19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6330 í B-deild Alþingistíðinda. (5790)

341. mál, Íslensk málnefnd

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég fagna því að náðst hefur atger samstaða um þetta mál í menntmn. Nd. þannig að allir flokkar og allir hagsmunahópar standa að því að sinna íslenskri tungu og íslenskri menningu á þann hátt sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Mér þykir þó ástæða til að bæta eilitlu við. Það er það að svo fagurt sem þetta frv. lítur út og hve fögur sem stefnan er, þá skiptir náttúrlega öllu máli að sæmilegar fjárveitingar verði til málnefndarinnar. Ég minnist nú á þetta sérstaklega hér vegna þess að mér er vel ljóst að í þeim fjármálaörðugleikum sem Íslendingar eiga í er gjarnan gripið til þess að skera niður í menningar- og menntamálum af því að þar eru ekki sterkir hagsmunahópar sem tröllríða þm. og niðurskurður á ýmsum menningarefnum veldur ekki geðshræringu að neinu ráði.

Ég vil benda á að við heimspekideild Háskóla Íslands eru starfandi stofnanir, sem vinna líka að íslenskri menningu, Bókmenntastofnun og Málvísindastofnun. Hvað varðar Bókmenntastofnunina, þá hafa fjárveitingar til hennar stöðugt rýrnað að verðgildi og Málvísindastofnunin hefur ekki fengið krónu í 2–3 ár. Þessi stefna er náttúrlega óverjandi. Forráðamenn þjóðarinnar tala um íslenska menningu og bókmenntir á stássfundum með höfðingjum í veislum, tala um bókmenntir og tungumálið. En þegar að því kemur að láta fé af hendi rakna, þá eru hendur í vösum.

En ég ætla ekki að orða þetta lengi. Ég bara fagna þessu frv. og treysti því að hæstv. menntmrh. fylgi þessu eftir með dugandi fjárveitingum bæði til málnefndar og annarra þeirra stofnana sem reyna að styðja við bakið á íslenskri menningu.