19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6353 í B-deild Alþingistíðinda. (5863)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sú þáltill. sem hér er til umr. lætur ekki mikið yfir sér þó hér sé stórt mál á ferðinni. Alþingi á auðvitað ekki að vera bjóðandi að taka afstöðu í slíku stórmáli á grundvelli þeirra örfáu lína sem hæstv. ráðh. þóknast að láta fylgja með þessu máli. Í þessu máli, eins og mörgum öðrum sem framkvæmdavaldið leggur fyrir Alþingi, á að nota þingið sem hverja aðra afgreiðslu- og stimpilstofnun fyrir ráðherrana en síðan er Alþingi gert að bera ábyrgð á málum.

Í því máli sem hér er til umr. hefur Alþingi á þessu stigi í raun ekki neinar haldbærar forsendur til að meta hvort skynsamlegt sé að ráðast í þetta verkefni eða hvaða fjárhagsleg áhætta er hér tekin. Því hlýtur það mjög að orka tvímælis að Alþingi skrifi undir þessa óútfylltu ávísun til framkvæmdavaldsins svo ekki sé meira sagt. Hér erum við ekki að tala um neinar smáupphæðir þegar heildarframkvæmdakostnaður er vel á þriðja milljarð króna.

Gegnum árin er alltaf verið að afgreiða alls konar heimildarlög til framkvæmdavaldsins og er það í raun svo að í mörgum málum er ákvarðanataka að færast frá Alþingi yfir til ráðh. og framkvæmdavaldsins. Það væri t. d. fróðlegt að fá upplýst hjá hæstv. iðnrh. við þessa umr. hversu mörg heimildalög eru nú í gildi á sviði iðnaðar- og orkumála í hans rn. sem hann t. d. eða aðrir ráðh. sem á eftir koma gætu farið af stað með ef þeim svo sýndist án þess að Alþingi hafi aðstöðu til að meta hagkvæmni eða skynsemi þeirra ákvarðana sem teknar kynnu að vera skv. heimildalögum sem í gildi eru. Varðandi þá verksmiðju, sem hér er til umr., eru þær fjórar meginforsendur, sem byggja þarf á þegar lagt er mat á hagkvæmni og skynsemi þessa verkefnis, vægast sagt mjög óljósar, þannig að alþm. hafa í raun ekki fyrir sér þá heildarmynd sem nauðsynleg er þegar þeir taka jafn mikilvæga ákvörðun og hér er lagt til af hálfu iðnrh. að tekin verði með þessari þáltill., um að heimila framkvæmdavaldinu að reisa og reka kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði.

Þessir fjórir meginþættir snerta í fyrsta lagi eignaraðild og samvinnu við innienda eða erlenda aðila um þetta verkefni þannig að hægt sé að leggja mat á þá fjárhagslegu áhættu sem fylgir þessu verkefni fyrir ríkissjóð.

Í öðru lagi hver sé staðan í markaðsmálum og hvernig fyrirhugað sé að standa að henni. Hvaða möguleika höfum við til að selja framleiðsluna? Liggur fyrir einhver trygging um markað og sölu fyrir framleiðsluna sem áætluð er um 25 þúsund tonn á ári? Í arðsemisútreikningum sem fyrir liggja er lítið sem ekkert fjallað um þessa hlið mála og ljóst af umr. í atvmn. um málið að þessi hlið mála hefur ekki nægjanlega verið könnuð til að gefa Alþingi upplýsingar um hvernig fyrirhugað er og best sé að standa að markaðsmálum. En þau tengjast líka beint og óbeint eignaraðildarmálinu og samvinnu við aðra aðila um þetta verkefni.

Í þriðja lagi er það svo orkuverðið til verksmiðjunnar og afhendingartími orkunnar, en í arðsemisútreikningum sem fyrir liggja eru 18 mill lögð til grundvallar. Þessi þáttur mála liggur heldur ekki ljós fyrir, en í bréfi Landsvirkjunar til atvmn. kemur fram að áætlað verð á forgangsorku til stóriðju muni liggja á bilinu 18–22 mill.

Varðandi orkuafhendingu kemur fram í bréfi Landsvirkjunar að Landsvirkjun geti afhent kísilmálmverksmiðjunni forgangsorku frá þeim tíma sem Blönduvirkjun hefur framleiðslu sem áætlað er að verði 1988. En fram til þess tíma kemur til greina að afhenda orku með takmörkuðu afhendingaröryggi, þ. e. afgangsorku, og þá á lægra verði. Einnig kemur eftirfarandi fram í bréfi Landsvirkjunar, með leyfi forseta:

„Ef kísilmálmverksmiðjan óskar eftir orku áður en Blönduvirkjun kemst í gagnið, t. d. frá 1. sept. 1986, má reikna með að í meðalvatnsári verði hægt að fullnægja 80–90% orkuþarfarinnar en e. t. v. aðeins 40–50% hennar í mjög þurru ári og er hér átt við orkuþörf eins ofns. Fyrir tvo ofna má búast við hlutfallslega minni orkuafhendingarmöguleikum.

Auk hugsanlegrar skerðingar á orku vegna vatnsskorts má búast við einhverri skerðingu vegna aflsskorts, sérstaklega veturinn 1987–1988. Slík skerðing yrði þó vart mikil að orkumagni en getur haft veruleg áhrif á rekstrarmáta verksmiðjunnar. Þá benda nýjustu athuganir Landsvirkjunar til þess að vandamál vegna flutnings orku eftir byggðalinum til kísilmálmverksmiðjunnar megi leysa þótt Sprengisandslína komi ekki fyrr en undir lok þessa áratugar, en treysta verður því að ekki dragi úr núverandi orkuframleiðslugetu Kröfluvirkjunar.“

Ég vil einnig varðandi þennan óvissuþátt vitna til orða hæstv. iðnrh. við 1. umr. þessa máls, en þá sagði ráðh., með leyfi forseta:

„Í öllum áætlunum og arðsemisreikningum væri miðað við 18 mill. Endanlegt raforkuverð ákvarðaðist þó af ýmsum atriðum svo sem kaupskylduákvæðum hluta afgangs- og forgangsorku og hvernig gangsetning verksmiðjunnar félli að byggingu virkjana. Gera yrði ráð fyrir því að raforkuverðið yrði verðtryggt. Til greina kæmi að tengja raforkuverðið að einhverju leyti markaðsverði kísilmálms og taka tillit til erfiðari greiðslustöðu verksmiðjunnar fyrstu árin meðan afborganir lána væru hvað mestar.“

Óvissa ríkir því einnig í þessu máli varðandi orkuverðið sem er veigamikill þáttur þegar lagt er mat á framleiðslukostnað og arðsemi verksmiðjunnar.

Í fjórða lagi liggja fyrir arðsemisútreikningar sem stjórn kísilmálmverksmiðjunnar hefur gert, en þá skýrslu hljóta alþm. að leggja til grundvallar þegar þeir vega og meta afstöðu sína í þessu máli. Þessir arðsemisútreikningar voru lagðir fram í n. en hefðu auðvitað átt að fylgja þessum örfáu línum sem hæstv. iðnrh. var svo vænn að láta fylgja með þáttill. þegar hann fer fram á að Alþingi taki afstöðu í þessu stóra máli og samþykki að veita honum heimild til að láta reisa og reka kísilmálmverksmiðju sem kostar á þriðja milljarð króna.

Mér er satt að segja til efs að margir alþm. hafi séð þessa skýrslu eða arðsemisútreikningana, hvað þá lesið þá — þó þeim sé hér gert að taka afstöðu til málsins og samþykkja skýrsluna á þeim stutta tíma sem Alþingi hefur haft þetta verkefni til meðferðar á þessu þingi. Nú skal ég ekki draga í efa að stjórn Kísilmálmvinnslunnar hefur reynt að gera þessa arðsemisútreikninga vel úr garði. En ég tel þó að of mikillar bjartsýni gæti varðandi ýmsa þætti í þessum arðsemisútreikningum og tel ég óvarlegt af hæstv. iðnrh. að leggja þessa þáltill. fyrir Alþingi með því fororði að reikna megi með að arðsemi kísilmálmverksmiðjunnar verði 18.5% eða 15.8 fyrir sköttun og 12.6 eftir sköttun.

Eins og fram kemur í skýrslu stjórnar kísilmálmverksmiðjunnar frá janúar 1983 var innflutningsverð á kísilmálmi til Evrópu í lok ársins 1981 1200 til 1250 dollarar á tonn, í apríl 1982 990 til 1015 dollarar á tonn og í nóvember 1982 var það 870 til 930 dollarar á tonn. Í Bandaríkjunum var meðalverð 1982 1150 dollarar á tonn. Þessi þróun á verði hefur töluvert breyst og í arðsemisútreikningum, sem lagðir voru fyrir atvmn., kemur fram að í byrjun apríl hafi verð á kísilmálmi á frjálsum markaði í Evrópu verið 1270 til 1300 dollarar á tonn. Einnig kemur fram að nokkrar birgðir séu til staðar í Japan og verð á frjálsum markaði hafi verið 1275 til 1280 dollarar á tonn. Í skýrslunni kemur einnig fram að kaupendur stefni að 1350 dollurum á tonn. Meðalverð nú miðað við skiptingu milli markaðssvæða er 1325 dollarar á tonn. Í arðsemisútreikningum kemur fram að miðað við 25000 tonna ársframleiðslu kísilmálmverksmiðjunnar verði framleiðslukostnaður 1340 dollarar á tonn. Til að reksturinn standi undir fjármagnskostnaði og afskriftum þurfa því að fást 1340 dollarar á tonn en meðalverð nú miðað við skiptingu milli markaðssvæða er 1325 dollarar.

Í skýrslunni kemur einnig fram að miðað við þetta meðalsöluverð á afurðum verksmiðjunnar í dag, eða 1325 dollarar til áliðnaðar, gildi þess héldist óbreytt allt rekstrartímabilið og raforkuverð væri 18 mill, yrði arðsemi heildarfjármagns fyrir sköttun 9.3% en rekstrartap yrði fyrstu þrjú ár tímabilsins. Fjárstreymi yrði neikvætt fyrsta, þriðja, fjórða, fimmta rekstrarárið en uppsafnað fjárstreymi jákvætt á níunda rekstrarári. Í þeim tölum, sem hæstv. iðnrh. hefur nefnt um arðsemi, eða 15.8% fyrir sköttun og 12.6% eftir sköttun, er í arðsemisútreikningum einungis reiknað með 10% fráviki á söluverði til hækkunar og lækkunar.

Ég tel, herra forseti, að nauðsynlegt hefði verið í þessari skýrslu að leggja mat á stærri sveiflur en hér er gert ráð fyrir. Ég tel að eðlilegt hefði verið að sýna í þessum arðsemisútreikningum, miðað við þær miklu verðsveiflur sem hafa verið á söluverði þessarar framleiðslu á undanförnum árum, að fram kæmi einnig hvaða áhrif það hefði ef t. d. yrði 25–30% verðfall í tvö ár eða 50% samdráttur í 1–2 ár vegna sölutregðu eða orkuskorts.

Ég tel, herra forseti, að heiðarlegt hefði verið og raunar nauðsynlegt að sýna áhrif slíkra sveiflna í þessari skýrslu miðað við hver reynslan hefur verið í þessum málum. Einnig dreg ég í efa að hámarksafköst og nýting verksmiðjunnar, sem fram kemur í skýrslunni, sé raunhæf, a. m. k. gæti þar nokkurrar bjartsýni. Í skýrslunni kemur fram að fræðileg hámarksafköst séu 28 900 tonn á ári. Ef tillit er tekið til eðlilegra rekstrar- og rafmagnstruflana er nýting talin 87% og áætluð framleiðsla því um 25 000 tonn á ári.

Í skýrslu stjórnar kísilmálmverksmiðjunnar frá 1983 kemur eftirfarandi fram: Núverandi afkastageta kísilmálmverksmiðja er áætluð 600–620 000 tonn á ári. Tekið er fram að í þessu sambandi sé nauðsynlegt að hafa í huga að hér sé um fræðileg afköst að ræða. Þau afköst sem hægt er að ná í raun eru háð raforku, fáanlegu hráefni, ástandi á vinnumarkaði og fjármagni og öðrum rekstrar- og efnahagsþáttum. Raunveruleg afköst reynast því verulega lægri. Þannig var nýting heildarafkastagetu um 76% seinni hluta síðasta áratugar þegar mikil eftirspurn var eftir kísilmálmi. Nýting einstakra verksmiðja var þó minni. Eðlileg nýting afkastagetu núverandi kísilmálmverksmiðja er því talin vera 75%, en eins og áður er getið er í skýrslu stjórnar kísilmálmverksmiðjunnar reiknað með 87% nýtingu.

Í skýrslunni kemur einnig fram að áætla megi að núverandi verksmiðjur anni 450–470 þúsund tonna markaði. Í skýrslunni frá 1983 er talið að miðað við eftirspurn sé nýting um 60%. Að ósk minni var leitað eftir áliti Þjóðhagsstofnunar á arðsemisútreikningum sem fyrir lágu. Á þeim stutta tíma sem Þjóðhagsstofnun var ætlaður til þess verkefnis treystu forsvarsmenn stofnunarinnar sér ekki að skila skriflegu áliti um málið, en á fundi n. mætti þó Jón Sigurðsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, og Gamalíel Sveinsson frá Þjóðhagsstofnun. Þeir tóku skýrt fram að þeim hefði gefist mjög lítill tími til að kynna sér málið.

Þegar frv. um kísilmálmverksmiðju var til umr. á Alþingi 1982 skilaði Þjóðhagsstofnun skriflegu áliti um málið. Á fundum n. nú tók Jón Sigurðsson það fram að eftir því sem hann hefði haft tök á að kynna sér arðsemisútreikninga verksmiðjunnar ættu margar þær athugasemdir sem Þjóðhagsstofnun gerði á árinu 1982, enn við í dag um ýmsa þætti er snerta rekstrargrundvöll verksmiðjunnar.

Í skýrslunni frá 1982 kom fram að umfjöllun um málið væri háð þeim veigamikla annmarka að ekki væri um neinn samanburð að ræða við aðra iðnaðarkosti af svipuðu tagi sem til greina kynnu að koma. Af þeim sökum segi niðurstöður arðsemismats afar takmarkaða sögu þar sem einungis væri unnt að bera arðsemi saman við vexti á fjármagnsmarkaði. Slíkur samanburður væri þó varla marktækur vegna gjörólíkrar áhættu. Skortur á samanburði við aðra kosti takmarki mjög gildi arðsemismats á einstökum framkvæmdum, segir að lokum um þennan þátt í áliti Þjóðhagsstofnunar frá 1982.

Í atvmn. nú benti Jón Sigurðsson enn á þennan þátt og sagði að hann ætti eins við í dag og 1982. Í áliti Þjóðhagsstofnunar frá 1982 kemur eftirfarandi einnig fram, með leyfi forseta:

„Í skýrslu verkefnisstjórnar er reiknað með verulegri hækkun afurðaverðs frá því sem nú er, eins og fram kemur hér á eftir, en aftur á móti er ekki reiknað með hækkun á hráefnum. Þetta kann að orka tvímælis, einkum að því er varðar kvarts, sem er um fimmtungur hráefniskostnaðar.“

Þennan þátt gerði Jón Sigurðsson einnig að umtalsefni í n. og taldi að í arðsemisútreikningum væri lítið gert úr hækkunum aðfanga eða hráefnum, þegar lagt væri mat á framleiðslukostnað verksmiðjunnar.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og frsm. fyrir meirihlutaáliti atvmn. nú gerði þennan þátt að umræðuefni þegar frv. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði var til umr. hér á Alþingi 4. maí 1982. Þá sagði hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, með leyfi forseta:

„Varðandi áætlun verkefnisstjórnar um verð á hráefni verksmiðjunnar hefur komið fram ábending um það, m. a. frá Seðlabanka, að ekki sé líklegt að hráefni kísilmálmiðnaðar muni haldast nær óbreytt ef markaðsverð fyrir kísilmálm hækkar á bilinu frá 20–30%. Bent er á að skv. útreikningum verkefnisstjórnar hefur 10% hækkun hráefniskostnaðar verksmiðjunnar í för með sér u. þ. b. 2% lækkun arðsemi fyrirtækisins metið í afkastavöxtum“.

En einmitt það, eins og ég benti á, gerði Jón Sigurðsson einnig athugasemd við nú, að lítið væri gert úr hækkunum aðfanga eða hráefnis þegar lagt væri mat á framleiðslukostnað verksmiðjunnar.

Varðandi þau megintilvik, sem fram komu í reikningum um arðsemi kísilmálmverksmiðjunnar, taldi Jón Sigurðsson, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, að töluverðrar bjartsýni gætti varðandi arðsemina og óvarlegt væri að reikna með þeirri arðsemi sem þar kemur fram. Undir þetta tel ég að hægt sé að taka og að með nokkurri bjartsýni megi þó segja að arðsemin liggi 5– 6% neðar, það er a. m. k. raunhæfari áætlun.

Í þessu sambandi má benda á að fram kom hjá Jóni Sigurðssyni að raunhæfara væri að miða arðsemismatið við lægra markaðsverð og því væri markaðsspáin of bjartsýn. Jón Sigurðsson ræddi einnig nokkuð skítaverð til verksmiðjunnar, vaxtakjör, mat á vaxtakostnaði miðað við áhrif verðbólgu. Bent er m. a. á álit Seðlabankans frá 1982.

Á Alþingi 4. maí 1982 gerði hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson þennan þátt mála að umtalsefni og sagði m. a., með leyfi forseta:

„Í skýrslu Seðlabankans er síðan fjallað um það sem greinir í skýrslu verkefnisstjórnar um áætluð vaxtakjör og kemur fram að Seðlabankinn telur að forsendur verkefnisstjórnar varðandi vaxtakjör á lánum til verksmiðjunnar þurfi nánari athugunar við. Telur Seðlabankinn að niðurstaðan varðandi áætlaða vexti skipti miklu máli vegna samanburðar við afkastavexti verksmiðjunnar eins og þeir hafa verið áætlaðir.

Um áætlað rekstrarfjármagn segir svo í umsögn Seðlabankans:

„Að því er varðar áætlun verkefnisstjórnar um rekstrarfjármagn er það skoðun Seðlabankans að þrátt fyrir það að verkefnisstjórn hafi ekki gert ráð fyrir neinum greiðslufresti á aðföngum, þá sé hér um vanáætlun að ræða. Þessi skoðun kemur einnig fram í grg. ráðgjafarfyrirtækisins RDG“ — sem er skammstöfun fyrir Resourees Development Group. — „Hversu mikið á vantar hafa ekki verið tök á að meta, enda mun það m. a. ráðast af stærðum sem ekki eru þekktar, svo sem greiðslukjörum til umboðsmanna og fleira slíku.

Í ábendingum hér að ofan að því er varðar rekstrarkostnað hefur verið nefnt að í áætlunum er ekki gert ráð fyrir neinum verulegum sveiflum í verðlagi og sölu milli ára. Ef gera á raunhæft mat á stöðu fyrirtækisins verður að gera ráð fyrir því að meira fé í rekstrarfjárformi þurfi til öryggisins vegna til að mæta slíkum sveiflum ef greiðslugeta fyrirtækisins á að vera tryggð. Nægir í því sambandi að benda á þá fjármagnsþörf sem nú er til umfjöllunar á Alþingi vegna hliðstæðra rekstrarerfiðleika Íslenska járnblendifélagsins.““

Og áfram heldur Birgir Ísl. Gunnarsson:

„Þetta var tilvitnun í skýrslu Seðlabankans. Í þessum kafla í skýrslu Seðlabankans er einnig rætt um veitingu ríkisábyrgða og sú skoðun sett fram að æskilegast sé að komast hjá ríkisábyrgðum á fjárfestingarlánum til verksmiðjunnar í eins ríkum mæli og mögulegt sé. Æskilegt sé að takmarka hversu langt íslenska ríkið gangi í veitingu ábyrgða og í þessu tilviki sé um að ræða stórar ábyrgðir sem komi til viðbótar væntanlegum lántökum ríkissjóðs vegna kaupa á hlutabréfum í fyrirtækjum. Ákvörðun fyrir fram um ríkisábyrgð á lántökum vegna fyrirtækisins dragi úr því öryggi sem fólgið sé í áhættumati einstakra lánastofnana í fjárfestingunni því að með ríkisábyrgð að baki skiptir áhætta í fyrirtækinu miklum mun minna máli fyrir lánveitandann en ella. Því sé eðlilegt að gefa ekki fyrirheit um tilteknar ríkisábyrgðir fyrr en alvarlegar viðræður hafi farið fram við hugsanlega lánveitendur. Seðlabankinn telji æskilegt með tilliti til áhættu að fá fram álit erlendra fjármálastofnana á hagkvæmni fjárfestingarinnar og jafnframt áhættu með því að leita eftir lánum án ríkisábyrgða.

Lokaþáttur í þessum kafla í umsögn Seðlabankans er svohljóðandi:

„Ef dregið er saman það, sem sagt er hér að ofan um fjármögnun, er niðurstaðan sú að fjármögnun hinnar fyrirhuguðu verksmiðju hafi ekki verið nægilegur gaumur gefinn af verkefnisstjórn. Það er skoðun bankans að ræða þurfi við hugsanlega lánveitendur áður en lengra er haldið um ákvarðanatöku, þannig að hægt sé að leggja fram raunhæfa fjármögnunaráætlun samhliða öðrum áætlunum sem verkefnisstjórn hefur unnið að. Meðan slík áætlun er ekki fyrir hendi verður ekki sagt að undirbúningsathugunum sé lokið. Liður í undirbúningi slíkrar fjármögnunaráætlunar væri áhættumat á fjárfestingunni og hinum ýmsu liðum hennar. Eins og áður hefur verið vikið að fælist slíkt áhættumat óbeint í undirtektum lánveitenda við lánsbeiðnum, en væntanlegur eigandi verksmiðjunnar þarf sjálfur að mynda sér skoðun um þá áhættu sem verið er að taka. Þessi atriði, sem hér eru tekin til umr., geta að sjálfsögðu haft áhrif á arðsemi fyrirtækisins til hins betra eða verra.““

Niðurstaða Jóns Sigurðssonar hjá Þjóðhagsstofnun varð m. a. sú að markaðsspáin væri of bjartsýn og reikna mætti með að greiðslustaða verksmiðjunnar væri verri en áætlanir stjórnar Kísilmálmvinnslunnar sýndu.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Þá skýringu sem ég hef fengið á því hvers vegna nú væri nauðsynlegt að veita ríkisstj, þessa heimild til að reisa og reka kísilmálmverksmiðjuna tel ég hæpna. Við verðum að gera okkur grein fyrir að með samþykkt þessarar þáltill. er Alþingi að mínu viti að óþörfu að heimila að opna fyrir framkvæmdir og fjárhagslegar heimildir eins og 200 millj. kr. hlutafé og ríkisábyrgð fyrir 300 millj. kr. láni sem nú er bundið í lögum um kísilmálmverksmiðju frá maí 1982.

Sú meginröksemd, sem fram er borin fyrir því að Alþingi eigi nú að opna allar gáttir í þessu efni, er sú að það muni styrkja stöðu þeirra við væntanlega samningsaðila. Hæstv. iðnrh. orðaði það svo á Alþingi að stóriðjunefndin teldi rétt að fram komi það álit hennar að samningsstaða í viðræðum við mögulega eignaraðila muni styrkjast ef Alþingi veitti ríkisstj. með þál. ákvörðunarvald um framgang málsins. Þetta sagði ráðh., ákvörðunarvald um framgang málsins, hvorki meira né minna.

Ég tel þessa röksemd um nauðsyn þess að samþykkja nú allar heimildir ríkisstj., sem bundnar eru í lögum, veika, ekki síst í ljósi þess að Alþingi er hér með að afhenda hæstv. iðnrh. óúttyllta ávísun án þess að vita hver verður fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs í þessu máli.

Ég vil minna á í því sambandi að þegar samningar tókust við Unlon Carbide á sínum tíma um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga var samtímis tekin ákvörðun um að reisa og reka verksmiðjuna. Niðurstaðan af samningi við annan eignaraðila var sú forsenda sem menn byggðu afstöðu sína á á þeim tíma. Hvers vegna er slíkt ekki eðlilegt nú?

brtt. sem ég flyt er ítrekun þess og stuðningur við okkar samningamenn og iðnrh., að miðað við stöðu mála í dag sé rétt að halda áfram af fullum hraða eins og kostur er að leita samninga við innlenda eða erlenda aðila um að reisa og reka verksmiðjuna án þess að opna þurfi fyrir allar flóðgáttir á fjármagni í bundnum heimildum í lögum um kísilmálmverksmiðjuna. Það liggur fyrir að ekki verður farið í neinar framkvæmdir á þessu ári. Af hverju á Alþingi að vera að veita framkvæmdavaldinu meiri heimildir að því er varðar fjármagn en nauðsynlegar eru? Af hverju má Alþingi ekki taka afstöðu á þeim eðlilegu forsendum að hafa heildarmynd af dæminu um þá fjárhagslegu áhættu sem tekin er með þessu fyrirtæki? Ég tel þessa málsmeðferð vanvirðu við Alþingi.

Ég flyt hér brtt. á þskj. 981 við þessa þáltill. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leita samvinnu við innlenda og erlenda aðila um að reisa og reka kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð og leggja fyrir Alþingi, ef viðunandi niðurstaða fæst, samning ásamt grg. um stöðu markaðsmála og orkuverð til verksmiðjunnar.“

Ég vil ítreka það að með samþykkt þessarar brtt. er á engan hátt verið að tefja fyrir að þessi verksmiðja verði reist, enda liggi fyrir heildarmynd af þeirri fjárhagslegu áhættu sem ríkissjóður tekur áður en Alþingi heimilar framkvæmdavaldinu að nýta fjármagnsheimildir þær sem eru í lögum um kísilmálmverksmiðju. Þessi brtt. felur í sér stuðning Alþingis við hæstv. iðnrh. og framkvæmdavaldið um að halda áfram með þetta verkefni og leita samvinnu við aðra eignaraðila um að reisa og reka verksmiðjuna án þess að opna fyrir fjárhagsheimildir sem er algjörlega óþarft á þessu stigi málsins. Umfram allt er efni þessarar brtt. það að þau eðlilegu og sjálfsögðu vinnubrögð verði höfð uppi hér á hv. Alþingi, þegar ákvarðanir eru teknar um að fara út í svo áhættusaman rekstur sem kostar á þriðja milljarð kr., að fyrir liggi allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að þm. geti tekið afstöðu í þessu máli á eðlilegum forsendum, þ. e. þegar heildarmynd af þessu verkefni liggur fyrir.

Ég vil, með leyfi forseta, einnig lesa það nál. sem brtt. fylgir og afgreiðslu af minni hálfu á málinu úr nefnd. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

Atvmn. hefur m. a. fengið til fundar við sig um þetta mál forsvarsmenn Kísilmálmvinnslunnar hf. og lögð hefur verið fram í nefndinni grg. um arðsemisútreikninga sem unnir hafa verið af stjórn Kísilmálmvinnslunnar.

Af þeim gögnum, sem fram hafa verið lögð, er ljóst að mikið hefur verið unnið í fyrirtækinu við að kanna rekstrargrundvöll þess og ýmislegt bendir til þess að fyrirtæki þetta geti reynst arðvænlegt þó að um markaðsmál, eignaraðild og orkuverð ríki vissulega nokkur óvissa á þessu stigi málsins. Jafnframt hefur verið upplýst að í gangi séu samningaumleitanir við erlenda aðila um hlutdeild í fyrirtækinu.

Ljóst er að næsta verkefni, sem liggur fyrir, er að ganga úr skugga um samstarfsvilja hinna erlendu aðila og ljúka samningum við þá, eða innlenda aðila, enda náist viðunandi samningar sem staðfestir verða af Alþingi, — svo og að markaðsmál verði athuguð betur og hvernig að þeim verði staðið.

Minni hl. nefndarinnar leggur áherslu á að að þessu verki verði unnið einmitt nú og vill með brtt. sinni ítreka þetta, og að samningar um eignaraðild verði lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar. Að staðfestum slíkum samningum er fyrst komið að því að taka ákvarðanir um að hefja byggingu verksmiðjunnar og því ekki um verulega fjárþörf að ræða fyrr en þá.

Stofnkostnaður verksmiðjunnar er verulegur og eðlilegt og rétt að lokaákvörðun Alþingis í málinu varðandi fjárframlög ríkisins, ríkisábyrgð á lánum og ákvörðun um framkvæmdir sé tekin þegar endanleg mynd liggur fyrir, í formi samnings við aðra eignaraðila, og grg. um markaðsmálin.

Minni hl. álítur að áður en Alþingi samþykkir að reisa verksmiðjuna verði þessir þættir að liggja ljósir fyrir og það sé bæði óeðlilegt og óvarlegt af Alþingi að taka ákvörðun um að heimila framkvæmdir og opna fyrir heimildarákvæði í lögum þar að lútandi, svo og heimild um 200 millj. kr. hlutafé frá ríkissjóði og ríkisábyrgð fyrir 300 millj. kr. láni áður en gerð hefur verið fullnægjandi grein fyrir þessum þáttum á Alþingi.

Minni hl. telur að þessi málsmeðferð sé eðlileg, sem lögð er til með brtt., og tefji ekki fyrir framkvæmdum því að upplýst hefur verið í nefndinni að engar líkur séu á að þær hefjist fyrr en á næsta ári. Brtt. minni hl. miðar að því að þessi vinnubrögð verði við höfð og málinu þannig komið á eðlilega braut. Segja má því að þessi þáltill., sem flutt er af iðnrh., sé óþörf og óeðlileg á þessu stigi málsins.

Tekið skal fram, að hér eru ekki túlkuð sjónarmið annarra þm. Alþfl. í þessu máli.“

Eins og segir hér síðast í þessu nál. eru ekki túlkuð sjónarmið annarra þm. Alþfl. í þessu máli. Þó að leiðir skilji nú í þessu ákveðna máli við mína félaga í þingflokknum, eins og fram kemur í nál., sem annað verktag vilja hafa á, þá tel ég að sú afstaða, sem ég hef hér tekið, sé í fyllsta samræmi við stefnu Alþfl. varðandi áhættusaman rekstur fyrirtækja í tengslum við stóriðju og orkumál þannig að hver kostur sé metinn af fyllstu nákvæmni út frá hagkvæmni og áhættuþáttum fyrir þjóðfélagið og afstaða ekki tekin út frá öðru en þeim meginþáttum fyrst og fremst. Ég tel því að afstaða mín sé í fyllsta samræmi við þá ábyrgu fjármálastjórn sem Alþfl. hefur gert kröfu um að eigi sér stað í íslensku þjóðlífi.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Treysti Alþingi sér ekki til að viðhafa þá málsmeðferð sem ég hef hér talað fyrir og samþykki ekki þá till. sem og málsmeðferð, sem ég legg til, mun ég greiða atkvæði gegn þáltill.