19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6336 í B-deild Alþingistíðinda. (5809)

221. mál, jarðalög

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og ef ég hefði verið lengur á þingi hefði ég e. t. v. flutt brtt. En eins og öll aðstaða er og allur málflutningur hér á þinginu sá ég að það var gagnslaust. Hins vegar vil ég vekja athygli á stöku hlutum hér í frv., sem stinga í augu, a. m. k. þeim manni sem býr á þéttbýlissvæðinu og horfir svona úr nokkurri fjarlægð á þá hluti sem hér er upp taldir.

Ég vil geta þess að góðkunningi minn einn fékk fyrir tveimur árum að gjöf frá bróður sínum einn hektara af landi hans. Þetta var eiginlega föðurarfur. Þegar hann ætlaði að fara að þinglýsa gjafabréfinu kom í ljós að hann þurfti að fá heimild hjá fjórum aðilum til þess að þetta gjafabréf væri gilt. Hann þurfti að fá uppáskrift hjá hreppsnefnd, jarðanefnd, Landnámi ríkisins og viti menn: stimpil frá ráðh. Þá fyrst gat hann þinglýst gjafabréfi fyrir þessum eina hektara sem hann fékk af föðurleifð sinni.

Þetta er enn bætt og aukið í þessu frv. Það er dálítið annarlegt fyrir mig að lesa það að ef land er tekið til annarrar nýtingar en landbúnaðar, eins og segir hér í 12. gr. frv., þá þarf hvorki meira né minna en samþykkt fimm aðila; þ. e. það á enn að auka á þetta. Vinur minn gekk fyrir fjóra aðila. Nú eru þeir orðnir fimm. Það þarf samþykki ráðh., enda hafi áður verið samþykkt af viðkomandi jarðanefnd og sveitarstjórn og fyrir liggi umsögn Skipulags ríkisins og Búnaðarfélags Íslands. Drottinn minn dýri: Hvers konar apparat er þetta eiginlega?

Á sama hátt er þetta allt njörvað niður ef einhver aðili ætlar að endurbyggja eyðijörð, og lofsvert sé það framtak að leita unaðar í náttúrunni. En það er fyrirhöfn að finna unaðinn því að það þarf hvorki meira né minna en samþykki landbrn., sveitarstjórnar og jarðanefndar til viðbótar við umsögn Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Hvers konar kerfi er verið að setja hérna yfir þjóðina? Og þetta er á öllum sviðum. Það er ekki hægt að hreyfa sig hér í landinu nema að fá uppáskrift frá fimm aðilum, og svo þarf einhvern stimpil frá ráðh. ef hann Bjarni Guðnason ætlar að fá sér kartöfluhektara fyrir austan fjall.

Hvers konar kerfi er þetta? Það er þetta sem er ástæða til að vekja athygli á, hvernig komið er fyrir þessum landbúnaði hér. Það er ekki furða að landbúnaðarvörur séu dýrar. Uppgjafabændur sitja við stimpla og stimpla fyrir þá sem enn eru í ræktinni. Þetta er ekkert smáræðis stimplasamsafn. Og hverjir eru að þessu og fyrir hverja? Hvernig skyldi þetta vera í Sovét? Einhver sagði: Sovét-Ísland, hvenær kemur þú? Óskalandið. En við erum þegar komnir í það land. Viti menn, það þarf fimm stimpla til þess að geta hreyft sig hér í landinu. Og þetta snertir allar hreyfingar innan landbúnaðarins: Eyðijörð, fimm stimpla, fá hektara undir sumarbústað, fimm stimpla, fá nýtt býli, fimm stimpla. Þetta er alveg dásamlegt kerfi. Það er eitthvað unaðslegt við þetta.

En það eru margar hliðar á þessu máli. Fyrir utan það, sem mér þykir sárast, ófrelsið sem er með þessu. Ég vil í burtu svona sóðaskap. Eiga einstakir hagsmunahópar að geta sagt mönnum fyrir um hluti af þessu tagi? Ég segi nei. Og fyrir utan ófrelsið þá er fólginn í þessu svo mikill misskilningur, að ógleymdu því að auðvitað borgar almenningur þetta. Þetta skýrir ýmislegt. Það kostar eitthvað að halda uppi svona kerfi. Og svo hitt: Er heimilt í þessu þjóðfélagi að einhver ákveðin — ég vil segja landeigendastétt geti á þennan hátt haldið fólki í þéttbýlinu frá landnýtingu. Á það ekki að geta komið sér upp húsnæði í sveitinni án þess að þeir aðilar sem þar eru fyrir ákveði slíkt? Ég vil benda ykkur á að ef góður bóndi og gildur kemur til Reykjavíkurborgar getur hann keypt hér allar hallir eins og hann vill og hvar sem hann vill ef hann hefur peninga og stendur í skilum. Við setjum engin skilyrði fyrir slíku. En ef ég ætla að fara austur fyrir fjall, drottinn minn dýri, ég þarf að hafa fimm stimpla.

Og hvað varðar neytandann er spurningin í raun og veru: Er landbúnaðurinn og land þjóðarinnar einkamál bænda? Ég vil bændum allt hið besta. Ég elska bændur. En svona lagað kann ég ekki við. Það er beinlínis verið að skipta þjóðinni í tvo hópa, þá sem eiga landið, þá sem geta ráðið landinu og setja skilyrði fyrir hina sem hafa áhuga á að eignast land. Þetta gera þeir í nafni framleiðslunnar. En framleiðslan er ekki maðurinn. Svona sóðakerfi er skammarlegt. Ég skil ekkert í Sjálfstfl. Að vísu er hann nú allur buxnalaus um þessar mundir svo að það er ekki mikils að vænta úr þeirri átt. En hvað er með þennan svonefnda frjálshyggjuflokk? Þeir eru alveg komnir yfir í þann mjöð sem heitir kókómjólk og mangó og skemmdar kartöflur. (Gripið fram í: Og stimpla.) Og stimpla. Stimpla. Þeir eru komnir í stimplaflokkinn.

Eitt skemmtilegt dæmi um hvað þessir elskendur ráða og kerfa og stimpla aðhafast er það sem ég heyrði í útvarpinu í gær: að hæstv. landbrh. hafði skipað sjö manna nefnd til þess að athuga leyfi handa innflytjendum vegna 150 tonna af kartöflum, sem er víst vikuskammtur hér í búðum. Sjö manna nefnd skyldi það vera. Það eru sjö stimplar. (Gripið fram í.) Þetta er alveg dásamlegt kerfi. Það er ekki furða að smjörið er dýrt þegar menn halda uppi svona kerfi. Og hinir flokkarnir, sem eru í þinginu, já, fyrir utan Framsfl., eru búnir að gefast upp í baráttunni því að þetta er svo mikill misskilningur hjá forustumönnum bænda að búa til svona kerfi, fyrir utan að þeir hafa ekki heimild til að búa til svona kerfi í einu þjóðfélagi, hreint ekki neina. Ég skil ekkert í mönnunum að láta sér koma til hugar að búa til svona kerfi. Fyrir utan ofríkið og yfirganginn sem felst í kerfinu. Ég skil ósköp vel að fulltrúar bændastéttarinnar hafi áhyggjur af þeirri stöðu sem uppi er í landbúnaðarmálum og þeir vilji hafa stjórn á þeim málum. Það er eðlilegt og rétt að hafa stjórn á þessum málum. En þetta er ekki stjórn. Þetta er ofstjórn og óstjórn. Og það eru tveir ólíkir hlutir. Ég skil það vel að bændur vilji ráða nokkuð gangi mála eins og nú háttar í sínum héruðum og í sínum landbúnaði og þeir vilji gjarnan vera umsagnaraðili um þróun mála. Ég skil það fullkomlega. Það er eðlilegt að þeir geti haft einn umsagnaraðila, ekkert að því. Þeir geta látið álit sitt í ljós. En fimm stimplar og það alla leið upp í rn. til að fá einn kartöfluhektara fyrir austan fjall, hvers konar kerfi er þetta? Hvaða þjóðfélag erum við að bjóða upp á hér, hv. þingheimur?

Öll landbúnaðarmálin eru bersýnilega komin í algert óefni af misskilningi íhaldssamra hagsmunahópa. Hér má ekkert hreyfa. Það vantar alla víðsýni til þess að taka rétt á málunum. Þetta birtist á öllum sviðum í landbúnaðarmálum. Jafnvel þegar verið er að selja skemmdar kartöflur í búðum og fulltrúi þessara skemmdu kartaflna er spurður hvort honum þyki eðlilegt að allar þessar kartöflur séu settar í 1. flokk, þó að þriðjungurinn sé víslega og sannanlega skemmdur og henti svínum, þá svarar þessi ágæti fulltrúi landbúnaðarins: Já, það er fullkomlega eðlilegt, vegna þess að ef við settum eitthvað af þessu í 3. flokk, þá mundu niðurgreiðslurnar aukast. Þetta eru vinnubrögðin. Og það er ekki einu sinni beðið afsökunar á þessu sóðakerfi hér. Þetta er Sovét-Ísland sem fulltrúar bændastéttarinnar eru að koma hérna á þjóðina.

Já, þetta er skemmtilegt, hv. þm. Ég ætla ekki að flytja brtt. af því að sóðaskapurinn er svo mikill að ég yrði að skrifa heila bók og það yrði að gerbreyta öllu. Hugsunarhátturinn er þannig að mér er ofvaxið að ráðast á svona kerfi. En ég vil beina því til annarra manna hér, ég tala nú ekki um buxnalausa flokkinn, hvort hann hafi ekki hug á því að staldra við og athuga þetta kerfi, sem er verið að búa til í þjóðfélaginu, reyna að athuga hvað er að gerast. Það fljóta allir sofandi að feigðarósi í þessum efnum. Það gefast allir upp. Ég tala nú ekki um Alþýðubandalagsveslingana sem alltaf eru að reyna að hirða eitt atkv. hér og þar á landsbyggðinni og eru búnir að týna öllum áttum. Þeir eru vegvilltir, eins og félagi minn Karvel Pálmason mundi segja. Það eru öll stefnumið niðurbrotin hér á þinginu. Það er verið að karpa sífellt um smáhluti og það er eins og allir flokkar séu búnir einhvern veginn að missa áttir.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta.