19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6306 í B-deild Alþingistíðinda. (5763)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. 1. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. landbn. um 71. mál, um Framleiðsluráð landbúnaðarins ásamt brtt. á þskj. 994. Ég ætla aðeins að byrja að gera grein fyrir þessum brtt. þar sem þær fela í sér að aðrar gr. frv. falli niður en 4. gr. og sú grein verði að 1. gr., en sú gr. fjallar um frjálsræði í innflutningi á kartöflum á þeim tímum sem innlend framleiðsla fullnægir ekki eftirspurn. 1. minni hl. n. varð sammála um að mæla með þessari breytingu á frv.

Í grg. er kveðið á um að viðurlög verði höfð við því að innfluttum kartöflum eða grænmeti verði dreift eða selt á sama tíma og innlend framleiðsla annar eftirspurn. Þetta er mjög mikilvægt til að tryggja hag innlendra framleiðenda, enda hefur pottur verið brotinn í þessu efni hjá Grænmetisverslun landbúnaðarins þrátt fyrir yfirlýsingar sem hún hefur gefið í þeim efnum að ætíð sé haft samráð við framleiðendur áður en erlendar kartöflur eru fluttar inn. Þetta er mjög bagalegt á haustin þegar kartöflubændur taka upp uppskeru sína og þurfa jafnvel að geyma hana í einn til tvo mánuði á meðan Grænmetisverslunin klárar að setja innfluttar kartöflur. Það er ekki séð fyrir hag bænda í þessum efnum hjá Grænmetisversluninni.

Ég vil taka undir þau orð, sem hv. þdm. hafa eflaust lesið hér í blöðunum undanfarið, að það sé fyrst og fremst hræðsla hjá bændum að gagnrýna þessa verslunarhætti vegna þess að í einokunaraðstöðu sinni geta þeir hefnt sín í mati og öðru frá þeim bændum sem hafa uppi mótmæli. Þetta kom skýrlega í ljós í viðtali við einn bónda úr Þykkvabænum, Tryggva Skjaldarson. Ég ætla aðeins að vitna í það, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta eru einokunarsinnar sem láta svo að þeir hræða bændur til að fylgja sér. Auðvitað er þetta meira og minna mafíustarfsemi, menn eru kúgaðir. Ég er fyrir löngu búinn að fá mig fullsaddan af Grænmetisversluninni og einokuninni í kringum hana og þeim þvingunum sem hún getur beitt kartöflubændur. Ég er ekki sá eini sem er óhress með hana, menn hér í Þykkvabænum eru almennt óhressir með hana og þeir eru hræddir upp úr skónum. Hér í Þykkvabænum eru menn sammála um það að geymslurnar hjá Grænmetinu séu lélegar. Þó að við getum komið frá okkur sæmilegum kartöflum hefur það allt of oft gerst að þær hafa ekki komist heitar til neytenda. Ég þori að tala og það hefur bitnað á mér að gera það. Ég er ósáttur við Grænmetisverslunina og tel að hún hafi gott af því að fá aðhald. Menn verða að eiga annars kostar völ. En ég er þó á þeirri skoðun að það þurfi stífar reglur um innflutning þannig að ekki verði umframbirgðir í landinu þegar við komum með okkar vöru á markað síðla sumars og á haustin.“

Það er mikill sannleikur í þessu og ég þori að fullyrða það sem framleiðandi eða kartöflubóndi í fimm ár að þetta er satt. Ég átti viðtal við konu í gær úr Þykkvabænum til þess að spyrja hana um það hvort þetta hafi eitthvað breyst núna undanfarin sex ár. Ef hv. þdm. hefðu heyrt það samtal hefðu þeir ekki verið í vafa um að það hefur ekki breyst þrátt fyrir skipti á yfirstjórn þessarar verslunar. Ég tala hér frekar um framleiðendur kartaflna eða kartöfluræktendur vegna þess að í blöðum hefur mikið verið talað um neytendahliðina sem er öllum kunn. 20 þús. manns hafa skrifað undir áskorun að þessu verði aflétt.

till. sem kemur frá 2. minni hl. landbn. að vísa þessu máli til ríkisstj. tel ég vera gálgafrest. Ég get ekki séð að það séu nein rök fyrir því, hvorki hjá hv. framsóknarmönnum né hv. sjálfstæðismönnum, að fresta þessari ákvörðun. Hér er ekki verið að ganga á hlut framleiðenda, hér er ekki verið að ganga á hlut neytenda. Hér er eingöngu verið að leggja til að þessi vara fái þann verslunarmála sem hagstæðastur er, bæði fyrir framleiðendur og neytendur.

Það er annað atriði, sem 1. minni hl. landbn. lagði mikla áherslu á og kemur fram í nál., að þrátt fyrir frjálsan innflutning á þessum vörutegundum telja nm. mikilvægt að ötullega verði unnið að því að efla og bæta innlenda framleiðslu með markvissum hætti. Við vitum það öll hér í þessari hv. deild að þetta er hægt og að þessu þarf að vinna. Við höfum hita í jörðu og ýmis ráð, tækninni fleygir fram í þessari grein sem öðrum og undanfarin ár hefur þessi framleiðsla batnað. Við það veðurfar, sem við búum við hér á landi, er við ramman reip að draga og það eru þá sérstaklega frostnætur á haustin. Vatnsúðun á haustin kemur í veg fyrir að grösin falli en þetta hefur reynst bændum það dýrt að þeir hafa ekki getað komið slíkum kerfum upp.

Síðan eru það geymslurnar. Það er kostnaðarsamt að hafa þær í því formi sem þarf til að geyma þessa vöru. Miklar framfarir hafa orðið í kælingu geymslna á undanförnum árum. Grænmetisverslun landbúnaðarins hefur ekki þær geymslur sem þarf til að geyma þessa vöru. Kæling hjá þeim er ekki nægileg og hefur komið fram á undanförnum árum að þeir hafa pantað það lítið magn í einu þegar um innlenda framleiðslu er að ræða að það hefur þurft að brjótast hingað suður í óveðrum til að koma þessari vöru til neytenda. Síðan geta þeir á sama tíma flutt inn stóra farma af erlendum kartöflum og geymt í þessum geymslum.

Nú þegar þeir fluttu inn þessar finnsku kartöflur er ekki bara verið að brjóta á neytendum heldur brjóta þeir þær matsreglur sem þeir setja á innlenda framleiðendur. Þær reglur eru að 24 punktar, sem sagt gallapunktar í kartöflusendingu, nægja til að framleiðandi verður að flokka sendinguna upp á nýtt, annars fær hann hana heimsenda. Það kom fram í blöðum að þessar kartöflur, sem fluttar voru inn, höfðu 100 gallapunkta. Hvers eiga innlendir framleiðendur að gjalda? Hvernig er hægt að brjóta meira á þeim en þetta? Verið er að mismuna mönnum gífurlega í þessu sambandi. Þessi vara er sett á markað vegna þess að hún er framleidd í Finnlandi þótt hún sé gersamlega ósöluhæf.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, enda vona ég að það sé enginn hv. þm. hér inni sem mælir því gegn að frjálsræði þarf að komast á. En það er ekki nægilegt að því verði komið þannig á að sérstakir gæðingar fái leyfi til að flytja inn kartöflur. Það verður að gefa þetta frjálst, allir verða að hafa frjálsan rétt á því að flytja þessa vöru inn svo framarlega sem þessi vara uppfyllir þær kröfur sem neytendur gera.

Ég hef heyrt gagnrýni um að hætta sé á smitsjúkdómum sé innflutningur gefinn frjáls. Ég veit ekki hvort sú hætta væri meiri með því að láta eðlilega tollskoðun verða á þessum vörum og meta þær kartöflur þegar þær koma til landsins, hvort sú hætta er meiri en hún er í dag. Það er nefnilega þannig að kartöflur smita ekki jarðveg eða aðra kartöfluframleiðslu nema þær séu settar niður. Ég vona að hringrot smiti ekki mannskapinn sem neytir kartaflna. Mesta hættan er að þær smiti þann mannskap sem vinnur mest í kringum þær í Grænmetisversluninni, enda mætti halda að það hafi eitthvað rotnað á þeim vígstöðvum.

Að lokum mæli ég eindregið með því að þessu máli verði ekki vísað til ríkisstj. heldur fái hv. þm. að greiða hér atkv. um það hvort þeir vilji hafa þennan verslunarmála á eða ekki.