19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6330 í B-deild Alþingistíðinda. (5789)

341. mál, Íslensk málnefnd

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. tók fram, þá tókst um þetta efni, frv. um Íslenska málnefnd, góð samstaða í hv. menntmn. Voru gerðar allverulegar breytingar á frv. eins og það var hér fram lagt og að okkar mati allar til bóta.

Eitt ákvæði laut að því að annar fulltrúinn sem ráðh. tilnefndi í Íslenska málnefnd væri forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar, en það er heiti á skrifstofu málnefndar. Þar er verið að stofna til eins konar framkvæmdastjórastarfs fyrir þessa starfsemi. Þetta ákvæði var fellt niður og það látið opið í rauninni hvort forstöðumaður þessarar skrifstofu málnefndarinnar yrði skipaður í nefndina.

Ég vil að það viðhorf mitt komi hér fram að ég tel ekki skynsamlegt að rugla reytum saman með þeim hætti og það sé eðlilegt að framkvæmdastjóri Íslenskrar málstöðvar sé ekki skipaður í málnefndina sjálfa. Aðstaða hans til áhrifa á þessi mál er að sjálfsögðu mjög mikil eftir sem áður. Það er ætlast til þess að samráð verði haft við málnefndina varðandi hans verkefni, m. a. skipan starfsliðs sem hugsanlega yrði ráðið á vegum skrifstofu Íslenskrar málnefndar. Ég tel að það sé eðlilegt að forstöðumaður skrifstofunnar sé starfsmaður Íslenskrar málnefndar en eigi ekki sæti í nefndinni sjálfri. Um þetta er ekkert kveðið á í frv. eins og það liggur nú fyrir, en ég vildi lýsa þessum skilningi mínum.