19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6372 í B-deild Alþingistíðinda. (5881)

91. mál, fiskeldi og rannsóknir á klaki sjávar- og vatnadýra

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil sem einn af flm. þessarar þáltill. leggja nokkur orð í belg. Ég tek undir með tveimur hv. síðustu ræðumönnum að einmitt á þessu sviði felast möguleikar sem maður litur vissulega með mikilli bjartsýni til, sem komið geta inn í atvinnusköpun og styrkt byggð úti á landsbyggðinni og orðið reyndar öllum efnahag og atvinnulífi landsmanna í heild til góða.

En ástæðan fyrir því að ég kom hingað upp var aðallega sú að hv. 4. þm. Suðurl. hóf hér mjög athyglisverða umræðu um hversu hlutdeild óbreyttra hv. þm., ef svo má orða það, hefur að hans mati farið minnkandi í frumvarpssmíð og ef ég man rétt mæltist honum efnislega á þá leið að hlutdeild þeirra í því hefði farið síminnkandi og þetta hefði færst meira yfir á það að flytja till. til þál. Nú held ég að ekki sé ástæða til að lasta það form sem eru till. til þál. Þm. vekja athygli á málum með ýmsum hætti: með fsp., með því að ræða þau utan dagskrár og flytja till. til þál. og að sjálfsögðu einnig frv. þó að frv., sérstaklega um viðamikil málefni, lögðum fram eða gerðum af einstökum þm., hafi sjálfsagt fækkað. Um það er ég ekki sá réttasti til að dæma.

Ég held að það beri að fagna hverju því frumkvæði sem þm. sýna í málum sem þessum og menn þurfi þá ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því með hvaða hætti það birtist. Það er þannig þegar um viðamikil mál er að ræða að það er mikið verk að semja frv., ég tala nú ekki um heildarlöggjöf fyrir heilan málaflokk eins og hér er á ferðinni, og mín stundarreynsla er sú, að einstökum þm. sé það að mörgu leyti mjög erfitt verk vegna þeirrar aðstöðu sem þeir búa við hér í þinginu. Ég teldi það fyllilega athugandi að komið yrði til móts við þetta með því móti að auðvelda einstökum þm., einstökum þingflokkum þetta verk með því að þingið sæi þeim fyrir betri aðstöðu og jafnvel starfskröftum.

Eins og í pottinn er búið í dag held ég að ekki sé nema að mörgu leyti eðlilegt að einstakir þm. eða hópar þeirra veigri sér við að fara út í það mikla verk sem er að semja slíka heildarlöggjöf fyrir heilan málaflokk. Það þýðir ekki að þeir sjái ekki þörfina á því. Sú leið sem þeim er þá gjarnan opin er einmitt sú að álykta um að þörf sé á samræmdri heildarlöggjöf eða löggjöf í einhverjum efnum. Það er einmitt það sem hér hefur verið gert. Einstakir þm. eru kannske það afkastamiklir að þeir treysti sér vel til að semja slíka heildarlöggjöf og vel má vera að sé farið í gegnum þingsögu síðustu ára standi upp úr einstök afreksmenni sem hafi samið mikið af slíkum samræmdum lögum og lagabálkum og ef svo er þá hafa þeir vissulega fullan rétt til að koma hér upp og gagnrýna hvað aðrir þm. eru linir við að hella sér úf í slík verk. Ég skal verða manna fyrstur til að taka ofan fyrir slíkum mönnum sem geta komið hér upp og bent á afrek sín í þessum efnum og með fullum rétti gagnrýnt aðra þm. þar af leiðandi. Þeim mönnum skal ég votta virðingu mína hvenær sem er þegar þeir hafa sannfært mig um að þeir hafi efni á að tala sem slíkir.

Herra forseti. Ég hefði sem einn af flm. að sjálfsögðu kosið að þessi þáltill. hlyti hér jákvæða afgreiðslu, en ég geri mikinn mun á því hvort henni er vísað til ríkisstj. annars vegar með að mörgu leyti jákvæðri umsögn og ummælum eins og hér er gert eða hvort hún er látin liggja, svo ég tali nú ekki um hvort hún er felld. Ég teldi það mjög alvarlegt í sjálfu sér ef hv. Alþingi treystir sér til að fella till. um þetta á þessu stigi málsins þar sem það er nánast samdóma skoðun allra þm. sem hér hafa komið upp og talað um þetta mál og önnur tengd því að hér felist einmitt miklir möguleikar og þörf sé átaks í þessum efnum.

Þess vegna vil ég gera skýran greinarmun á því hvort þessari till. er, eins og hér er gerð till. um, vísað til ríkisstj. eða hvort hún hefði hlotið einhver önnur og verri örlög. Ég sætti mig fyrir mitt leyti fyllilega við það að svo fari að henni verði vísað til ríkisstj.