19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6329 í B-deild Alþingistíðinda. (5786)

252. mál, fjarskipti

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv. til fjarskiptalaga sem hér var mælt fyrir er vissulega mikilsvert mál og stór lagabálkur. Það ber að harma að það skuli koma svo seint hér til hv. deildar á allra síðustu dögum þingsins. Ég ætla ekki að bregða fæti fyrir framgang þess máls, sé ekki sérstaka ástæðu til þess, þó að full ástæða hefði verið til þess að þingdeildin tæki mun meiri tíma til að athuga það. En um það verður að sjálfsögðu fjallað í nefnd og það er undir því starfi komið sem þar fer fram hvern framgang málið fær hér og hvort lögfest verður.

Hæstv. ráðh. nefndi atriði sem hann hygðist láta athuga betur. M. a. er það spurningin um atvinnuréttindi símvirkja og hversu langt umsvif og störf Pósts og síma eiga að ná í sambandi við ýmis efni.

Það er eitt atriði sem ég vildi nefna hér sérstaklega. Það tengist þeirri brtt. sem gerð var að tilstuðlan samgn. Ed. varðandi fjarskiptavirki og vissa heimild þar til ráðh. að veita undanþágur. Þetta frv. getur komið inn á verksvið Ríkisútvarpsins með einhverjum hætti, en þó hygg ég að það hafi verið hugmyndin að skilin þarna á milli væru sem ljósust. Ég vil taka það fram að ég tel að undanþágur sem varða fjarskiptavirki eigi ekki skv. þessu frv. og hugsanlegri lögfestingu þess að taka til þátta eins og kapalkerfa, sem snerta útvarpssendingar og dreifingu útvarpsefnis, en um það mál var sérstaklega fjallað í frv. til útvarpslaga sem ekki verður afgreitt á þessu þingi að því er best verður séð. Ég túlkaði þá skoðun við umr. um það mál að kapalkerfi fyrir útvarp, hvort sem um er að ræða sjónvarpssendingar eða talað mál, ættu að vera í opinberri eigu, skilyrðislaust í opinberri eigu í framtíðinni og lög að miða við það, og ég treysti því að engin sú túlkun verði viðhöfð í sambandi við það frv. sem hér er til umr. sem snertir það mál. Úr því verði skorið í sambandi við frv. til útvarpslaga.