19.05.1984
Neðri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6344 í B-deild Alþingistíðinda. (5843)

316. mál, tannlækningar

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Nd. hefur tekið frv. þetta sem hér er til umfjöllunar, frv. til l. um tannlækningar, til meðferðar og fjallað um það á nokkrum fundum. Allmiklar umr. urðu um frv. og þó einkum um 3. gr. þess þar sem fjallað er um tannlæknaleyfi og leyfi til að veita mönnum þann rétt að kalla sig tannlækni. Í 2. mgr. er fjallað um að sé um erlendan ríkisborgara að ræða skuli hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. Þar segir að leitað skuli umsagna Tannlæknafélags Íslands og landlæknis. Einkum um þetta atriði urðu umr. í nefndinni og það hvort eðlilegt væri að leita umsagnar Tannlæknafélagsins sérstaklega varðandi þetta mál.

Með tilliti til þess að í frumvörpum, sem þingið hefur að undanförnu samþykkt um starfsréttindi, eins og t. d. frv. til I. um sjóntækjafræðinga, sem nú er orðið að lögum, svo og frv. til l. um sjúkraliða þar sem eru hliðstæð ákvæði um að leita skuli umsagnar viðkomandi félaga, Félags sjóntækjafræðinga og Sjúkraliðafélags Íslands, þótti n. ekki fært að gera þá breytingu að fella niður að leitað skyldi umsagnar Tannlæknafélagsins, þ. e. nefndin treysti sér ekki til að standa að þeirri breytingu sameiginlega.

Hins vegar erum við sammála um að mæla með því að frv. þetta verði samþykkt, en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Undir þetta skrifa síðan allir nm.