19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6323 í B-deild Alþingistíðinda. (5771)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Vegna þessa tímaskorts skal ég sleppa því að lesa upp úr Brekkukotsannál um rakarafrv. til samlíkingar við það sem hér á sér stað, en mig langar þó að nýta mér þann rétt minn að mega ræða þetta mál því að það hefur gagntekið bæði hugi og vinnu manna hér undanfarna daga með þeim hætti að skýrara hefur orðið en ella við hvað er að glíma og vil ég þá taka kannske fyrst til við það sem mætti kalla hrossakaupin. Það má búast við því skv. þeim tillögum sem hér liggja fyrir að reynt verði að vísa þessu máli frá hv. Ed. til ríkisstj. og svæfa það þannig svo að lægja megi þær öldur sem æstust upp núna í vindum undanfarinna daga. Menn kunna reyndar að hafa túlkað þessa vinda þannig að það væri einhver titringur á ríkisstj. Ég efast um að svo sé. Hér á sér stað ákveðinn leikur sem er tæknilega ekkert 6eðlilegur. Hérna eru menn að vinna að sínum málum, vinna þeim framgang og nýta sér kreppu hvers annars til þess að ná sem hagstæðustum samningum. Það sem þó er öllu meira óviðeigandi í þessu máli hér er að hér er um mjög altæka hagsmuni að ræða.

Ég fullyrði að af þeim lögum sem á dagskrá eru núna, aðallega í Nd., og trúlega hafa verið vegin á móti þessu máli á vogarskálunum eru engin eins altæk og þau lög sem hér um ræðir, þ. e. snerta eins víðtæka hagsmuni. Það er þess vegna sem mér finnst óverjandi að menn skuli ekki vera reiðubúnir til þess að fórna þeim málum sem þeim eru hugsanlega kær til þess að málefni sem snertir jafnmarga jafnnáið nái fram að ganga. Hugsanlega fáum við einhverjar lagfæringar. Trúlega verða þær ekki stórfelldar miðað við þær aðstæður að sú ríkisstj. sem nú situr hér í landi er samsett af öflum sem fyrir margra hluta sakir eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, en fyrir margra hluta sakir hafa líka nokkuð ótík sjónarmið eða hugsjónir.

Um hugsjónir Sjálfstfl. langar mig til þess að vitna beint til samþykkta hans, í stjórnmálayfirlýsingu landsfundarins árið 1973, fyrir tíu árum. Ég vona að menn séu ekki búnir að gleyma henni. Ég held þeir hafi rifjað hana upp í haust sem leið. Þar kemur fram að þau vandamál sem við er að glíma í þessu þjóðfélagi verði best leyst eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„að þessi vandamál verði best leyst í anda frjálshyggju, en ekki með aukinni ríkisforsjá, með frumkvæði og framtaki einstaklinga, en ekki fjarstýrðum áætlanabúskap, með valddreifingu, en ekki miðstjórnarvaldi.“

Grænmetisverslun landbúnaðarins, sem er nokkurs konar arftaki Grænmetisverslunar ríkisins, er mjög klárlega miðstýringarapparat. Þetta apparat hefur verið nokkuð lengi hér við lýði og er orðið til á þeim tíma þegar menn í anda samvinnuhugsjónar brutust undan einokunarveldi og reyndu með samtökum fólks, bæði sósíalistar og aðrir félagshyggjumenn, að koma á annars konar verslunarháttum hér með hagsmuni neytenda í huga. En svo fór sem fór að þetta nýja fyrirkomulag og þessi hugsjónastarfsemi leitaði smátt og smátt í mjög svipaðan farveg og einokunarverslunin. Hún gleymdi í raun og veru eftir því sem á leið að það voru hagsmunir neytendanna sem voru markmiðið og á endanum voru það eingöngu eigin hagsmunir sem réðu gerðum hennar. Ég fullyrði að mjög margt í rekstri þessa fyrirtækis þyrfti eða þarfnast mjög rækilegrar endurskoðunar, jafnvel þó að þetta fyrirtæki sé vegna þrýstings utan úr þjóðfélaginu e. t. v. og vonandi að liðast í sundur. Viðskiptahættir þessa fyrirtækis hafa verið með því sniði að ég teldi mjög nauðsynlegt að einhvers konar nefnd, hvort sem hún væri á vegum Alþingis eða annarra aðila, tæki að sér að skoða þó ekki væri nema sögu þessa fyrirtækis. Þar höfða ég til t. d. ákveðinnar vitneskju sem barst okkur s. l. haust um hvernig staðið hefði verið að flutningsmálum þessa fyrirtækis, en það tel ég hafa verið með öllu óheilbrigða viðskiptahætti. Ég hygg að í gegnum slíkan rekstur hafi hagsmunir þeirra aðila, sem að þessu fyrirtæki standa, hugsanlega verið fyrir borð bornir.

Að viðhalda þessu kerfi er í anda ákveðinna hugsjóna og þær hugsjónir höfum við heyrt mjög víða. Við getum vitnað hér til ákveðinna orða um að sameina skuli rekstur akuryrkju og iðnaðar og vinna að því að mismunur á borgum og sveitum hverfi smám saman. Við getum vitnað til orða þar sem segir: „Stofna skal þjóðbanka með ríkisfjármagni og algeru einkaleyfi til seðlaútgáfu og sameina þannig fjármálastarfsemi í höndum ríkisins.“ Finnst ykkur þið kannast við þessi markmið? Þetta er upp úr Kommúnistaávarpinu. Ég verð að játa að það setur að mér hroll þegar frjálshyggjupostular eru að berjast fyrir þessum sjónarmiðum hér á landi nú í dag. Hvað gerðist? Hví skyldu þessir menn ruglast svo í ríminu að þeir eru allt í einu orðnir málsvarar Kommúnistaávarpsins hér á landi? Það er sagt að vegir guðs séu órannsakanlegir, en ég fer að halda að vegir stjórnmálanna séu jafnvel enn þá órannsakanlegri en nokkurn tíma vegir guðs.

Ég vil, herra forseti, af tillitssemi við þá tímaþröng sem við erum í, gera stuttan endi á mínu máli. Ég verð líklega að ráðleggja mönnum að taka sér Brekkukotsannál Halldórs Laxness í hönd þegar þeir koma heim og lesa 32. kapítula um stjórnmálafund í Góðtemplarahúsinu, um rakarafrv. Þar er á dagskrá spurning um mannréttindi eða ekki, það að mega raka sig. Gamalt fólk og íhaldssamt taldi hinu unga trú um að þá fordild að raka af sér skeggið mætti kenna við úrkynjun og fordild og sumir gengu jafnvel enn lengra og sögðu að það væri hreint og beint ókarlmannlegt að láta raka af sér skeggið.

Sú deila sem hefur átt sér stað hér um það hvort menn eigi að fá að kaupa kartöflur hvar og hvenær sem er og hvernig sem er er gersamlega út úr kortinu miðað við það þjóðfélagslega ástand sem við búum við í dag og tekur engu tali. Hæstv. landbrh. lýsti eftir reglugerð um hvernig skyldi nú standa að þessari verslun. Þessi orð sýna langbest þá þröngsýni sem hér ræður ríkjum. (Gripið fram í.) Allt í lagi. Það er hægt að hugsa sér að slaka svolítið á grænmetisverslunarmálinu, en það verður að halda áfram að stýra því pólitískt. 1. minni hl., sem ég ekki tilheyri af því að ég sit ekki í landbn., er að höfða beint til þess sem hægt er að ganga út frá ef maður vill, og það er vilji sem þarf, að hér á landi eru neytendur sem kaupa kartöflur og þeir kaupa þær hjá kaupmönnum sem kaupa þær hjá innflytjendum eða framleiðendum og menn vita hver eftirspurnin er og þar af leiðandi vita þeir hver þörfin er. Ég tel ekki að það sé til nokkur betri mælikvarði á þetta en sá. Ég tel ekki að það þurfi nokkurn mann uppi í rn. eða einhverri stofnun sem sitji við það að reikna út hvað þurfi nú og megi flytja inn margar kartöflur á næsta mánuði. Menn vita af reynslunni hver eftirspurnin er. Pantanirnar berast frá kaupmönnunum eftir því sem kartöflurnar seljast og meira þarf ekki til að stjórna þessu fyrirtæki. Og ég held að íslenskir framleiðendur þurfi engu að kvíða því að eins og hæstv. landbrh. sagði eru íslenskar kartöflur góðar þegar þær eru til og þegar þær ekki skemmast, enda þarf náttúrlega ekki að kaupa þær þegar þær eru ekki til og það neytir þeirra enginn þegar þær skemmast.