19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6371 í B-deild Alþingistíðinda. (5880)

91. mál, fiskeldi og rannsóknir á klaki sjávar- og vatnadýra

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég kem hér fyrst og fremst til að taka undir með síðasta ræðumanni um nauðsyn þess að styrkja landbúnað og það verður áreiðanlega ekki betur gert með öðru en aukinni fiskirækt. Svo vill til að ég hef nokkra þekkingu á því hvað hægt er að gera í laxeldi t. d. og vil nú ekki játa að við séum svo illa á vegi stödd á því sviði að þar sé allt að hefjast. Það hafa nú um fjögurra ára skeið verið gerðar tilraunir með laxeldi í lónum í Kelduhverfi sem hafa borið þann árangur að væntanlega verður slátrað 100 tonnum af úrvalslaxi á þessu ári og það fer síðan vaxandi ár frá ári. Þetta er eingöngu tilraun sem gæti skilað nokkurn veginn verðmæti sem svaraði til hátt í aflaverðmætis togara, bara það sem kemur úr þessari tilraunastarfsemi. (Gripið fram í.)

Þessi þekking er sem sagt komin inn í landið og við verðum að nálgast það að vita eins mikið um fiskirækt og sjálfir Norðmenn sem fluttu á síðasta ári út 17 016 tonn af laxi og reikna með að flytja út yfir 20 000 tonn á þessu ári og jafnvel upp undir 40 000 tonn á árinu 1985 og síðan hækkandi jafnt og þétt. Markaðir virðast vera nánast ótakmarkaðir og verð fer hækkandi ár frá ári á þessari úrvalsvöru því svo ótrúlegt sem það kann að virðast þá er eldislax enn þá betri en villti laxinn. Hann er mýkri og skemmtilegri fæða, sérstaklega þegar hann er reyktur og grafinn.

En þarna í Kelduhverfinu gerist það að sjálfsögðu, þar sem menn voru í tiltölulega erfiðum landbúnaði, að bjartsýni vaknar þegar slíkt fyrirtæki kemur. Það útvegar auðvitað þó nokkuð mörgum mönnum vinnu að jafnaði, kannske þremur, fjórum og allt upp í tuttugu þegar slátrað er, og umsvif eru talsverð. Þarna sýnist mönnum að sé hægt fljótlega að fara upp í 500–600 tonna framleiðslu og kannske mun meira, kannske svo þúsundum skiptir. En þá er þeirri sveit borgið og þar geta menn þó stundað búskap líka, búið á sínum býlum og unnið að hluta til við slíkan rekstur.

Eitthvað í þessa áttina er mjög víða hægt að gera, hygg ég. Norðanlands og kannske á Vestfjörðum og norðanverðum Austfjörðum mundi þó sjálfsagt ekki vera unnt að rækta lax í sjó öðruvísi en þegar heitt vatn væri til afnota, mjög mikill hiti til þess að hita sjóinn upp. En hér suðvestanlands væri, hygg ég, hægt, t. d. á Reykjanesi, að rækta mikið magn af laxi og silungi jafnvel án þess að hita sjóinn upp. En þar er raunar tækifæri til að dæla sjónum á land og nota jarðvarma til að hita hann upp þannig að hann gæti verið allt árið um kring 11°–12°, sem er kjörhiti þessara fiska, og sjá í starfi hve gífurlega yfirburði við höfum yfir Norðmenn í því efni því að sjór í Noregi, jafnvel í Suður-Noregi, getur farið allt niður undir 0°, og skapar auðvitað geysilega erfiðleika þegar það gerist, og allt upp undir 20° og það skapar álíka erfiðleika því að þá hálflamast laxinn og auðvitað mikill bakteríugróður og sjúkdómar sem því fylgir þegar sjávarhiti verður það mikill.

Ég vildi aðeins taka undir orð hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Það er brýn nauðsyn að gera allt sem unnt er til að efla íslenskan landbúnað einmitt núna þegar þessir miklu erfiðleikar steðja að, fyrst og fremst fjárhagslegir erfiðleikar, og að vísu hafa verið erfið ár frá náttúrunnar hendi að undanförnu, en þarna er einmitt stærsta tækifærið og það fljótvirkasta til að bjarga fjölmörgum sveitum landsins.