19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6384 í B-deild Alþingistíðinda. (5901)

111. mál, áfengt öl

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Út af ummælum hv. síðasta ræðumanns um að hann hefði tæplega átt von á því að þetta mál væri tekið til umr. Hann hafði orð á því og talaði um offors í þessu máli og að verið væri að knýja það fram til lykta. Hann vék að því að gert væri ráð fyrir að umr. um utanríkismál yrðu hér á eftir. Tekið var fram í upphafi fundar að það yrði. Það var tekið fram í upphafi fundar að það yrði leitast við að taka til umr. þau mál þar sem nál. lægju fyrir. Það er ekki í verkahring forseta að kveða upp dóm um það hvaða mál eru þess verð að þingið ræði þau. Þess vegna eru öll þau mál, sem nefndir hafa skilað áliti um, jafnrétthá að því leyti að það ber að taka þau til umr. ef kostur er.

Nú var vitað að það yrði knappur tími fyrir öll þessi mál. Þess vegna lét ég skrifstofu þingsins gera lista yfir röð mála á þann veg að eftir því sem við yrði komið yrðu þau mál tekin fyrst þar sem nál. var skilað fyrst. Skv. þessu hefur verið reynt að haga því hvaða mál væru tekin til umr. á þessum fundi.