19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6374 í B-deild Alþingistíðinda. (5889)

289. mál, rannsókn og meðferð nauðgunarmála

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. allshn. fyrir meðhöndlun þessa máls. Ég man nú ekki alveg daginn sem það var lagt fram hér í þinginu en mér tókst ekki að mæla fyrir því fyrr en 26. apríl s. l. og komst þá ekki á mælendaskrá fyrr en liðið var fram á kvöld og talaði hér yfir sárafáum þm. Þess vegna m. a. svo og vegna þess hversu áliðið var orðið þings óttaðist ég að þetta mikilvæga mál kynni að týnast í öllu því málaflóði sem hv. allshn. hefur haft til meðferðar núna síðustu vikurnar. Ég hef sérstaka ástæðu til að þakka n. fyrir afgreiðslu málsins og fellst á réttmæti athugasemda sem fram koma í nál., enda sýndi framsögumaður, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, mér þá tillitssemi að hafa samráð við mig varðandi orðalag álitsins og þakka ég henni fyrir það.

Herra forseti. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að till. verði samþykkt í atkvgr. hér síðar í dag og ég vil að lokum láta í ljósi þá einlægu von okkar þriggja, mín, Guðrúnar Agnarsdóttur og Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, sem stóðum að flutningi þessarar till., að framkvæmd hennar verði til þess að bæta aðstöðu brotaþola til muna. Ofbeldi er birting alls hins versta í mannlegu eðli og nauðgun er ofbeldi af alvarlegasta tagi. Fá afbrot eru erfiðari viðfangs og hafa varanlegri áhrif á sálarlíf brotaþola. Það minnsta sem við getum gert er að reyna að bæta hag þeirra sem um sárt eiga að binda í málum sem þessum.