19.05.1984
Neðri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6345 í B-deild Alþingistíðinda. (5846)

316. mál, tannlækningar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi við þessa brtt. frá Guðrúnu Agnarsdóttur og Bjarna Guðnasyni, en ég hefði jafnframt viljað bera fram fsp. um það atriði, sem hér er í 3. gr. frv., að sé um erlendan ríkisborgara að ræða skuli hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. Ég tel að vísu að mjög æskilegt sé að tannlæknar kunni íslensku vel ef þeir eru af erlendu bergi brotnir. En það er líka gott að þeir töluðu góða íslensku sem eru af íslensku bergi brotnir. En mér finnst nokkuð ankannalegt að setja svona ákvæði í lög sérstaklega varðandi þessa starfsstétt.

Við vitum að hér er um mjög takmarkaðan hóp að ræða. Sjálfsagt á það sinn þátt í því hvað tannlækningar eru dýrar á Íslandi hvað þetta er lítill og lokaður hópur. Hér virðist mér enn frekar verið að herða að að menn komist ekki úr þeim viðjum. Ljóst er að mjög fáir íslenskir tannlæknar verða útskrifaðir næstu árin. Menn geta þá ekki einu sinni bjargað sér á því að erlendir aðilar stundi hér tannlækningar og létti af þessari pressu.

Mér leikur forvitni á að vita hvort í mörgum öðrum lögum og varðandi margar aðrar starfsstéttir séu ákvæði af þessu tagi. Ég held reyndar og get bætt því við að það gæti allt of mikillar tilhneigingar hjá hinni íslensku löggjafarsamkomu að lögvernda alls konar starfsheiti og starfsréttindi. En við skulum láta það liggja á milli hluta. Það væri sjálfsagt efni í stærri ræðu. En fróðlegt væri að fá upplýsingar ráðh. um það hversu algeng ákvæði af þessu tagi séu og á hvaða sviðum þau eru áður en þetta mál verður afgreitt.