19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6373 í B-deild Alþingistíðinda. (5888)

289. mál, rannsókn og meðferð nauðgunarmála

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. N. hefur fjallað um till. og orðið sammála um að mæla með samþykkt hennar óbreyttrar. Í n. varð hins vegar nokkur umr. um ýmis atriði í grg. þeirri sem fylgdi till. Það var aðallega um þrjú atriði að ræða, en það voru þau tilmæli að gert yrði ráð fyrir að sá læknir er skoðar brotaþola svo og rannsóknarlögreglumaður sá er yfirheyrir hann séu jafnan konur, og einnig er gert ráð fyrir að lögreglu sé skylt að benda brotaþola á aðstoð kvennaathvarfa. Okkur þótti, þar sem gera verður ráð fyrir að hér sé um að ræða rannsókn allra nauðgunarmála, till. hljóta að taka til þeirra tilvika sem varða 203. gr. hegningarlaga, en sú grein fjallar um þegar slíkir atburðir verða milli fólks af sama kyni. N. vill því koma því á framfæri að hún telji eðlilegt að brotaþoli eigi jafnan kost á því að óska eftir að þeir sem um mál hans fjalla séu fólk af sama kyni þar sem því verður við komið. Að öðru leyti vill n. taka fram að hún væntir þess að till. hljóti samþykki. En varðandi þessi ákvæði um að sérstök tilmæli beri að virða um starfsmenn sem um málið fjalla, að þeir séu af sama kyni og brotaþoli, þá vill n. taka fram að hún telur það ekki óeðlilegt í þessum tilvikum, þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga um jafnrétti karla og kvenna nr. 78/1976, en þar er atvinnurekanda í raun og veru ekki heimilt að velja fólk til starfa eftir kynjum.