19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6339 í B-deild Alþingistíðinda. (5810)

221. mál, jarðalög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka síðasta ræðumanni fyrir skemmtilega ræðu. Mér fannst hún vera skemmtileg en mér fannst hún ekki skynsamleg. Það er gott og blessað að efla gott samstarf á milli borgarbúa og sveitafólks og ég held að við ættum öll að reyna að vinna að því eftir því sem við mögulega getum. Það stendur a. m. k. ekki á bændum að reyna að koma því góða samstarfi á. Við eigum auðvitað að lifa saman í þessu landi og fara vel með það og nýta það með skynsamlegum hætti og það er mesti misskilningur að hugsa sér að landeigendur eigi að loka landinu fyrir umgengni annarra borgara í þjóðfélaginu.

Hitt er svo aftur annað mál, að það er skynsamlegt að skipuleggja landbúnaðarframleiðsluna. Við eigum við verulegan vanda að stríða núna vegna þess að við höfum verið of duglegir og framleitt óþarflega mikið. Það er nauðsynlegt að reyna að framleiða mátulega fæðu handa þjóðinni af kjöti og mjólk- og kartöflum, ekki má gleyma þeim. Hv. þm. Bjarni Guðnason sagði að landbúnaðarmál væru komin í óefni. Það er nokkuð til í því. Þetta óefni er kannske til orðið ekki síst vegna þess frelsis sem menn hafa haft til að framleiða hver eftir sinni getu. Þeir hafa dugað til að framleiða meira en þjóðin hefur verið tilbúin að kaupa.

Það er áreiðanlegt að hv. þm. Bjarni Guðnason mundi vera velkominn með sumarbústað sinn í hverja sveit. Ég ímynda mér ekki að honum yrði nokkurs staðar úthýst. En það væri kannske ekki alveg sama hvar hann setti sumarbústaðinn eða hvað margir slíkir kæmu eða hvernig þeim væri fyrir komið í landinu. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það þó að leitað sé til skipulagsyfirvalda um það hvar þeir eru settir og uppáskrift fengin áður en hann reisti þá.

Ef hv. þm. Bjarni Guðnason ætlaði að fara að hefja sauðfjárbúskap fyrir austan fjall eða koma sér upp kúm á landi, sem hann kynni að eignast þar, þá er ekkert óeðlilegt að athugað yrði áður en hann hæfi framleiðsluna hvað hann ætlaði við hana að gera og hvaða möguleikar væru til að koma henni í verð. Það er víðar ófrelsi en í sveitinni. Ég er næstum því viss um að ef hv. þm. Bjarni Guðnason ætlaði að byggja bílskúr á lóð sinni hér í Reykjavík, hlyti hann að þurfa að leita til borgaryfirvalda og skipulagsyfirvalda til þess að fá stimpil upp á það að hann mætti byggja bílskúrinn. (BjG: Þetta eru fimm stimplar.)