19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6386 í B-deild Alþingistíðinda. (5903)

111. mál, áfengt öl

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að gefa hér neinar yfirlýsingar um það hversu vitleg þessi till. er eða gagnleg, en eitt er víst að hún fjallar ekki um bjór heldur um atkvæðagreiðslufyrirkomulag. Ég hafði aðeins hugsað mér að velta hér upp fjórum atriðum í sambandi við þessa till. sem mig langar að biðja þm. að hugleiða.

Í fyrsta lagi, hafa menn hugleitt það að hér er aðeins verið að tala um skoðanakönnun? Ég get ekki séð það af orðanna hljóðan í tillgr. að niðurstöður þessarar almennu atkvæðagreiðslu séu bindandi á einn eða annan veg og ég vil benda mönnum á að skoðanakannanir er hægt að framkvæma á annan máta en með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Annað atriði, sem mig langaði til að minnast á, hefur nú þegar verið gert að umræðuefni og það er hvort menn vilji nota þjóðaratkvæðagreiðsluheimildina á þennan máta, þ. e. á mál af þessu tagi. Hv. þm. Stefán Benediktsson talaði um það að áfengismál væru mikilvæg fjölskyldumál. Ég er honum fyllilega sammála í því og vil þá segja að það eru fjölmörg önnur mál, eins og t. d. fæðingarorlof, sem ég mundi þá mjög gjarnan vilja fá í þjóðaratkvæðagreiðslu og er líka mjög stórt og mikið fjölskyldumál, svo ekki sé minnst á önnur þjóðþrifamál og önnur stór þjóðmál sem um er að ræða.

Þessar spurningar hafa komið hérna fram áður: Er rétt að nota þjóðaratkvæðagreiðslu á mál af þessu tagi á meðan viðamikil og mikilvæg mál eru ekki borin undir þjóðaratkvæði? Ég þarf ekkert að minnast á 40 ára sögu lýðveldisins og ástæður sem þar er að finna fyrir því að bera ýmis mál sem upp hafa komið undir þjóðaratkvæði en ekki var gert. Um það er hv. þm. fullkunnugt.

Þriðja atriðið, sem ég vildi minnast á og einnig hefur verið rætt um hér, er það hvort menn hafa hugsað úf í áhrifin sem þetta mál og almenn atkvæðagreiðsla um þetta mál hefði á þær kosningar sem færu fram samhliða. Það er ekki ljóst hvort átt er við sveitarstjórnarkosningar í þessari till. eða alþingiskosningar, einfaldlega þær sem á undan eru. Einhver orð hef ég heyrt um það að það hljóti að vera kosningar til Alþingis sem notaðar yrðu til að greiða atkvæði um þetta mál. Þá er það ljóst og það vitum við sem hér erum, við höfum reynslu af kosningum, kannske umfram aðra hér á landi, að kosningaundirbúningur og umræða um þau mál sem verið er að kjósa um þegar kosið er til Alþingis mun fyrst og fremst snúast um þetta mál. Ég set þar við stórt spurningarmerki og ég tel sjálf ákaflega óheppilegt að mál af þessu tagi yfirskyggi önnur og stór mál sem menn eru í rauninni að kjósa um í alþingiskosningum.

Ef út í almenna atkvæðagreiðslu yrði farið eins og till. hljóðar upp á væri því annað að mínu mati gersamlega ófært en að hafa hana sér, óháða öðrum kosningum í landinu.

Og þá er það fjórða atriðið sem mig langaði til að velta hér upp. Það er mjög dýrt. Eru menn tilbúnir til að leggja í slíkan kostnað út af máli eins og þessu á meðan hægt er að gera skoðanakannanir á miklu ódýrari máta?

Þessi atriði langaði mig til að taka hér fram og biðja menn að hugleiða varðandi efni þessarar till.