19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6366 í B-deild Alþingistíðinda. (5876)

91. mál, fiskeldi og rannsóknir á klaki sjávar- og vatnadýra

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og sjá má á nál. á þskj. 989 skila ég séráliti í þessu máli. Það er út af fyrir sig ekki vegna þess að ekki sé hollt og gott að minna á fiskeldi því að ég hef þá trú að fiskeldi, og þá eingöngu eldi á tegundum sem seljast fyrir hátt verð, geti orðið mjög merkilegur og arðgefandi atvinnuvegur í þessu landi.

Um þessi efni hafa verið fluttar margar till., bæði á þessu þingi og öðrum, að nú skuli gengið til þess að efla þetta og hitt. Það er auðvitað þarft að minna á hlutina, en það er til lítils að samþykkja þáltill. ár eftir ár, jafnvel þótt góðar séu, ef ekkert er síðan gert með þær, og jafnvel þó eitthvað væri gert með þær vantar til þess verkefnis mikið fé.

Ég er hins vegar alveg sannfærður um að hversu miklu fé sem til þessarar greinar er varið skilar það sér margfalt aftur. Í stað þess að einbeita sér að þessu fyrir mörgum árum, bæði á vegum hins opinbera og alls ekki síður einstaklinga, höfum við verið að leggja gífurlega fjármuni í alls kyns fjárfestingar þar sem nóg var fyrir. Ég held að það sé öllum ljóst núna og enginn leyfi sér í alvöru að halda því fram að við höfum ekki smíðað t. d. of mikið af togurum. Ég held að það geri enginn lengur í alvöru. Við höfum verið nokkrir hér með þá kenningu til allmargra ára og það er sýnilegt að skipafloti okkar er allt of stór fyrir það veiðimagn sem til er.

Þannig stendur á með þessa till., að þó að tillgr. út af fyrir sig sé ekki með eins mörgum göllum og málið í heild held ég að það sé nauðsynlegt að gera hv. þm., og ekki síður flm. en öðrum, ljóst að grg., útskýringar og fskj. eru óaðskiljanlegur þáttur þáltill. í heild. Enginn leggur fram þáltill. með ályktunarorðunum einum. Til þess að skilja hvað að baki býr semja menn grg. til að lýsa því hvað tillögumenn meina með því að flytja viðkomandi till. Það var einmitt þess vegna sem ég treysti mér ekki til þess að mæla með samþykkt þessarar till. Það gat auðvitað ekki komið neinum á óvart og alls ekki flm. sjálfum að ég tæki þessa afstöðu því að ég hafði fyrir löngu lýst minni skoðun varðandi þetta mál í mínum þingflokki og það oftar en einu sinni.

Til þess að gera langt mál stutt og svo ekki sé eytt löngum tíma í ræðuhöld um þetta mál vil ég, herra forseti, með leyfi lesa mitt nál.:

Með flutningi þessarar þáltill. er enn hreyft afar mikilvægu máli þar sem er eldi dýrra fisktegunda í sjó. Í þáltill. er hins vegar, að mati minni hl. nefndarinnar,“ og minni hl. nefndarinnar stendur hér, „blandað saman gjörólíkum hlutum með því taka inn eldi í þorski, ufsa og slíkum legundum. Að mati minni hl. er útilokað að eldi af því tæi geti borgað sig, og gerir hvergi hér á Vesturlöndum, nema um alveg einstaka og sérstaka afmarkaða smámarkaði sé að tefla.

Að mati minni hl. er nauðsynlegt að aðskilja þessa þætti og leggja fyrst og fremst áherslu á eldi dýrra legunda í sjó eða söltu vatni með tilstyrk jarðvarma og notkun hvers kyns fóðurs sem nærhendis er úr sjávarútvegi. Mikil reynsla er til í slíku eldi, ekki síst í Noregi.

Minni hl. leggur áherslu á að hér getur verið um stórkostlegan auðgefandi og öruggan atvinnuveg að ræða ef rétt er að staðið, en til þess þarf að leggja í þetta verkefni verulegar fjárhæðir. Þær skila sér margfaldlega til baka.

Minni hl. telur að:

1. flytja þurfi frv. að heildarlöggjöf í þessum efnum í stað þáltill.,

2. að slíkt eldi verði undir sjútvrn.,

3. að strax verði hafist handa því að hafi verið þörf á viðbót arðsamrar atvinnugreinar þá er það nú nauðsyn.“

Þetta mun nú hafa, herra forseti, svo að ég skjóti aðeins inn í, skolast dálítið til í prentun eða vélritun. „Minni hl. getur ekki stutt þáltill. óbreytta, en metur mikils áhuga flm. og annarra þeirra sem hreyft hafa slíkum málum fyrr, en metur þó mest framtak þeirra sem hafist hafa handa.

Meiri hl. nefndarinnar hefur lagt til að till. sé vísað til ríkisstj. og vonast undirritaður til að hún gefi gaum þeim tillgr. sem fjalla um eldi á dýrum fisktegundum.“

Um þetta, herra forseti, þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð og mun ég þess vegna láta staðar numið um þessa till. nema sérstakt tilefni gefist til, en þá getum við líka rætt þetta mál vel og vandlega.