt meira vald en önnur. Það ástand, sem við búum við hér á Íslandi, snýr þannig að okkur að fjöldi þm. úr hinum dreifðari byggðum landsins er meiri en fjöldi þeirra þm. sem koma frá þéttbýli.

Ein af þeim ástæðum, sem oft eru nefndar, til að viðhalda þessu ástandi, þ. e. þessu misræmi í fulltrúafjölda frá þéttbýlis- og dreifbýliskjördæmum, er sú að með þessu móti sé spornað gegn byggðaröskun. Ef menn horfa á þróun íslensks þjóðlífs frá lýðveldisstofnun má sjá að við höfum alla þessa tíð búið við það að fjöldi dreifbýlisþm. hefur verið langtum meiri en fjöldi þéttbýlisþm., en þó hefur kannske þokast í þá átt að hlutföllin milli þeirra hafa minnkað eftir því sem á tímann leið eftir lýðveldistökuna. Hvað blasir þá við? Það blasir við að ef menn ætla að byggja rökstuðning sinn á því, sem ég nefndi áðan, að þetta ástand spornaði gegn byggðaröskun sjáum við að byggðaröskunin er langmest þegar vald dreifbýlisfulltrúanna hér á þingi var langmest. Eftir því sem dregið hefur úr hlutfallslegum styrkleika þeirra mældum við styrkleika fulltrúanna úr þéttbýlinu, eftir því sem nær hefur færst okkur í tíma, hefur dregið úr byggðaröskuninni um leið. Hvaða heilvita maður, sem hefur lært að draga ályktanir af staðreyndum sem hann hefur fyrir augunum, hlýtur að sjá að hér er á ferðinni ákveðið misræmi milli forsendna og fullyrðinga.

Það má kannske spyrja sig að því í ljósi þessarar staðreyndar, þ. e. að flótti úr hinum dreifðu byggðum var miklu meiri þegar vald dreifbýlisfulltrúanna var meira og hefur farið minnkandi eftir því sem vald þeirra minnkaði, hvort þessi flótti hafi kannske alls ekki tengst landgæðum, hann hafi kannske alls ekki tengst lífshagsmunum á þessum svæðum. Þetta fólk hefur kannske einfaldlega verið að flýja þm. sína. Það er nefnilega dálítið undarlegt ef maður skoðar hagsögu Íslands, sem er reyndar afskaplega skringilegt og þó kannske á stundum skemmtilegt fyrirbæri, að allir þekkja þann alvanalega leik, sem sífellt er verið að endurleika hér á Íslandi, að þegar kreppir að hjá þjóðarbúinu sker hið opinbera niður. Opinber niðurskurður bitnar yfirleitt hvað mest á landsbyggðinni. Þetta er einföld og auðsæ staðreynd. Við þurfum ekki að leita langt aftur — t. d. bara til skýrslu Fjórðungssambands Norðlendinga um atvinnumál — til að sjá það ástand sem niðurskurður stjórnvalda hefur þegar valdið þar.

Við vitum að þeir hópar, sem búa í þessu þjóðfélagi, eru innbyrðis háðir hver öðrum vegna verkaskiptingar. Þessir hópar, ef við lítum helst á þá sem kjördæmi, hafa allir lagt sjálfstæði sitt í hendur einu valdi, ríkisvaldinu, og þessu ríkisvaldi er stjórnað af Alþingi. Þótt landsbyggðin hafi fleiri þm. en þéttbýlið á Alþingi hefur það ekki orðið til þess að auka sjálfstæði dreifbýlis, langt því frá. Þróunin hefur verið í þveröfuga átt. Dreifbýlið verður stöðugt háðara aðgerðum og vilja ríkisvaldsins. Hvernig má á þessu standa? Fólk kýs í kosningum, það kýs flokka og það kýs menn. Það kýs flokkana vegna þess sem flokkarnir kalla hugmyndafræði sína og það kýs mennina vegna þess að það treystir sumum þeirra betur en öðrum til að breyta orðum í athafnir.

Nú vitum við það öll að hugmyndafræði flokka er yfirleitt í grófum dráttum ekkert annað en sú barnalega fullyrðing að hann, flokkurinn, einn sé fær um að stjórna þessu stóra og flókna ríkisapparati með tilliti til hagsmuna allra. Við vitum líka að þetta er ómerkileg blekking. Í raun trúir henni enginn og því reynir fólk að setja traust sitt frekar á holla einstaklinga, eins og það kallar það. Þessir hollu einstaklingar, hversu góðir sem þeir kunna að vera — og ég fullyrði að allavega þeir, sem ég hef kynnst hér á þingi, eru allir mætir menn búa bara við þau kjör — og þá á ég ekki við launalega heldur hugmyndafræðilega — að þeir eru ekki sjálfs sín herrar. Þannig gerist það að það er alveg sama hvort þetta fólk snýr sér að flokkum eða mönnum, framsal valdsins lendir alltaf í höndum miðstýringarinnar og miðstýringin hefur greinilega ekki með þeim skilyrðum sem við búum við í dag starfað dreifbýlinu til hagsbóta, þvert á móti.

Menn, sem tala hér um kosningarrétt, hafa gjarnan mikla tilhneigingu til að blanda saman kosningarrétti og lífskjörum annars vegar og hins vegar því sem þeir kalla kosningarrétt og aðstöðu. Það að það skuli vera langt að fara í verslun, það að það skuli vera langt að sækja þjónustu, það telja menn vera óhagræði sem beri að bæta með ójafnvægi kosningarréttar. Það er greinilegt að þessir menn ganga út frá því að átthagafjötrar hér á landi séu gífurlega miklir og menn séu ekki frjálsir að því að búa þar sem þeir kjósa því að á móti getum við fullyrt að sé erfitt að sækja þjónustu eða neyslu hafi það fólk, sem býr við það óhagræði, yfirleitt annað hagræði sem það mjög gjarnan tekur fram yfir aðra hluti.

Það að búa einangrað hefur mér fundist, eftir því sem ég hef fengið best séð, vera á vissan hátt eftirsóknarvert, a. m. k. í augum þeirra sem við það búa. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir uppruna minn úr sveit og mjög náin tengsl, þá er ég borgarbarn og ætti erfitt með að sætta mig við að búa um langa tíð einangraður einhvers staðar uppi í afdal. En ég veit líka að ættingjar mínir, sem búa við slíkar aðstæður, kjósa ekki að breyta því. Auðvitað hafa þeir margt út á sína aðstöðu og sín kjör að setja, það hef ég líka.

Þó að maður geti gagnrýnt aðstöðu sína og kjör þá er það ekki grundvöllur að kröfu um misjafnan atkvæðisrétt. Það er fyrst og fremst grundvöllur að kröfu um jöfnun aðstöðumunar og slík jöfnun fer fram með allt öðrum hætti því að þessum almennu mannréttindum tengjast þau undarlegu grundvallarréttindi að í okkar þjóðfélagi hafa menn rétt til þess bæði að hafa rangt fyrir sér og að hafa rétt fyrir sér. Ef menn hafa einhverja skoðun sem þeir vilja koma á framfæri eða ná fram, þá hefur lýðræðisþjóðfélagið lagt þeim þær skyldur á herðar að þeir verði einfaldlega að vinna þessum skoðunum fulltingi með málflutningi sínum til þess að þær nái fram að ganga. Hér á þingi er það ekki nauðsynlegt með öllu. Hér á þingi getur þú náð fram meirihlutafylgi við skoðanir þínar án þess að það meirihlutafylgi grundvallist á meiri hluta þjóðarinnar.

Eins og menn vita er andstaðan gegn þessari baráttu, þ. e. baráttu fyrir jöfnum kosningarrétti, mjög mikil. Maður skilur eiginlega ekki alveg hvers vegna þessi andstaða er svona mikil. Það er eins og menn gangi út frá því að með meiri hlutanum gerjist einhverjar skoðanir sem eru svo óhollar, sem eru svo hættulegar, að nánast er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að þær geti náð fram að ganga. Það er eins og menn gangi nánast út frá því líka að minni hlutinn hafi miklu heilbrigðari skoðanir en meiri hlutinn. Auðvitað á minni hlutinn rétt á að hafa skoðanir og að tekið sé tillit til þessara skoðana, en minni hlutinn á ekki skv. grundvallarreglum lýðræðisins rétt til að segja meiri hlutanum fyrir verkum.

Það Alþingi, sem við störfum á, er vettvangur skoðana, vettvangur afstöðutöku og afstaðan er tekin skv. vilja meiri hlutans. En þessi meiri hluti, eins og ég hef margsinnis nefnt, styðst ekki við meiri hluta þjóðarinnar. Einhver hneykslanlegasta röksemd, sem fram hefur komið í þessu máli og sú sem er með öllu óþolandi að hlusta á, er sú, sem fulltrúar bæði byggða og flokka hafa haldið fram, að verðmætasköpun sé einhvers konar grundvöllur að auknum réttindum í kosningum. Ég heyrði af tilviljun hreinræktaðan sósíalista standa í ræðustól í hv. Nd. og halda þessu fram. Ég verð að viðurkenna að ég varð svo hissa að — (Gripið fram í: Það segja nú svo margir í Nd.) Já, ég varð svo hissa að ég hélt að ég hefði ekki heyrt rétt. Þarna stóð maðurinn og talaði rétt eins og franskur eða enskur aðalsbóndi frá öldinni sem leið. (Gripið fram í: Það er ekki leiðum að líkjast.) Það kann að vera. Við Öræfingar höfum oft fengið það orð á okkur að líkjast enskum aðalsmönnum, en það þýðir samt sem áður ekki að við höfum gerst svo hortugir að við höfum gert kröfu til meiri mannréttinda vegna þess að við framleiddum svo mikið.

Þessi krafa, þ. e. að nota verðmætasköpun sem mælikvarða á kosningarrétt, aðrir verði jafnari en hinir vegna þess að þeir afli meira, er svo hróplega ranglát ef maður horfir út á enda hennar. Ef maður horfir út á neðri enda þessarar fullyrðingar þá segir maður: Sá sem einskis aflar, sá sem ekkert framleiðir, hefur engan kosningarrétt. — Og hvert erum við komnir þá? Þá erum við komnir aftur á bak, reyndar ekki nema um það bil 50 ár aftur í tímann. Við erum komnir inn í umr. sem átti sér reyndar stað margsinnis en ég gríp hér niður í eina frá 1927. Frv., sem til umr. er, heitir frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Flm. þess hét Héðinn Valdimarsson. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Kröfurnar í baráttunni fyrir þingræðinu hafa hér sem annars staðar byggst á því að þjóðin sjálf, allir fulltíða menn hennar, ætti að ráða málum sínum. Þá fyrst er lýðræðið komið er fulltrúar flokkanna á þingi þjóðarinnar eru í réttu hlutfalli við þann fólksfjölda er hefur kosið þá. Aðeins þannig getur þjóðin sjálf skipað sína eigin stjórn. Í stjórnarskrá Íslendinga er ekki lýðræði í þeirri merkingu sem forgöngumenn þess mundu ætlast til.“

Þeir menn, sem tala hér í fullri alvöru um að verðmætasköpun í þjóðfélaginu geti verið mælikvarði á það hvaða rétt maður hefur til kosninga, ættu rétt til gamans að fletta upp í Nýju Helgafelli frá 1959 og lesa þar grein eftir Pétur Benediktsson sem heitir „Tíminn flettir spilunum tvisvar, þættir úr sögu kjördæmamálsins“. Þar langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstuttan kafla þar sem verið er að lýsa kosningum árið 1845. Þar segir:

„Heldur fór illa fyrir Vestmannaeyjum í kosningunum. Eyjarnar voru u. þ. b. 10 sinnum fólksfærri en Ísafjarðarsýsla og 13 sinnum fólksfærri en stærsta kjördæmið, Árnessýsla. Ekki fengu eyjaskeggjar þó notið forréttinda sinna því að þegar til átti að taka fannst enginn „fasteignar haldandi“ nægilega efnum búinn í kjördæminu. Það var því ekki að furða þótt kancellíið skrifaði Hoppe stiftamtmanni hinn 14. nóv. 1843“ — Og nú verð ég að biðja hæstv. forseta fyrirgefningar þó að ég bregði yfir á þá tungu sem einu sinni var töluð hér í stjórnsýslu, en það var danska:

„Foranlediged heraf skulde man til behagelig Efterretning og videre Bekjentgjörelse tjenstligst melde, at det efter det saaledes Oplyste er en Selvfölge, at intet Valg af Althingsmand til Althinget for denne Gang vil blive at foretage paa Vestmanöe.“

Þá var atkvæðisréttur miðaður við það að menn ættu fasteignir. Þeir sem áttu fasteignir voru þeir sem öfluðu, voru þeir sem söfnuðu, voru þeir sem framleiddu, voru þeir sem unnu, eins og menn kölluðu það, að verðmætasköpun í íslensku þjóðfélagi.

Síðan komu fram hugmyndir hjá öðrum mönnum um að verðmætasköpunin væri reyndar ekki öll hjá þessum einstaklingum sem hana notuðu til þess að kaupa fasteignir. Það væru fleiri þátttakendur í þessari verðmætasköpun og þeir ættu þess vegna rétt á því að fá vald — ekki vegna þess að það vald ætti að grundvallast á hlutverki þeirra í verðmætasköpuninni heldur vegna þess einfaldlega að þeir væru frjálsir menn eins og aðrir.

Baráttan fyrir jafnrétti er löng og ströng og svo virðist sem þessi barátta eigi eftir að endast a. m. k. einn áratuginn enn til viðbótar. Það er þess vegna sem ég stend hér og reyni, að það kynni hugsanlega að hreyfa við einhverjum þannig að næst þegar reynt verður að breyta stjórnarskipunarlögunum hvað kosningarrétti viðkemur, verði menn komnir eilitlu skrefi lengra í átt til þeirrar hugsunar að jafnrétti sé sjálfsagt mál.

Mig hefur alltaf undrað það að þeir menn, sem gjarnan segjast berjast hér fyrir verkalýð, skuli þegar að þessu máli kemur standa gegn því að meiri hluti verkalýðs í landinu, fólkið í þéttbýlinu, fái atkvæðisrétt. Þetta er líka einkennilegt bara í ljósi þess að það er ekkert, nákvæmlega ekki neitt, sem segir okkur að vilji meiri hluta þjóðarinnar sé sá að níðast á íbúum dreifbýlisins frekar en öðrum þeim sem búa hér á landi við erfiðar aðstæður.

Auðvitað eru ákveðnir erfiðleikar fólgnir í því að búa fjarri þjónustu og fjarri ýmsum lífsins gæðum. En fólk getur verið fjarri bæði þjónustu og lífsgæðum með öðrum hætti. Menn geta verið aldraðir, menn geta verið fatlaðir meira eða minna. Ég hef ekki fundið annað hér á þessu þingi en að menn sameinist nánast allir um að hafa samúð með fólki sem þannig er ástatt fyrir og reyni eftir mætti að sýna þá samúð. Auðvitað verður maður að viðurkenna að þessi samúð gengur oft á tíðum ekki nægilega langt í verki. Þetta hefur verið þó nokkurt hitamál, sérstaklega á þessu þingi í vetur. Þá hafa menn risið hér upp og barist fyrir rétti þessa fólks. Þeir hafa tapað í þessari baráttu en það fer ekkert á milli mála að það skiptir engu máli hvaðan menn koma, hvort menn koma úr dreifbýli eða þéttbýli í þessu máli, áhugi þeirra á því er jafn og þeir setja hann ekki á nokkurn hátt í samband við það hvar menn búa.

Virðulegi forseti. Eftir að við erum orðin ein hér í salnum má kannske segja að til lítils sé að tala. (Forseti: Það er fámennt og góðmennt.) Já, ég tek undir það að það er góðmennt, alla vega að hálfu leyti hvað virðulegum forseta viðvíkur. En það sem mér gengur hér til er í kjarna sínum ekki flókið mál. Það hefur komið fram í máli manna bæði nú á þessu ári og eins á s. l. vetri að þeirri skoðun vex mjög fiskur um hrygg að það ástand, sem við búum við í þessum málum, sé óviðunandi og verði að leiðrétta. Ég get nefnt hér sem dæmi og vitnað til tveggja leiðara í Dagblaðinu/Vísi. Annar er frá því í febrúar 1983 í aðdraganda kosninganna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, undir fyrirsögninni „Hellir og hálfir kjósendur“:

„Málamiðlun stjórnmálaflokkanna í kjördæmamálinu slakar lítið á spennunni sem misvægi atkvæðisréttar hefur hlaðið upp á nýjan leik eftir lagfæringuna árið 1959. Málamiðlunin gengur of skammt til að endast lengi.

Margir fylgjendur jöfnunar atkvæðisréttar eru tilbúnir að kaupa samstöðu allra stjórnmálaflokkanna því verði sem nú er að verða ofan á, þ. e. að atkvæðisréttur verði 2.6 sinnum gildari á Vestfjörðum en í Reykjavík.“

Það sem þessi leiðari er að höfða til er sú þróun að íbúum hinna dreifðu byggða fer hægt og sígandi — reyndar alls ekki með sama hraða og áður — fækkandi. Það þýðir að að baki hverjum fulltrúa, sem úr þessum dreifðu byggðum kemur, standa sífellt færri atkvæði. Hvað gerum við þegar Vestfirðingum hefur fækkað um helming frá því sem nú er? Höldum við þar enn þá sama þingmannafjölda? Með þeirri röksemdafærslu sem nú er notuð ætti það að vera réttlætanlegt því að það er greinilegt skv. skilningi þeirra þm. sem réttlæta slíkt ástand að þeir líta á fulltrúa hinna dreifðu byggða miklu frekar sem fulltrúa fermetra en fólks.

Svo menn fylgist með þræðinum — vegna þess að nú streyma þeir í salinn — þá var ég að tala um það hvað við gerðum þegar Vestfirðingum hefði fækkað um helming frá því sem nú er. Hvort við fækkuðum þá fulltrúum þeirra eða jafnvel fjölguðum. Því skv. þeirri réttlætiskenningu að aðstöðumunur í lífskjörum réttlæti aðstöðumun í kjör- og kosningagengi ætti það að vera réttlætanlegt eftir því sem Vestfirðingum fækkar að fjölga fulltrúum þeirra á þingi.

Ég er nú að höfða hér til þeirrar skrýtnu staðreyndar sem við upplifðum núna í síðustu kosningum að það nægðu ekki 3500 atkvæði til að koma sjöunda manni af lista Sjálfstfl. inn á þing. Aftur á móti fór fjórði maður af lista í Vestfjarðakjördæmi inn á þing með 1/5 hluta þessa atkvæðamagns. Hv. 4. þm. Vestf. var kjörinn á þing í krafti 755 atkvæða. En núv. hæstv. utanrrh. nægðu ekki 3500 atkvæði til að komast á þing, enda hefur maður fylgst með því núna undanfarið að í þessu ástandi er hart barist. Það er svo hart barist á margan hátt að það verður oft á tíðum dálítið skoplegt. Gamall skólabróðir minn hefur setið hér á göngum fram eftir nóttum með stóra tösku og reiknivél við að reikna menn inn á þing. Hann hefur reiknað þá eftir d'Hondt, hann hefur reiknað þá eftir Droop, hann hefur reiknað þá eftir Lague og hann hefur passað sig á þeirri gullvægu reglu: Don't drop the Lague. Lague er þá í þessu tilviki líklega þingmaðurinn sem ekki má missa.

Og hver urðu endalokin? Endalokin voru hreint stórkostleg. Menn ákváðu að allir þessir útreikningar væru fyrir köttinn einan og þeir hættu við hann og sögðu: Við samþykkjum bara gamla draslið eins og það var og byrjum síðan aftur að nýju. — Ég verð að viðurkenna að í mínum huga er í þessum ákvörðunum, í þessum orðum, hugsanlega falin ákveðin vonarglæta. Kannske verður þessi stjórnarskrárákvörðun tekin upp fyrr en maður gæti átt von á og þá á maður e. t. v. lag til að koma þeim skoðunum á framfæri sem ég er hér að tala fyrir. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að þær séu réttar. Margir hér inni eru þeirrar skoðunar að þær séu rangar. En eins og ég sagði áðan í máli mínu hefur hver einasti maður rétt til að hafa rangt fyrir sér. Í krafti þess held ég áfram að berjast og vitna til að leggja áherslu á þessi orð mín aftur í Pétur Benediktsson þar sem hann segir í lokum greinar sinnar í Nýju Helgafelli frá 1959 á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Úr herbúðum framsóknarmanna er verið að hvísla því að sjálfstæðismönnum að það hefði verið auðvelt með samstöðu þessara flokka að koma á því skipulagi einmenningskjördæma sem hefði þurrkað Alþfl. og kommúnistaflokkinn að mestu eða öllu leyti út af þingi. En reynslan af hræðslubandalaginu hefir kennt þjóðinni að vandamálin verða ekki leyst með brellum. Því hefir enginn af forvígismönnum réttarbótarinnar viljað fara þá leið að fórna jafnréttinu til þess að níðast á andstæðingum sínum. Fylgi kommúnista í Frakklandi hefir ekki minnkað við það að De Gaulle bægir þeim frá þingsetu að réttri tiltölu. Ég er honum samdóma“ — segir Pétur Benediktsson — „ um það að þeir eru skaðræðisgripir“ — þ. e. kommarnir — „en menn eiga rétt á því að vera heimskir og að hafa rangt fyrir sér. Ef slík leið væri reynd hér“ — þ. e. með kosningalögum að bola ákveðnum aðilum út af þingi — „hefðist ekki annað upp úr því en að færa valdið í þjóðfélagsmálum enn meira úr höndum Alþingis.“

Svo mörg voru þau orð. Herra forseti. Ég á von á því að fjöldi manns eigi eftir að tala hér í þessu máli því að þetta er eitthvert merkasta mál þessa þings. Ég get ekki ímyndað mér annað en að áhugi manna á að tala í mannréttindamálum hljóti að vera þannig að þeir geti ekki á sér setið. Til að draga saman að einhverju leyti það sem ég hef verið að segja leyfi ég mér að vitna til orða Páls Briem. Það er grein sem hann skrifaði í Eimreiðina. Ritstjóri hennar var þá dr. Valtýr Guðmundsson og eigendur nokkrir Íslendingar. En þar segir Páll Briem:

„Ef það er rétt að kosningarréttur sé veittur mönnum réttlætisins vegna þá getum vér leitt út af því ýmsar setningar og skulum við nú nefna þrjár aðalsetningar.“ — Þetta orðafar Páls Briem er kannske ákveðin áminning um það hvað tímarnir breytast. Enginn maður mundi í dag kalla fullyrðingu setningu. En hann segir:

„Það fyrsta: Kosningar eiga að vera þannig að kjósendum sé mögulegt að neyta kosningarréttarins og að þeim sé gert það nokkurn veginn jafnauðvelt.“ — Við skulum álykta að því marki sé nokkurn veginn náð þó að margir hafi efast um möguleika nokkurra kjósenda, alla vega í síðustu kosningum, til að komast til kjörstaðar.

„Kjósendur eiga að geta kosið þá sem bjóða sig fram“ — framboðana kallar hann frambjóðendurna „eftir eigin sannfæringu.“ Þetta mun líklega líka vera nokkurn veginn viðgengið hér. En síðan segir hann:

„Atkvæði sérhvers kjósanda á að hafa fullt gildi í hlutfalli við önnur atkvæði, eigi aðeins að því er snertir þann mann er hann vill kjósa heldur og þann flokk er hann fylgir málum.“

Við lestur þessarar greinar kemur nefnilega dálítið undarlegt í ljós sem ég verð að játa sjálfur að rann eiginlega fyrst upp fyrir mér þegar ég las þessa góðu grein Páls Briem — og ég get mælt með henni sem lesningu fyrir hvern og einn. Páll Briem er hér að tala um flokka sem nokkuð nýtískuleg fyrirbæri. Ég hafði alltaf séð fyrir mér og sé kannske enn þá í huga mínum að flokkarnir eigi rætur sínar að rekja til frönsku byltingarinnar. En tilfellið er að flokkakerfið sem við búum við í dag er líklega enn þá meira afkvæmi Karls heitins Marx en okkur grunar, þ. e. þeir verða til á nokkurn hátt sem andsvar við þeirri samfylkingu sem hann stuðtaði að.

Ég vil reyna, hæstv. forseti, að stytta mál mitt. Við höfum hér verk að vinna sem við verðum að ljúka þó að ég verði líka að viðurkenna að ég sjái ekki beinlínis ástæðuna fyrir þeim asa sem er á mönnum að ljúka þessu starfi. Ég hefði haldið að eðlilegra væri að setja sér þá kröfu að gera starfið vel en endilega fljótt. Ég vil spyrja menn að lokum hvort þeir telji að málamiðlun um mannréttindi geti verið réttlætanleg, en það kalla ég þau kosningalög sem nú eru að fara hér í gegnum þingið, kosningalög sem ég og aðrir, sem á móti þeim eru, ekki geta komið í veg fyrir að verði að lögum hvernig sem þeir brjótast um. En ég ætla að vona að það missætti, sem til allrar hamingju býr að baki þessu máli í dag, verði til þess að þetta mál verði tekið upp aftur sem allra fyrst og skoðað með hagsmuni fólksins fyrir augum en ekki flokkanna.